Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 39
Skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar
39. fundur
Fundargerð
Þriðjudaginn 27. október 2015 kl. 16:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.
Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Jóhanna María Oddsdóttir og Agnar Þór Magnússon í skipulags- og umhverfisnefnd ásamt Ómari Ívarssyni skipulagsfulltrúa og Snorra Finnlaugssyni sveitarstjóra.
Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.
Þetta gerðist:
1. Deiliskipulag Dysnes
Fyrir fundinum lá erindi frá Hafnarsamlagi Norðurlands þar sem lögð er fram deiliskipulagstillaga fyrir Dysnes í Hörgársveit. Jafnframt fylgir kynning á tillögunni. Höfundur deiliskipulagsins, Árni Ólason arkitekt mætti til fundar hjá nefndinni og fór yfir tillöguna.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að beina því til sveitarstjórnar að auglýsa deiliskipulagstillöguna fyrir Dysnes ásamt umhverfisskýrslu skv. 41. grein skipulagslaga nr. 123/2010.
2. Deiliskipulag Hjalteyri
Árni Ólason arkitekt sem vinnur að endurskoðun á deiliskipulagstillögu fyrir Hjalteyri fór yfir þá vinnu sem í gangi er. Jafnframt var farið yfir þá vinnu sem unnin hefur verið við húsakönnun á Hjalteyri sem ákveðið var að vinna samhliða endurskoðun deiliskipulags.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að beina því til sveitarstjórnar að kynna lýsingu deiliskipulags fyrir Hjalteyri skv. 40 gr. s
kipulagslaga nr. 123/2010
3. Deiliskipulag Lónsbakka
Árni Ólason arkitekt sem vinnur að endurskoðun á deiliskipulagstillögu fyrir Lónsbakka fór yfir þá vinnu sem í gangi er. Jafnframt var farið yfir þá vinnu sem framundan er varðandi hönnun á stækkun íbúðabyggðarinnar við Lónsbakka.
4. Aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024
Tillaga að aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024 var auglýst frá 24. ágúst 2015 með athugasemdarfresti til 8. október 2015. Auglýst var í Lögbirtingarblaðinu, Fréttablaðinu, Dagskránni Akureyri, heimasíðu sveitarfélagsins og fréttabréfi útgefnu af sveitarfélaginu. Skipulagsgögn voru aðgengileg á skrifstofu sveitarfélagsins, á heimasíðu sveitarfélagsins og hjá Skipulagsstofnun.
Tvær umsagnir bárust:
1. Skipulagsstofnun, 9. september 2015.
a. Gerð er athugasemd við umfjöllun um strandsvæði.
Svar: Bætt verður við í greinargerð umfjöllun um strandsvæði.
b. Gerð er athugasemd við umfjöllun um stefnu um byggingar eða mannvirki á landbúnaðarsvæðum en bent er á texta sem er reglugerðarheimild sem á ekki við að birta í aðalskipulagi.
Svar: Reglugerðartexti verður felldur út úr greinargerð.
c. Bent er á að vísun í lög um mat á umhverfisáhrifum taki mið af þeim breytingum sem hafa tekið gildi á árinu.
Svar: Texti verður leiðréttur.
d. Yfirfara þarf myndir í umhverfisskýrslu.
Svar: Myndir verða leiðréttar m.t.t. athugasemdar.
2. Norðurorka, 8. september 2015.
a. Óskað er eftir að getið verði nýrrar hitaveitulagnar í greinargerð aðalskipulags.
Svar: Eftirfarandi texta verður bætt við í greinargerð aðalskipulags;
Þar sem jarðhitarannsóknir hafa leitt í ljós að gjöfult jarðhitasvæði er á Arnarnesi við Hjalteyri er gert ráð fyrir frekari nýtingu á því í framtíðinni. Takmarkandi þáttur í nýtingu svæðisins er aðveituæðin sem lögð var 2003 og er flutningsgeta hennar nánast fullnýtt, sem krefst nýrrar aðveitulagnar. Einnig er jarðhitasvæði við Ytri-vík/Syðri-haga þar sem nýting fyrir Akureyri gæti komið til álita. Núverandi lögn frá Arnarnesi er lögð undir botn Hörgár á móts við Skipalón. Staðsetning lagnarinnar veldur áhættu í rekstri þar sem lögnin getur verið óaðgengileg til viðhalds vegna aðstæðna við ánna.
