Skipulags- og umhverfisnefnd fundur nr. 88
Skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar
88. fundur
Fundargerð
Miðvikudaginn 14. desember 2022 kl. 08:30 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins.
Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Agnar Þór Magnússon varaformaður, Sunna María Jónasdóttir, Ásrún Árnadóttir og Bjarki Brynjólfsson í skipulags- og umhverfisnefnd, Vigfús Björnsson framkvæmdastjóri SBE og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.
Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.
1. Dalvíkurlína 2
Kynningartímabili aðalskipulagstillögu vegna Dalvíkurlínu 2 og göngu-, hjóla- og reiðleiða meðfram strengleiðinni lauk 18. nóvember 2022. Fyrir fundinum liggja skipulagsuppdráttur og greinargerð dags. 12. desember 2022 sem uppfærð hafa verið með hliðsjón af endurgjöf sem barst á kynningartímabilinu.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að aðalskipulagstillögunni verði vísað í auglýsingu skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
2. Göngu- og hjólastígur
Við kynningu aðalskipulagstillögu vegna Dalvíkurlínu 2 var fundað með öllum landeigendum á strengleiðinni og rætt við þá um legu hjóla- og gönguleiðar samhliða jarðstrengnum. Í kjölfar þessa samráðs var mótuð tillaga um legu göngu- og hjólaleiðar frá Lónsbakkahverfi að Þelamerkurskóla annars vegar og hins vegar frá gatnamótum Ólafsfjarðarvegar á Moldhaugnahálsi að Hofi og þaðan eftir Bakkavegi að Hjalteyri.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ofangreindar göngu- og hjólaleiðir verði færðar inn á aðalskipulagsuppdrátt vegna Dalvíkurlínu 2, sem vísað skuli í auglýsingu skv. bókun við 1. dagskrárlið.
3. Reiðstígar
Hörgársveit hyggst nýta vinnuslóða sem lagður verður vegna Dalvíkurlínu 2 sem reiðleið á kaflanum frá Ásláksstöðum við sveitarfélagsmörk Akureyrarbæjar meðfram Hlíðarvegi (nr 818) að Hraukbæjarkoti og þar að þjóðvegi 1.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að lega reiðleiðar meðfram Hlíðarvegi skuli löguð að strengleið Dalvíkurlínu 2 á aðalskipulagsuppdrætti vegna Dalvíkurlínu 2, sem vísað skuli í auglýsingu skv. bókun við 1. dagskrárlið.
4. Fossá, efnistaka vegna bakkavarna.
Fyrir fundinum liggur erindi frá Birni Jóhanni Steinarssyni sem óskar eftir heimild sveitarstjórnar til að taka 1000 rúmmetra af möl úr farvegi Fossár við þjóðveg 1. Tilefni efnistökunnar er að svo mjög hefur safnast af möl í farveg árinnar á þessum stað að hún flæðir yfir bakka sína. Erindinu fylgir leyfi Fiskistofu vegna efnistökunnar. Efnistökusvæðið er á svæði 9 samkvæmt aðalskipulagi.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt og framkvæmdaleyfi gefið út þegar samþykki allra eigenda jarða á svæði 9 liggur fyrir.
5. Glæsibær, erindi vegna efnislosunar og landmótunar
Tekið fyrir erindi frá eigendum Glæsibæjar varðandi efnislosun og landmótun í landi Glæsibæjar en erindið var sent í grenndarkynningu og barst eitt erindi frá Ríkharði Hafdal á grenndarkynningartímabilinu. Í erindinu kemur fram eftirfarandi athugasemd:
Undirritaður er með viðkomandi landsvæði á leigu og ekkert í leigusamningi sem heimilar leigusala að nýta landið til slíkra nota.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur ekki unnt að gefa út framkvæmdaleyfi vegna framkvæmdarinnar í óþökk umráðamanns landsins. Nefndin beinir þeim tilmælum til umsækjanda að hann semji við umráðamann landsins um ráðstöfun þess áður en lengra er haldið.
6. Kvikmyndaverkefni Hjalteyri og Syðri-Bakka
Lagt fram erindi þar sem óskað er heimildar til kvikmyndatöku á Hjalteyri. Eins er óskað eftir heimild til að koma fyrir tímabundinni leikmynd að Syðri-Bakka.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt og að umsóknaraðila verði gert að hafa samráð við skipulags- og/eða byggingarfulltrúa vegna leyfisskyldra framkvæmda og frágangs í tengslum við verkefnið.
7. Vegagerðin, heinsun í vegköntum
Skipulags- og umhverfisnefnd beinir því til Vegagerðarinnar að haft verði samráð við landeigendur áður en hreinsað efni er skilið eftir á landeignum þeirra.
8. Nafn á þéttbýlinu við Lónsá
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að þéttbýlið fái formlega nafnið „Lónsbakkahverfi“.
Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 10:10