Eyðibýlarannsókn í Eyjafirði

Þessa dagana er verið að rannsaka eyðibýli og yfirgefin hús í Eyjafirði. Rannsóknin er hluti af rannsóknar- og nýsköpunarverkefninu "Eyðibýli á Íslandi", sem er á vegum áhugamannafélags sem arkitektar, sagnfræðingar og jarðfræðingar o.fl. standa að.

Markmið verkefnisins er að meta menningarlegt vægi einstakra húsa og varðveita þannig valin yfirgefin hús á Íslandi. Í framhaldinu að kanna hvort grundvöllur sé fyrir því að eyðibýli og yfirgefin hús í sveitum landsins verði gerð upp af eigendum þeirra og/eða stofnað félag um rekstur og útleigu þeirra í ferðaþjónustu. Verkefnið var á nýliðnum vetri tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands, Menningarverðlauna DV og Hvatningarverðlauna iðnaðarráðherra.

Fyrstu skref verkefnisins voru tekin sumarið 2011 þegar rannsókn fór fram á eyðibýlum og yfirgefnum húsum í Austur-Skaftafellssýslu, Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu. Afraksturinn var heildstætt yfirlit um 103 yfirgefin hús sem kom út í veglegu riti. Í sumar mun rannsóknin ná til tveggja ólíkra landsvæða, annars vegar Norðurlands eystra og hins vegar Vesturlands. Fyrstu vettvangsferðir sumarsins hófust í sveitarfélögunum Snæfellsbæ og Langanesbyggð 11. júní sl.

Í sumar vinna átta háskólanemar úr verkfræði, arkitektúr, jarðfræði og fornleifafræði við rannsóknina með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Þar sem til stendur að skrásetja á komandi árum allt landið á þennan máta mun skapast verðmætur þekkingargrunnur um líf Íslendinga fyrr á tímum.

Rannsóknum sumarsins lýkur með kynningu á verkefninu og bókaútgáfu á haustmánuðum. Með tíð og tíma mun ritröðin Eyðibýli á Íslandi ná yfir öll yfirgefin íbúðarhús í sveitum landsins.

Rannsóknarhópur sumarsins er fullur tilhlökkunar fyrir komandi könnunarleiðöngrum og sendir landsmönnum fyrirfram sínar bestu kveðjur. Hægt er að fylgjast með framgangi verkefnisins á facebook: www.facebook.com/Eydibyli

Einnig má hafa samband við rannsakendur í gegnum netfangið eydibyli@gmail.com

Á myndinni eru háskólanemarnir átta sem vinna að rannsókn á eyðibýlum á Vesturlandi og Norðausturlandi í sumar. Efri röð frá vinstri: Hildur Guðmundsdóttir, Axel Kaaber og Birkir Ingibjartsson. Neðri röð frá vinstri: Steinunn Eik Egilsdóttir, Þuríður Elísa Harðardóttir, Bergþóra Góa Kvaran, Olga Árnadóttir og Sólveig Guðmundsdóttir Beck.