Rafmagni hefur verið komið á í Hörgárdal og Öxnadal með neyðarstreng.

Um miðjan dag í dag tókst loks að koma á rafmagni í Hörgárdal og Öxnadal, en þar hefur verið rafmagnslaust meira og minna síðan á þriðjudagskvöld. Starfsmenn RARIK hafa síðan á fimmtudag barist við að reyna að laga loftlínur beggja meginn í Hörgárdal til að freista þess að koma rafmagni á, það tókst því miður ekki eftir hefðbundnum leiðum m.a. vegna þess að mikið hafði hlaðist á línur sem liggja í gegnum þétt skóglendi.  Til þeirrar neyðaraðgerðar var gripið í morgun að leggja háspennustreng ofanjarðar um tæplega kílómeters kafla milli bæjanna Skriðu og Lönguhlíðar og þurfti RARIK sérstakt leyfi til þess, vegna hættunnar sem því fylgir að láta háspennustreng liggja ofan á jörðu.  Með þessari neyðaraðgerð tókst að koma rafmagni á nær alla bæi, en þeir bæir sem ekki eru tengdir rafmagni með þessum hætti hafa fengið rafstöðvar.   Ljóst er að starfsmenn RARIK og aðstoðarmenn þeirra hafa lagt mikið á sig til að freista þess að koma rafmagni á.

Vonast er til þess að nú sé þessu rafmagnsleysi lokið og á næstu dögum verður farið í það með viðkomandi aðilum að vinna úr því sem gerst hefur síðustu daga og tryggja með öllum ráðum að slíkir hlutir sem þetta rafmagnsleysi geti ekki endurtekið sig.

Sjá mynd: