Skipulags- og umhverfisnefnd fundur nr. 112
Föstudaginn 25. apríl 2025 kl. 09:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins.
Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Ásrún Árnadóttir, Sunna María Jónasdóttir og Bjarki Brynjólfsson í skipulags- og umhverfisnefnd, Arnar Ólafsson skipulags- og byggingarfulltrúi og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.
Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.
1. Kynning til skipulags- og umhverfisnefndar frá LOFTUM
Til fundar við nefndina mættu Ingunn Helga Bjarnardóttir frá Símey og Kristín Helga Schiöth frá SSNE og kynntu verkefnið LOFTUM sem er fræðsluverkefni í umhverfis- og loftlagsmálum. Kynntur var LOFTUM skólinn, sem er rafrænn skóli þar sem gjaldfrjáls námskeið eru í boði.
2. Hallfríðarstaðir - umsókn um byggingarreit fyrir geymsluhúsnæði (2504018).
Fyrir fundinum liggur umsókn frá landeiganda að Hallfríðarstöðum L152401 vegna byggingar 194 m² stálgrindarhúss sem ætlunin er að nýta sem geymsluhúsnæði. Umsókninni fylgir uppdráttur.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja erindið og þar sem erindið varði ekki hagsmuni annarra en málshefjanda sjálfs verði fallið frá grenndarkynningu sbr. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
3. Ytri-Bægisá 2 L152509 - stofnun tveggja lóða og stækkun á skógræktarsvæði (2503052).
Fyrir fundinum liggur merkjalýsing þar sem landeigandi á jörðinni Ytri-Bægisá 2 óskar eftir stofnun tveggja lóða.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja 832 fm lóð úr landi Ytri-Bægisá 2 L152509 sem fái heitið Ytri-Bægisá og 2.092,3 fm lóð úr landi Ytri-Bægisá 2 L152509 sem fái heitið Húsá. Lagt er til að vísa erindinu í grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt er að stytta grenndar-kynningartímabilið ef allir hagsmunaaðilar lýsa því yfir skriflega að ekki sé gerð athugasemd við framkvæmdina. Ef ekki berast andmæli á grenndarkynningar-tímabilinu teljast áformin samþykkt og verði þá skipulagsfulltrúa falið að fullnusta skráningu á breytingu og stofnun lóðanna.
Þá liggur fyrir fundinum merkjalýsing þar sem landeigandi á jörðinni Ytri-Bægisá 2 óskar eftir stækkun á skógræktarsvæði úr 10,5 ha í 33,8 ha L229542 sem fái nafnabreytingu úr Ytri-Bægisá 1 skógrækt í Hylskógur.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að fresta afgreiðslu málsins og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að afla frekari gagna.
4. Glæsibær - Hagabrekka 10-12 - áfangi 1. - óveruleg breyting á deiliskipulagi (2504001).
Fyrir fundinum liggur erindi frá landeiganda varðandi breytingu á deiliskipulagi vegna Glæsibæjar, áfanga 1, þar sem um er að ræða breytingu á lóðarmörkum og stærðum lóðanna Hagabrekku 10 og 12.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt sem óveruleg deiliskipulagsbreyting skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og vísa erindinu í grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. sömu laga. Heimilt er að stytta grenndarkynningartímabilið ef allir hagsmunaaðilar lýsa því yfir skriflega að ekki sé gerð athugasemd við framkvæmdina. Ef ekki berast andmæli á grennarkynningartímabilinu teljast áformin samþykkt og fela þá skipulagsfulltrúa að fullnusta skráningu á breytingu lóðanna.
5. Hagaflöt 1, 3, 5, 2, 4 og 6 - beiðni um fjölgun íbúða (2504025).
Fyrir fundinum liggur erindi frá Steinmar H. Rögnvaldssyni f.h. lóðarhafa þar sem óskað er eftir fjölgun íbúða.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindinu verði hafnað.
6. Hraun í Öxnadal L152440 - nýtt deiliskipulag
Kynningartímabili skipulagslýsingar vegna nýs deiliskipulags að Hrauni í Öxnadal 9. desember 2024 og bárust 8 erindi á kynningartímabilinu. Nefndin fjallar um innkomin erindi um lýsinguna.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að skipulags-hönnuði verði falið að hafa hliðsjón af innkomnum erindum við gerð skipulagstillögu.
7. Lónsvegur 9 og 11, úthlutun lóða (2504026).
Fyrir fundinum liggja umsóknir um lóðirnar Lónsveg 9 og 11. Minnisblað um fundi með umsækjendum og frekari upplýsingar lagðar fram.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að gengið verði til samninga við Valsmíði ehf um úthlutun lóðanna nr. 9 og 11 við Lónsveg.
Bjarki Brynjólfsson vék af fundi undir þessum lið.
8. Landsnet - beiðni um efnistökusvæði vegna framkvæmda við Blöndulínu 3 (2410002).
Fyrir fundinum liggur erindi þar sem Landsnet óskar því eftir að sveitarstjórn Hörgásveitar taki afstöðu til þeirra óska Landsnets að gera breytingar á Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024, þar sem gert verði ráð fyrir efnistöku.
Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulagshöfundi aðalskipulags að vinna málið áfram í samræmi við umræður á fundinum.
9. Búland L152305 - ósk um byggingarreit v. geymslubragga (2504027).
Fyrir fundinum liggur erindi frá landeiganda varðandi ósk um byggingarreit vegna geymslubragga.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt. Þar sem erindið varðar ekki hagsmuni annarra en málshefjanda og sveitarfélagsins skuli fallið frá grenndarkynningu sbr. 3.mgr 44.gr sömu skipulagslaga.
10. Plokkdagurinn 2025
Umræður um plokkdaginn.
Skipulags- og umhverfisnefnd hvetur íbúa til þátttöku í fegrun og hreinsun svæða í nærumhverfinu. Sveitarfélagið taki þátt í móttöku og förgun og kynni það fyrir íbúum.
Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 11:30