Á nýju ári

Áramótin eru oft tilefni til að horfa til framtíðar og um leið og litið er um öxl og ígrundað það sem liðið er. 

Á liðnu ári var byrjað að vinna að aðalskipulagi Hörgárbyggðar, sem var orðið mjög brýnt að koma á.  Stefnt er að því að aðalskipulagsgerðinni verði lokið  fyrri hluta árs 2007.  Þegar hefur verið haldinn einn kynningarfundur, sem var þokkalega vel sóttur, en það er mikilvægt að íbúar sveitarfélagsins fylgist vel með þessari vinnu og fái tækifæri til að koma með athugasemdir og ábendingar. 

 

Eins og margir hafa eflaust orðið varir við stendur einnig yfir vinna við fornleifaskráningu, en hún hófst 2004 og mun ljúka í sumar.  Búið var að skrá fornminjar í gamla Glæsibæjarhreppi en nú er verið að skrá í hinum gömlu hreppunum. 

Ákveðið var að taka þátt í verkefninu Staðardagskrá 21 og er sú vinna í fullum gangi.  Staðardagskrá 21 er heildaráætlun um þróun hvers samfélags um sig fram á 21. öldina.  Áætlunin snýst ekki eingöngu um umhverfismál í venjulegum skilningi, heldur er henni ætlað að taka jafnframt tillit til efnahagslegra og félagslegra þátta.  Í raun og  veru er hún fyrst og fremst velferðaráætlun, sbr. heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga: www.samband.is, staðardagskrá 21.  Fundur með íbúunum um staðardagskána verður snemma á árinu og er fólk hvatt til að mæta á hann þegar þar að kemur.

Á árinu var lokið við að setja ljósastaura við heimreiðir, svo nú eiga allir að sitja við sama borð hvað það varðar.  Þetta var nokkuð kostnaðarsöm framkvæmd en gefur birtu og er til þæginda fyrir þá sem um heimreiðarnar fara, ekki síst skólabörn.

Á árinu 2005 fjölgaði íbúum Hörgárbyggðar um 8, úr 391 í 399 samkv. bráðabrigðatölum Hagstofunnar eða um 2,0%.  Við megum vel við una miðað við mörg önnur sveitarfélög hér Norðanlands.  Nítján sveitarfélög eru á svæði Eyþings, í Eyjafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslum, og fjölgaði í 5 þeirra en fækkaði í hinum.

Ég vil nota tækifærið og bjóða nýja íbúa velkomna í sveitarfélagið.

Sex hús eru nú risin við Birkihlíð og tvö munu bætast við fljótlega.  Fólk er flutt í tvö þessara húsa.  Þá hafa risið íbúðarhús víðar í sveitarfélaginu og áætlað að byggja fleiri.  Þá hafa bæst við nýir sumarbústaðir og gistiskálar. 

Mikil eftirspurn er eftir lóðum hér í Hörgárbyggð og því nauðsynlegt að útbúa byggingaland.  Fólksfjölgun og eftirspurn eftir lóðum leiðir til þess að fjölga þarf leikskólarýmum.  Verið er að vinna í þeim málum.

Þó nokkur tími og vinna fór í það átak sem var í gangi um sameiningu sveitarfélaga, sem kosið var um 8. október s.l.  Eins og allir vita kom í ljós að ekki var mikill vilji til sameiningar hér á Eyjafjarðarsvæðinu að svo stöddu, a.m.k. ekki fyrir þeirri tillögu sem lögð var fram.  Í kjölfarið hafa Siglfirðingar og Ólafsfirðingar samt sem áður ákveðið að kjósa um sameiningu síðast í janúar, enda samþykktu þeir sameiningartillöguna 8.okt.sl.

Mikil vinna hefur verið hér á skrifstofunni við áætlanagerð og reikningshald í árslok.  Nú fer í hönd tími uppgjörs og endurskoðunar.  Fjárhagsleg staða sveitarfélagsins hefur heldur farið batnandi undanfarin misseri og vonandi verður svo áfram.  En framundan eru fjárfrek verkefni og veitir því ekki af að halda vel á spöðunum, ef sveitarfélagið á að geta sinnt sæmilega öllum þeim verkefnum sem því ber.  Sífellt bætast við verkefni sveitarfélaga, en tekjurnar tæpast að sama skapi.  Hörgárbyggð fær um 37% af sínum tekjum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.  Það er nokkuð hátt hlutfall og væri ákjósanlegt að það gæti lækkað. 

Það þarf að halda vel á spöðunum til að tekjur nægi fyrir rekstrargjöldum.  Margir útgjaldaliðir hafa hækkað undanfarin ár.  Umhverfismál og félags­þjónusta eru vaxandi málaflokkar.  Menntamálin eru þó langtum fjárfrekasti liðurinn hér eins og í svo mörgum öðrum minni sveitarfélögum, þ.e. grunnskólinn, leikskólinn og tónlistarskólinn eða allt að 65%.  Öll höfum við metnað til þess að gera vel við börnin okkar og unglingana og því gerir sveitarfélagið eins vel við þessa starfssemi eins og það hefur tök á.

Helstu framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á árinu auk fjölgun leikskólarýma / stækkun, er að ganga frá götunni í Birkihlíð,  fara í úrbætur í frárennslismálum í hverfinu norðan Lónsins  og unnið að því að til verði byggingalóðir.  Síðan verður haldið áfram með skipulagsmálin.

Að lokum vil ég óska öllum íbúum Hörgárbyggðar gæfu og góðs gengis á nýju ári og þakka fyrir liðið ár.  Sérstakar þakkir fá allir þeir sem hafa unnið á einn eða annan hátt fyrir sveitarfélagið, bæði starfsfólk sveitarfélagsins og stofnana þess sem það rekur sér eða í samstarfi og allt nefndarfólk og aðrir þeir sem lagt hafa sveitarfélaginu lið.

 

Helga Arnheiður Erlingsdóttir

 

Birt í fréttabréfi Hörgárbyggðar.