Norðurorka gerir því ráð fyrir að á gildistíma aðalskipulagsins verði lögð ný hitaveitulögn frá Arnarnesi á Hjalteyri til Akureyrar. Einnig er gert ráð fyrir að lögnin verði á seinni stigum framlengd frá Arnarnesi til norðurs að sveitarfélagsmörkum Dalvíkurbyggðar. Áætlað er að nýja lögnin verði að mestu í veghelgunarsvæði Ólafsfjarðarvegar og mögulega Bakkavegar þegar komið er norður fyrir Moldhaugaháls en óljósara er með lagnaleið frá Akureyri að dælustöð í Skjaldavík. Þverun Hörgár mun þá verða á brú sem auðveldar viðhald, eftirlit og eykur rekstraröryggi. Norðurorka mun þegar nánari tilhögun liggur fyrir sækja leyfi fyrir lögninni til hlutaðeigandi landeigenda og Vegagerðarinnar.
Átta athugasemdir bárust:
3. Sigurður Aðalsteinsson, 1. október 2015.
a. Gerð er athugasemd við að hvergi sé getið þeirra landnotkunar sem lýtur að skotveiðum.....
Svar: Ekki er sett stefna um skotveiði í greinargerð aðalskipulags en almennt er hún heimil með leyfi landeiganda á svæðinu sem setur reglur þar um.
b. Tryggja þarf að slík landnotkun valdi sem minnstu ónæði fyrir aðra og raski alls ekki næturró íbúanna. Einnig þarf að hyggja að hugsanlegri truflun skotveiða á kvikfénað.
Svar: Þar sem fyrir hendi eru hverfisverndarsvæði verða sett inn ákvæði um stýringu á skotveiðum.
4. Walter Ehrat, 3. október 2015.
a. Gerð er athugasemd við að tilgreind stærð tjaldsvæðis við Mela sé 1,4 ha. Lóð Mela er einungis 0,3 ha. Það þarf að koma skýrar fram um hvaða landsvæði er að ræða sem er hugsað fyrir tjaldsvæði. Þar sem suður og austur af Melum er ræktarland sem núverandi eigandi ætlar sér að rækta upp og nýta til landbúnaðs.
Svar: Um er að ræða einungis afmörkun tjaldsvæðis. Stærð svæðis verður leiðrétt í greinargerð og afmörkun athuguð m.t.t. landbúnaðarsvæðisins.
5. Ólafur Valsson, 4. október 2015.
a. Aðalskipulagsuppdráttur er fylgir tillögunni er ekki í fullu samræmi við lýsingu svæðis nr. 505 á náttúruminjaskrá, sem tekin er upp í greinargerð með henni, í kafla 3.3.5. á bls. 25. Misræmið sem um ræðir varðar Hólahóla. Óskast uppdrátturinn leiðréttur í endanlegri gerð hans til samræmis við texta náttúruminjaskrár og með vísan til neðangreindra og meðfylgjandi gagna.
Til skýringar um uppruna villunnar er tekið fram að aðalskipulagsuppdráttur í aðalskipulagi Hörgárbyggðar 2006 til 2026 er einnig rangur að þessu leyti, þ.e. mörk svæðis nr. 505 á náttúrminjaskrá eru einnig ranglega færð inná þann uppdrátt. Ástæða þessa mun eftir því sem næst verður komist óopinber kortagrunnur Umhverfistofnunar, sem tekinn var úr umferð fyrir allmörgum árum vegna þess hversu óáreiðanlegur hann var, var notaður sem heimild. Sá grunnur var rangur frá upphafi að því er varðaði mörk svæðis nr. 505 að því leyti að hann tók ekki tillit til þess að Hólahólar eru austan Öxnadalsár. Svæðið nær samkvæmt þessu og í samræmi við texta náttúruminjaskrár austur fyrir Öxnadalsá. Texti skrárinnar ræður. Hólahólar eru samkvæmt þessu hluti af svæði nr. 505 á náttúruminjaskrá. Ber að haga aðalskipulagsuppdrætti til samræmis við þá staðreynd.
