Bókun sveitarstjórnar Hörgársveitar 16.12.2019 - óveður og rafmagnsleysi

Óveður og rafmagnsleysi

Sveitarstjórn Hörgársveitar eru það mikil vonbrigði að það óveður sem gekk yfir landið í síðustu viku hafi valdið þeim mikla vanda og tjóni sem varð.  Í Hörgárdal og Öxnadal var rafmagnslaust í nær fjóra sólarhringa þar sem það skorti lengst.   Ljóst er að þær loftlínur raforku sem enn eru í sveitarfélaginu eru á engan hátt tilbúnar að mæta miklum vetrarveðrum eða hvassviðri og staðsetning hluta þeirra í gegnum þéttan trjágróður er óásættanlegur.  Því er algjörlega hafnað að farið verði í einhverjar framtíðarviðgerðir á þeim tveimur köflum loftlína í sveitarfélaginu sem nú brugðust.  Krafan er að strax og hægt er, verði þessum línum komið í jörð. Það er krafa Hörgársveitar að RARIK og Landsnet sjái síðan til þess að allar þær loftlínur rafmagns sem í sveitarfélaginu eru, fari í jörð eins fljótt og mögulegt er.  Á þetta við um allar sveitalínur, Dalvíkurlínu og núverandi byggðalínu. Allar þessar línur eru komnar til ára sinna og ljóst að þær standast ekki þær kröfur sem nútímasamfélag gerir varðandi raforkuöryggi.  Stjórnvöld sjái til þess að þessi dreififyrirtæki verði studd til að fara í slíkt átak um allt land.  Því hlýtur að vera hafnað að þessi fyrirtæki verði áfram látin greiða arð í ríkissjóð meðan þessi stóru verkefni bíða þeirra. 

Fjarskiptakerfi svæðisins þarf að yfirfara með því markmiði að aldrei komi upp sú staða að vegna skorts á fjarskiptum verði lífi stefnt í hættu.   Það hefði getað gerst hér í sveitarfélaginu nú, þegar allt fjarskiptasamband lá niðri á ákveðnu svæði vegna rafmagnsleysis og neyðarafl var uppurið.

Sveitarstjórn Hörgársveitar sendir öllum þeim sem áttu erfiða daga í síðustu viku í rafmagnsleysi og köldum húsum sínar kærleikskveðjur.  Hugur okkar og vilji til að létta birðina var sannarlega til staðar og sveitarfélagið gerði margt til að svo væri gert.  Öll áhersla var lögð á það um leið og veðrinu slotaði að opna alla vegi þannig að enginn var einangraður vegna ófærðar.  En auðvitað var aðal verkefnið að koma rafmagni á eins fljótt og frekast var kostur.  Strax á fimmtudagsmorgni þegar hægt var að skoða skemmdir á línum kom í ljós að það yrði mikið og erfitt verkefni.  Því miður varð verkefnið erfiðara og tímafrekara en vonir stóðu til og þær voru fleiri en ein vonbrigðarstundirnar þegar rafmagnið datt aftur út, eftir að náðst hafði að koma því inn eftir hefðbundnar viðgerðir.  Sú aðgerð sem að lokum var farið í á laugardag var neyðaraðgerð, þegar fullreynt var að venjulegar viðgerðir báru ekki árangur. 

Starfsmenn RARIK og aðstoðarmenn þeirra eiga þakkir skyldar fyrir sín miklu störf þessa daga og nætur.  Sveitarfélagið reyndi eins og kostur var og út frá þeim upplýsingum sem við höfðum á hverjum tíma að miðla þeim áfram til íbúa.

Samstarf okkar við aðgerðarstjórn lögreglu og björgunarsveita hefði mátt vera nánara og er það hlutur sem ræða verður á vettvangi almannavarna, hvernig fulltrúar hverrar sveitarstjórnar koma að vinnu með aðgerðarstjórn í staðbundnum vanda eins og hér var.  Björgunarsveitum og lögreglu eru hér með færðar þakkir fyrir þeirra þátt í því að aðstoða íbúa og létta undir með þeim á ýmsan hátt.

Verkefni sveitarstjórna og ríkisvalds er nú að tryggja að slíkir atburði eins og urðu hér í síðustu viku endurtaki sig aldrei þó slæm veður komi aftur.