Endurbætur á Hlíðarbæ hafnar á ný

Hafin er vinna við endurbætur á félagsheimilinu Hlíðarbæ. Anddyri hússins verður breytt verulega og snyrtingarnar endurgerðar frá grunni.

Þar sem nú er fatahengi í anddyrinu verður útbúin setustofa og fatahengið fært til og minnkað. Gerð verður aðstaða til að bera fram veitingar í anddyrinu, þannig að unnt verður að nota anddyrið fyrir samkomur án þess að aðalsalurinn sé opnaður. Hönnuður endurbótanna er Ragnheiður Sverrisdóttir, arkitekt. Áætlað er að þeim ljúki um miðjan október í haust. Á myndinni sjást formaður húsnefndar og húsvörður, ásamt aðstoðarmanni, munda verkfærin við að undirbúa komu smiða og annarra sem koma munu að endurbótunum.

Notkun á Hlíðarbæ hefur aukist verulega eftir að aðalsalur hússins var endurbættur veturinn 2006-2007.