Af hrútasýningu

Hrútasýning á veturgömlum hrútum hjá Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps var á Staðarbakka sl. föstudag. Dómari var Ólafur G Vagnsson og Rafn Arnbjörnsson sá um ómsjármælingu.

Til sýningar komu 27 hrútar og dæmdust þeir mjög vel, 12 fengu 84 stig eða meira, aðrir 12 fengu 82 – 83,5 stig og aðeins 3 fengu undir 82 stigum. Besti hrútur sýningarinnar var dæmdur Þrymur 05-250 með 87 stig, fyrir læri fékk hann 18,5 og ómmæling hans var 35/4,8/4. Í öðru sæti varð Krókur 05-150 með 86 stig og í þriðja sæti varð Leppur 05-151 með 85 stig. Allir eru þessir hrútar á Staðarbakka, en stutt er í landsþekkta hrúta í ætterni þeirra. Þrymur er sonur Hyls 01-883 og dóttursonur Bessa 99-851, Krókur er sonarsonur Gríms 01-928 og dóttursonur Flotta 98-850 og Leppur er sonarsonur Sjóðs 97-846.

Þess má að lokum geta, að Krókur 05-150 hefur verið að sýna alveg fádæma góða útkomu í kjötmati afkvæma sinna nú í haust þar sem gerðarmat er 12,7 og fitumat 8,1 og fallþungi þeirra er 17,44 kg.