Aðsóknar- og sýningamet á Melum

Leiksýningin „Stundum og stundum ekki“, sem Leikfélag Hörgdæla hefur verið að sýna að Melum í Hörgárdal frá því í byrjun mars, mun slá sýninga- og aðsóknarmet hjá leikfélaginu. Gamla sýningametið var 21 sýning á leikritunum „Þrek og tár“ og „Síldin kemur og síldin fer“. Aðsóknarmet verður líka slegið, því nú þegar hafa um 1.800 manns séð sýninguna.

Leikritið hefur verið sýnt 20 sinnum og ákveðið hefur verið að sýna það 5 sinnum til viðbótar vegna gríðarlegrar aðsóknar. Svo að segja uppselt hefur verið á nærri allar sýningar og ljóst er að 2.000 manna múrinn verður rofinn og rúmlega það.

Þessar vinsældir hafa ekki ennþá sett strik í reikninginn hjá bændum í Hörgárdal en nú styttist í sauðburð og önnur vorverk þar þannig að síðasta sýning verður laugardaginn 2. maí.

Nú er sem sagt hver að verða síðastur að sjá þessa velheppnuðu leiksýningu hjá Leikfélagi Hörgdæla. Smella má á auglýsingu hér til vinstri til að fá upplýsingar um miðapantanir o.fl.