Svar: Afmörkun svæða á náttúruminjaskrá er fengin frá Umhverfisstofnun. Það er ekki á valdi sveitarfélagsins að breyta afmörkun svæða á náttúruminjaskrá, þar sem þau eru mögulega röng. Til breytingar á þeim mörkum þá mun sveitarfélagið senda inn erindi til Umhverfisstofnunar sem verður að samþykkja tillögu að breytingu.
Á vegum Umhverfisstofnunar hefur verið unnið að leiðréttingu afmörkun svæðanna sbr. eftirfarandi umsögn 14.mars 2013.
„Náttúruminjar. Breyting á mörkum svæðis nr. 505 Hraunsvatn og Vatnsdalur er til athugunar hjá Ust.“
Í aðalskipulagi Hörgárbyggðar var sem dæmi bætt við eftirfarandi texta í greinargerðina og því fylgt eftir með beiðni um breytingar:
„Í náttúruminjaskrá Umhverfistofnunar er ósamræmi á milli texta og uppdráttar á svæði 507. Sveitarstjórn mun óska eftir að mörkum verði breytt í samræmi við tillögur um hverfisvernd á svæðinu þar sem tekið er tillit til verndargildis svæðisins“.
6. Sókn lögmannsstofa, 5. október 2015.
Gerð er athugasemd við Hlíðarveg 818, ofan þjóðvegar 1 og innan marka Hörgársveitar.
Við skoðun skipulagsuppdráttar er lega reiðvegar og gönguleiða um Hlíðarveg 818, með sama sniði og í fyrra skipulagi. Í greinargerð með nýja aðalskipulaginu (bls. 47) kemur fram að megin reiðleiðir verði greiðfærar og malarbornar þar sem þess gerist þörf. Þessi afstaða felur í sér að Hlíðarvegur 818 verður ekki lagður bundnu slitlagi á meðan gert er ráð fyrir reiðleið á svæðinu.
Uppbygging Hlíðarvegar 818 og tilhögun reiðvega uppbyggingar á svæðinu varðar beina hagsmuni íbúa og eigenda við veginn. Það er búið í 8 húsum við Hlíðarveg. Fullorðnir íbúar eru 20 talsins. Af þessum 20 þurfa 10 daglega að sækja vinnu eða skóla inn á Akureyri. Eitt býlið Hraukbær, er eitt stærsta svínabú landsins og er þangað umferð vegna aðkeypts vinnuafls. Þá eru þungaflutningar til eða frá býli daglegur viðburður.
Uppbygging sérstaks reiðvegar myndi án efa kalla á að landeigendur á svæðinu þurfa að láta land af hendi undir veginn. Slíkt er ekki sjálfgefið og raunhæfasti kosturinn til að tryggja uppbyggingu reiðvega er að aðalskipulag geri ráð fyrir honum annarsstaðar.
Þá er afstaðan sú að reiðvegur á svæðinu virðist einkum nýtast hestamönnum á Akureyri. Þá hefur átt sér stað uppbygging reiðvega neðan Þjóðvegar 1 og það virðist í raun ákjósanlegra fyrir hestamenn að reiðvegur frá hesthúsasvæði Akureyrar tengist því kerfi um sem stysta leið. Slík tenging getur verið innan marka Akureyrarkaupstaðar. Nýting Hlíðarvegar sem reiðvegar er í raun ekki heppilegt fyrir hestamenn, enda felur það í sér áframhald vegarins út eftir, verður meðfram Þjóðvegi 1 á stórum kafla. Meiri líkur eru á veglegri uppbyggingu reiðvega ef aðalskipulag gerir ráð fyrir einum reiðvegi neðan þjóðvegar.
.....lagning sérstaks reiðvegar meðfram Hlíðarvegi 818 yrði kostnaðarsöm, enda þyrfti að brúa fjölmörg ræsi á þeirri leið. Það getur verið ódýrari kostur og í öllu falli metnaðarfyllri að gera ráð fyrir reiðleið niður með Lónsá og undir Þjóðveg 1, með tengingu við reiðleiðir neðan vegar.
