Fræðslunefnd, fundur nr. 33
Fræðslunefnd Hörgársveitar
33. fundur
Fundargerð
Þriðjudaginn 24. september 2019 kl.16:00 kom fræðslunefnd Hörgársveitar saman til fundar í Þelamerkurskóla.
Fundarmenn voru, María Albína Tryggvadóttir formaður, Eva María Ólafsdóttir og Garðar Lárusson (vm) fulltrúar í nefndinni og auk þeirra Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir skólastjóri, Jónína Sverrisdóttir fulltrúi starfsmanna Þelamerkurskóla, Hugrún Ósk Hermannsdóttir leikskólastjóri, Sigríður Gréta Þorsteinsdóttir fulltrúi starfsmanna Álfasteini, Sigurbjörg Auðbjörnsdóttir fulltrúi foreldra Álfasteini og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
Sameiginleg málefni:
1. Skólastefna Hörgársveitar
Rætt um vinnu við endurskoðun skólastefnu sveitarfélagsins. Formaður lagði fram tillögu að tímasettri áætlun um endurskoðun þar sem m.a. er tryggð aðkoma starfsfólks, foreldra og samfélagsins.
Fræðslunefnd samþykkti áætlunina í samræmi við það sem rætt var á fundinum.
Málefni Álfasteins:
2. Skýrsla leikskólastjóra - börn og starfsfólk – haustið 2019
Leikskólastjóri fór yfir starfsemina og kom m.a. fram að 44 börn í leikskólanum í vetur, útseldir tímar eru 340 klst. á dag. Meðaltal dvalar hvers barns er 7.73 tímar á dag. Starfsmenn verða 14 til 15.
3. Stytting vinnuviku – orlof starfsmanna
Rætt um styttingu vinnuviku og tengsl við kjarasamningsviðræður og hugmyndir um lokun leikskólans á ákveðnum dögum eins og t.d. milli jóla- og nýárs.
Fræðslunefnd samþykkti að beina því til sveitarstjórnar að málið verði skoðað og ákvörðun liggi fyrir á næsta fundi nefndarinnar.
4. Samráðsfundir starfsfólks
Rætt um tímafjölda til samráðsfunda og lagði leikskólastjóri fram yfirlit um tímafjölda í nokkrum leikskólum. Fram kom ósk um aukningu á tíma til samráðs um 8 klst. á ári.
Fræðslunefnd samþykkti að beina því til sveitarstjórnar að aukinn tími fáist til samráðsfunda.
Málefni Þelamerkurskóla:
5. Skýrsla skólastjóra í upphafi skólaárs
Skólastjóri fór yfir starfsemi Þelamerkurskóla í upphafi skólaárs og kom m.a. fram að nemendur eru nú 65 í þremur námshópum en yngsti hópurinn er þó að mestu tvískiptur. Starfsmenn eru 18 og heildarstarfshlutfall er 16,4. Þá fór skólastjóri yfir ýmis verkefni sem í gangi eru á vegum nemenda og starfsfólks.
6. Vistun grunnskólabarna utan skólatíma
Smárinn og Hörgársveit hafa tekið höndum saman um að bjóða upp á fjölbreyttar íþróttaæfingar og aðra afþreyingu fyrir krakka eftir skóla. Æfingarnar byggja á ýmsum leikjum og íþróttum en skipulagið má sjá á heimasíðu Ungmennafélagsins Smárans.
Markmiðið er að bjóða upp á íþróttaæfingar og frístund fyrir grunnskólanemendur í 1. - 4. bekk. Allir nemendur í 1. - 10. bekk geta nýtt íþróttaæfingarnar.
Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 17:35