Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Út er komin hjá Sölku bókin „Aðgát skal höfð í nærveru sálar“. Höfundur hennar er sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, sóknarprestur á Möðruvöllum.

Þessi bók er um lífsreynslu og úrvinnslu tilfinninga. Nú eru þeir tímar í samfélagi okkar að mörgum finnst mikilvægt að líta um öxl, skoða lífið upp á nýtt og vinna úr því sem liðið er. Skoða hvaða gildi hafa gagnast okkur vel og hvaða gildi hafa leitt okkur á villigötur.

Höfundurinn hefur verið prestur í borg og sveit í yfir aldarfjórðung og unnið ötult starf við sálgæslu.

Þar sem hún var lengi eini kvenpresturinn á höfuðborgarsvæðinu hafa konur ekki síst leitað mikið til hennar en hún byggir bókina á reynslu sinni af samtölum við fólk á öllum aldri við ýmsar krossgötur á lífsleiðinni.

Hér fjallar Solveig Lára um hvert æviskeið fyrir sig, allt frá bernsku til elliára og hikar ekki við að taka á viðkvæmum málum svo sem einelti, heimilisofbeldi, mismunandi kynhneigð, breytingaskeiði, áföllum og depurð, en bendir á hvernig vinna má úr erfiðum aðstæðum, byggja upp sjálfstraust og öðlast hugarró.