Þjónkun við hagsmuni hestamanna á Akureyri virðist að nokkru marki halda malarveginum Hlíðarvegi 818 í gíslingu, þ.e. ekki er lagt bundið slitlag á veginn vegna nýtingar hans sem reiðleið í dag.
Tillaga að nýju aðalskipulagi passar illa við aðalskipulag Akureyrarbæjar. Þannig virðast reiðvegir Akureyrar neðan Þjóðvegar 1 ekki falla að reiðvegi Hörgársveitarmegin. Hið sama getur átt við aðra þætti, t.d. gönguleiðir. Eðlilegt er að sveitarfélögin fjalli sameiginlega um þessi mál og verður Hörgársveit þá að gæta að hagsmunum íbúa Hörgársveitar.
Sveitarfélög bera ábyrgð á kostnaði við uppbyggingu reiðvega, það er því ástæðulaust fyrir lítið sveitarfélag að gera ráð fyrir uppbyggingu reiðvega bæði neðan og ofan Þjóðvegar 1. Ekki er fjallað um stefnu sveitarfélags um gerð og frágang héraðsvega.
Ber að skilja skipulagsuppdrátt aðalskipulags þannig að gert sé ráð fyrir reiðvegi á svæðinu, eða merki textinn (lega eingöngu til skýringar) að vel komi til greina að leggja reiðveg annarsstaðar?
Hefur Hörgársveit fyrirætlanir um uppbyggingu reiðvegar við Hlíðarveg 818 eða er kunnugt um að lagning slíks vegar standi til af hálfu annars aðila?
Hvaða samráð hefur verið haft við Akureyrarkaupstað um framtíðaruppbyggingu reiðvega nærri sveitarfélagamörkum?
Hefur verið athugað, s.s. í samvinnu við Akureyri, hvort fjárhagslega sé hagkvæmara að framtíðaruppbygging reiðvega frá hesthúsasvæði Akureyrar, verði með þeim hætti að tenging reiðvega við Hörgársveit verði neðan Þjóðvegar 1.
Hver er afstaða Hörgársveitar til þess að Hlíðarvegur 818 verði lagður bundnu slitlagi nú?
Þá er jafnfram óskað eftir því að haldinn verði fundur með umbjóðendum mínum um stöðu málsins.
Svar: Lega reiðleiða í skipulagstillögunni var unnin í samráði við reiðveganefnd sem sett var á laggirnar í vinnu við aðalskipulagið.
Í gildandi aðalskipulagi Akureyrarbæjar 2005 – 2018 er gert ráð fyrir reiðleið í landi Akureyrar meðfram Lóninu en sú leið heldur ekki áfram eftir að kemur niður að þjóðvegi nr 1 við Berghól. Einnig er gert ráð fyrir reiðleið meðfram Hlíðarvegi 818. Eðlilegt má telja að reiðleiðin meðfram Lóninu fari niður í Krossanesborgir og út með sjónum og tengist þar þeirri reiðleið sem Hörgársveit hefur nú þegar ásamt landeigendum/ íbúum staðið að uppbyggingu á. Meðan ekki hefur náðst samkomulag við Akureyri um slíka tengingu á sveitarfélagamörkum er áfram gert ráð fyrir reiðleið meðfram Hlíðarvegi 818.
Sú reiðleið skal vera samsíða núverandi vegi og því ekki verið að tala um að nýta Hlíðarveg sjálfan sem reiðveg. Skipulagstillagan er því ekki að koma í veg fyrir að hann verði lagður bundnu slitlagi.
Veghelgunarsvæði tengivega er 15 m frá miðlínu samkvæmt vegalögum og yrðu reiðvegir líklega innan þeirra marka.
Við vinnu við gerð aðalskipulags Hörgárbyggðar á sínum tíma var í gangi samráðsnefnd á milli Akureyrarkaupstaðar og Hörgárbyggðar þar sem landnotkun á sveitarfélagamörkum.
7. Þórður Þórðarson, 8. október 2015.
a. Þar sem landbúnaður hefur tekið miklum breytingum síðustu áratugi og búin eru orðin færri en stærri, þurfa þau miklu meira landrými fyrir starfsemi sína og þörfin fyrir aðgengi að meira landi mun þ.a.l. aukast. Það þarf að taka skýrt fram í skipulaginu að landbúnaðarland verði ekki tekið undir aðra starfsemi.
