Febrúar í leikskóla er skemmtilegur

Það er gaman að vera leikskólabarn í febrúar. 

Þá er svo margt skemmtilegt á döfinni og leikskólafólk hefur í mörg horn að líta.

Bolludagur kemur og fer með fullt af bollum, svo góðum að allir eru í sæluvímu, sérstaklega Anna Dóra, sem er mikill nammigrís.  Ekki er sprengidagurinn síðri, því að saltkjöt og baunir eru beinlínis mannbætandi fyrir sælkera eins og hana.

Og þá er komið að því besta, öskudeginum.

Þann dag þarf að undirbúa vel og æfa öskudagslögin.  Einnig þarf að huga að öskudagsbúningum, því að þá má ekki vanta. 

Svo rennur dagurinn upp og í huga barns er hann eins og segir í laginu: „ákaflega skír og fagur”. Það var hann einnig í ár og þó dagurinn væri fagur, voru börnin enn fegurri. Þau höfðu æft öskudagslög og búið til „tunnu” til að slá „köttinn” úr. Svo var slegið upp balli og allir fengu popp og djús. Í hádeginu var svo pylsupartý og dagurinn var fullkominn. Já, leikskólalífið er dásamlegt.