Anna Dóra hefur orðið

Sælt veri fólkið. Ég heiti Anna Dóra og flutti í Hörgárbyggð fyrir rúmu ári.

Mig langar að kynna sjálfa mig til sögunnar sem fréttaleysuritara heimasíðu Hörgárbyggðar.

Lýst var eftir fréttariturum, en ég hef ekki aðgang að neinum bitastæðum fréttum í byggðarlaginu, en langar samt óskaplega til að leggja eitthvað til málanna.  Mér var vel tekið og hér er ég komin með fyrstu hugleiðingarnar:

Sem nýr íbúi Hörgárbyggðar sé ég sveitarfélagið í öðru ljósi en áður.  Eða öllu heldur, ég sé sveitarfélagið.

Áður var þetta bara hreppur norðan Akureyrar, en þar bjó ég áður en ég fluttist í Hörgárbyggðina.

Ég notfærði mér aðallega þjóðveg eitt til að komast í gegn á leið minni um landið og til að skreppa í sund og á böll.

Ég sótti böllin í Kuðungi á sínum tíma og skemmti mér með ágætum.  Svo fór ég að stunda þar þorrablótin eftir að Freyjulundur í Arnarneshreppi hætti að sinna mér og sendi mig í Glæsibæjarhreppinn gamla.

Kartöflurnar mínar vildi ég fá frá Einarsstöðum / Sílastöðum og eina sundlaugin sem mér þótti þess virði að fara í með börnin mín var Þelamerkurlaug.

Byggingavöruverslunin á svæðinu, sem reyndar er akureyrskt fyrirtæki, var hvorki fugl né fiskur á sínum tíma, svo ekki sótti ég þjónustuna þangað.  Nú er hins vegar öldin önnur og einnig þjónustan í byggingavöruversluninni, sem í millitíðinni hefur hlotið nýtt nafn og fengið nýtt og alveg stórfínt andlit út á við, bæði hvað varðar útlit og þjónustu.

Þelamerkursundlaug er enn sú besta og kartöflurnar kaupi ég ennþá frá bændunum í Kræklingahlíð.

Kuðungur er aðeins til í minningunni, en Hlíðarbær er ekki bara sá staður sem ég sæki skemmtanir á, heldur hef ég líka fengið að kjósa þar.

Ég hef meira að segja farið þangað og keypt skó á dæturnar.

Þelamerkurskóli er orðinn hluti af lífi mínu og Birkihlíð er gatan mín. 

En því miður er verið að loka síðasta jarðneska viðkomustað kærrar vinkonu minnar sem lést í síðasta mánuði. 

Blessuð sé minning hennar.

Nafn mitt var á lista sem lagður var fram til að mótmæla lokun Skjaldarvíkur og ég stend við þá skoðun mína að það sé skelfilegt til þess að hugsa að þurfa að útiloka gamalt og sjúkt fólk þegar kemur að rétti þess til að eiga rólegt ævikvöld í kyrrð og öryggi sveitarinnar.

Þetta er fólkið sem lagði okkur í hendurnar land sem fátt þarf að gera við nema njóta.

Gamla fólkið er löngu búið að búa í haginn fyrir okkur.

Það á betra skilið en að vera kastað á milli stofnana, sama hversu gott elliheimili Hlíð er. 

Það er leitt til þess að vita að ekki skuli vera hægt að halda úti starfsemi í Skjaldarvík.  Hennar mun verða sárt saknað af mörgum, bæði öldruðum og aðstandenum þeirra.

Það var alltaf vitað að svona yrði málum háttað og ekkert við því að gera, en mikið væri gaman að geta endurreist þetta góða skjól fyrir ástvini okkar.

Blessuð sé minning Skjaldarvíkur.