Svar: Í markmiðum aðalskipulags um landbúnaðarsvæði kemur skýrt fram að verðmætt landbúnaðarland verði ekki tekið undir aðra landnotkun og þannig tryggt að breytingar á landnotkun og landskipti skerði almennt ekki möguleika til notkunar góðs landbúnaðarlands til búvöruframleiðslu í framtíðinni.
b. Athafnasvæði. Dysnes. Enn skýtur upp hugmyndum um uppbyggingu iðnaðarsvæðis á Dysnesi sem búið er að vera í umræðu síðan 1967. Ekkert er í farvatninu annað en skýjaborgir. Þær hugmyndir sem eru nú uppi munu gjörbreyta ásýnd fjarðarins og verða óafturkræfar. Það ætti að vera okkur íbúum sveitarfélagsins víti til varnaðar að gera ekki sömu skipulagsmistök og voru gerð á Moldhaugahálsi. Þau mistök munu verða óafturkræf um aldur og æfi. Mun betra er að byggja upp það athafnasvæði sem fyrirhugað er að byggja á Dysnesi, nær Akureyri sem þá félli að stækkun Akureyrar til norðurs.
Svar: Uppbygging á Dysnesi skapar aukinn fjölbreytileika í atvinnu í sveitarfélaginu. Gerð er skýr krafa í aðalskipulagi og deiliskipulagi um að milda ásýnd svæðisins.
c. Friðland. Friðland út frá Hörgárósum er í skipulaginu alltof stórt og þjónar ekki neinum tilgangi.
Svar: Afmörkunar friðlýstra svæða er fengin frá Umhverfisstofnun. Það er ekki á valdi sveitarfélagsins að breyta afmörkun þeirra, þar sem þau eru mögulega röng. Til breytingar á þeim mörkum þá mun sveitarfélagið senda inn erindi til Umhverfisstofnunar sem verður að samþykkja tillögu að breytingu.
d. Skógrækt. Ýtt er undir skógrækt í sveitafélaginu en skógrækt er mjög vandmeðfarið eins og dæmin sanna. Skógreitir eru oft illa hirtir og sjálfsáð tré eru víða sem illgresi í löndum bænda.
Svar: Í greinargerð aðalskipulags eru settar fram skýr ákvæði um að takmarka skógrækt við þau svæði sem henta illa til annarra nota og skógrækt skerði ekki svæði sem eru mikilvæg vegna sérstæðs náttúrufars, dýralífs, fornleifa eða söguminja. Ennfremur skal hugað að því að trjá- og skógrækt spilli ekki útsýnisstöðum, byrgi ekki ásýnd fjalla og fossa eða valdi snjósöfnun á vegum.
8. Sif Konráðsdóttir, 11. október 2015.
a. Óskað er eftir að felld verði úr aðalskipulagstillögu með öllu 12 hektara svæði fyrir frístundabyggð í landi Hrauns í Öxnadal. Til vara er óskað eftir að svæði fyrir frístundabyggð í landi Hrauns sé óbreytt frá gildandi aðalskipulagi.
a) Ekki er eftirspurn er eftir 20 húsa frístundabyggð í Öxnadal
b) Forsendum fyrir frístundabyggðar-tillögunni er ekki lýst í aðalskipulagstillögu og hvorki er fjallað um hvernig hún fer saman við aðra stefnumótun aðalskipulags-tillögunnar, svo sem um náttúruvernd eða landbúnaðarnot, eða lög nr. 44/1999.
c) Engir valkostir eru settir fram við frístundabyggðartillöguna í samræmi við lög nr. 105/2006
d) Ekkert umhverfismat skv. lögum nr. 105/2006 hefur farið fram á frístundabyggðartillögunni
e) Meðferð skipulagsvalds, líkt og hér er ætlað að fari fram til að uppfylla skilyrði i einkaréttarlegum samningi um viðtöku hlutafjár í einkahlutafélagi árið 2012, fer í bága við lögbundið skipulagshlutverk sveitarfélagsins skv. lögum nr. 123/2010, og lögum 138/2011, sbr. og lög nr. 37/1993 og lög nr. 105/2006
Í kafla 3.1.2 í greinargerð með aðalskipulagstillögu er fjallað um frístundabyggð í dreifbýli. Í töflu á bls. 9 getur að líta lista um svæði undir frístundabyggð. Nr. F-7 á þeim lista er svæði sem nefnt er „Valsnes“. Þetta svæði er í landi jarðarinnar Hrauns í Öxnadal. Í öllum öðrum tilvikum er frístundabyggð í aðalskipulagstillögu kennd við bæjarnafn, og til samræmis við það væri því nafn svæðis „Hraun“ en ekki „Valsnes“.
Úr tillögunni sem nú liggur fyrir er unnt að lesa, en einungis með samanburði við núgildandi aðalskipulag, að gert sé annars vegar ráð fyrir að stækka skipulagt svæði undir frístundabyggð í landi Hrauns í Öxnadal úr 5 hekturum í 12 hektara og að leyfð verði þar 20 sumarhús í stað 10 húsa skv. gildandi skipulagi, og hins vegar að staðsetning frístundabyggðar verði skilgreind uppi í fjallshlíð í landi jarðarinnar (en ekki á Valsnesi).
Í tillögunni er hvergi, hvorki í greinargerð, forsendum né umhverfisskýrslu, að finna umfjöllun um þessa breytingu og þetta aukna svæði úr heimalandi Hrauns, sem alls er 77 hektarar, sem skipuleggja á undir frístundabyggð fast upp við fólkvanginn í Hrauni.
Ekki er hægt að lesa úr gögnunum að hér sé um breytingu að ræða frá gildandi skipulagi eins og áður sagði. Þó er svæði það sem færi undir frístundabyggð annars vegar tekið úr landbúnaðarnotum og hins vegar er um að ræða svæði sem er á náttúrminjaskrá. Er því bæði um umtalsverða breytingu á landnotum að ræða og umtalsverðan hluta alls heimalandsins. Fram kemur í aðalskipulagstillögu að milli 60 og 70 sumarhús séu nú þegar í sveitarfélaginu og flest þeirra séu einstök hús inná jörðum í einkaeigu, sjá kafla 3.1.2. Ef yrði af 20 sumarhúsa byggð í landi Hrauns í Öxnadal, myndi því sumarhúsum í sveitarfélaginu við það eitt fjölga mjög verulega og myndi framkvæmd slíkrar áætlunar breyta heildaryfirbragði sveitarinnar á ýmsan hátt væntanlega.
Tillagan er í beinu ósamræmi við það sem kemur fram í kafla 3.2.1 um landbúnaðarsvæði, í greinargerð á bls. 14, þar sem segir að áður en ákvörðun sé tekin um breytta landnotkun á landbúnarsvæðum skuli virði þess m.t.t. ræktunargildi metið. Þetta er sagt m.a. eiga við um svæði það er svæði eru tekin undir frístundabyggð. Ekkert slíkt mat hefur þó farið fram í þessu tilviki og er tillagan því í ósamræmi við stefnumótun um landbúnaðarsvæði
Vegna eðlis þess lands sem um er að ræða gerir tillagan einnig samkvæmt ofansögðu ráð fyrir svo mikilli breytingu frá gildandi aðalskipulagi að meira en fullt tilefni hefði verið til að geta hennar í kafla 1.4 um helstu breytingar frá gildandi skipulagi. Ella er almenningin í raun gert ókleyft að gera sér grein fyrir breytingunni og er það í andstöðu við tilgang laga nr. 105/2000 og 123/2010.
Efnislega er tillagan einnig frekar óljós hvað varðar þessa 12 hektara frístundabyggð. Af nafni hennar í greinargerð verður ekki einu sinni ráðið að um sé að ræða jörðina Hraun, sem þó skipar, að því er almennt má ætla, töluverðan sess í vitund þjóðarinnar sem og íbúa Hörgrsveitar. Ekkert segir í tillögunni um að þessi frístundabyggð yrði á svæði á náttúruminjaskrá. Þá mætti ætla af nafni því sem svæðinu er gefið, Valsnes, að umrætt svæði sé ekki uppí fjalli heldur á Valsnesi, sem er niður við Öxnadalsá. Þetta síðastnefnda er mikilvægt þar sem í fyrrnefnda tilvikinu yrði um mun meiri röskun á jarðfræði og ásýnd að ræða (sjá Mynd 2 í VIÐAUKA I) heldur en væri á Valsnesi, svæðinu niður við Öxnadalsá, sem er nær röskuðu svæði, bæði rétt og þjóðvegi, og minna áberandi frá vegi. Ofan og sunnan við umrædda 12 hektara eru Hraunshraun og Einbúi, en þau náttúrufyribæri njóta landslagsverndar. Ekkert segir heldur í tillögunni um að nokkrir hektarar af ræktuðu landi færu undir frístundabyggðina.
Örðugt er, að öllu samanlögðu, að koma auga á málefnaleg og lögmæt rök fyrir núverandi tillögu Hörgársveitar um umfangsmikla frístundabyggð í landi Hrauns í Öxnadal. Hvorki texti greinargerðar, forsendna né umhverfisskýrslu varpar neinu ljósi á hana. Slík framsetning er einnig andstæð markmiðum og ákvæðum laga nr. 123/2010 og laga nr. 105/2006 m.a.
Sveitarfélagi ber að fara að lögum við meðferð skipulagsvalds síns. Einn þáttur þess er að sveitarfélagi er óheimilt að gera einkaréttarlega samninga um meðferð þess skipulagsvalds. Kaupsamningur er Hörgársveit gerði við Íslandsbanka og dagsettur er 26. nóvember 2012 um afsal bankans á hlutafé í Hrauni í Öxnadal ehf. sem er eigandi jarðarinnar Hrauns, var skilyrtur við afsal á umræddu 12 hektara svæði, er skilið var undan jörðinni við afsal hlutafjárins, og að heimiluð yrði heimiluð 20 húsa sumarhúsabyggð í skipulagi. Ljóst er að forsendur Hörgársveitar fyrir tillögu um frístundabyggðina í aðalskipulagi er skiyrði sem Íslandsbandi setti í kaupsmaningi árið 2012 fyrir afsali sínu á hlutbréfum í einkahlutafélagið. Skiyrðið um að 12 hektara spilda er afsöluð var Íslandbanka yrði skipulagö sem frístundabyggð fyrir 20 sumarhús er ólögmætt og myndi kaupsamningurinn þannig ógildur að þessu leyti ef á reyndi. Rétt er að geta þess að um aðgang almennings að samningnum fjallaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál í úrskurði sínum í máli A-506/2013 þar sem sagði m.a. “Úrskurðarnefndin lítur til þess að um er að ræða upplýsingar sem lúta með beinum hætti að ráðstöfun opinberra fjárhagslegra hagsmuna og skipulagi lands innan marka sveitarfélagsins.“ Í úrskurðinum kemur skýrt fram að í kaupsamningnum hafi komið fram skilyrði Íslandsbanka fyrir afsali hlutafjárins. Í því skilyrði fólst að Hörgársveit myndi afsala bankanum 12 hektara svæði er það myndi í aðalskipulagi skilgreina sem frístundabyggð. Slík meðferð á skipulagsvaldi sveitarfélags stenst ekki lög þar sem það sviptir almenning lögbundnum rétti sínum til að hafa áhrif á ákvarðanir meðan allir möguleikar eru opnir.
Til stuðnings framangreindu er vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 436/2010 og álits Umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 5434/2008 að því er varðar heimildir sveitarstjórna til samningagerðar við þriðju aðila er hafa áhrif á ákvarðanir þeirra í skipulagsmálum og lögmæti slíkra samningsákvæða.
Í ljósi alls ofangreinds verður að ætla að skynsamlegast sé að falla að svo stöddu frá öllum hugmyndum í aðalskipulagi um sumarhúsabyggð í landi Hrauns í Öxnadal. Í ljósi ofangreinds er og uppi verulegur vafi um lögmæti samninga Hörgársveitar við Íslandsbanka árið 2012, að því leyti sem Hörgársveit skuldbatt sig í samningi einkaréttarlegs eðlis til þess að fara með tilteknum hætti með skipulagsvald sitt í framtíðinni að því er varðaði þá 12 hektara spildu er sveitarfélagið afsalaði til Íslandsbanka á móti hlutabréfum í einkahlutafélaginu Hrauni í Öxnadal og skuldaskiptum þess einkahlutafélags við Íslandsbanka. Áskilinn er allur réttur í þessu sambandi. Beðist er velvirðingar að athugasemdir þessar berast einum virkum degi eftir lok athugasemdafrests.
Svar: Það er stefna sveitarfélagsins að umrætt svæði verði skilgreint sem frístundabyggð í aðalskipulagi, óbreytt frá auglýstri tillögu. Rétt er að benda á að athugasemd þessi barst eftir að auglýstum athugasemdafresti lauk.
9. Bjarni Guðleifsson, 13. október 2015.
a. Hólahólar og Hraunshraun eru mynduð í fleiri en einu berghlaupi, bæði úr Hólafjalli og Drangafjalli. Berghlaupin hafa stíflað rennsli Öxnadalsár en áin síðan brotið sér leið gegnum hraunin. Landamerki jarðanna tveggja eru um Öxnadalsá en hólasvæðið, Hólahólar og Hraunshraun, mynda þó eina landslagsheild. Hraunið úr Drangafjalli nær austur yfir ána, en hólarnir austan ár bera nafnið Hólahólar þó upprunnir séu úr Drangafjalli.
Mörk Hólahóla eru því til vesturs um Öxnadalsá, til norðurs Þverá, til austurs um fjallsegg Hólafjalls (en þaðan er berghlaupið úr Hólafjalli runnið) og til suðurs syðstu hólarnir nærri Engimýrarbænum.
Ekki fer á milli mála að í fyrstu hugmyndum um verndun svæðisins er átt við bæði Hraunshraun og Hólahóla. Í fyrstu náttúruminjaskrá segir: "Svæðið nær yfir vatnasvið Vatnsdals auk Hraunshrauns og Hólahóla...". Helgi Hallgrímsson skrifar í Náttúruminjalýsingu Eyjafjarðar árið 1985: "Þessi berghlaupssamfella er eflaust einhver sú merkilegasta sem til er hér á landi..."
Svar: Umhverfisstofnun gefur út mörk svæða á náttúruminjaskrá sem eru nýttar við aðalskipulagsgerð. Til breytingar á þeim mörkum þá mun sveitarfélagið senda inn erindi til Umhverfisstofnunar sem verður að samþykkja tillögu að breytingu. Rétt er að benda á að athugasemd þessi barst eftir að auglýstum athugasemdafresti lauk.
10. Hörður Blöndal, 7. september 2015.
a. í greinargerðinni þar sem fjallað er um opin svæði ( bls. 10-11 ) passar lýsing á reit OP9 ágætlega við reit OP8 á uppdrættinum.
Svar: Texta í greinargerð verður víxlað, svæði OP8 verður fyrir útivistarskóg í landi Óss OP9 verður fyrir Freyjulund í landi Grundar.
Niðurstaða:
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að tillaga að aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2014 verði samþykkt í samræmi við framangreind svör og viðbrögð við athugasemdum sem bárust. Skipulagsfulltrúa og sveitarstjóra verði falið að annast gildistöku aðalskipulagsins í samræmi við 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
5. Lækjarvellir 1, hugmyndir um breytingar á deiliskipulagi
Fyrir fundinum lá erindi frá Ísref ehf, sem er nýr eigandi lóðarinnar að Lækjarvöllum 1, þar sem farið er fram á að breyting verði gerð á deiliskipulagi lóðarinnar þannig að heimilt verði að byggja þrjú jafnstór hús á lóðinni og byggingareitur stækkaður.
Skipulags- og umhverfisnefnd tekur jákvætt í hugmyndir um uppbyggingu á lóðinni en bendir á að fyrirliggjandi hugmyndir samræmast ekki ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 grein 5.3.2.5.d um fjarlægð milli bygginga og vega, þar sem ekki er heimilt að hafa byggingareiti fyrir athafnahúsnæði nær stofnvegi en 100 metra.
Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 18.30