Pistill úr fréttablaði Hörgárbyggðar

 

Frá sveitarstjóra á nýju ári

 

Á nýju ári óska ég öllum íbúum Hörgárbyggðar gleðilegs ár og þakka fyrir það liðna. 

Það má segja að nýtt ár hafi byrjað með því að sýna okkur að enn getur snjóað og verið umhleypingasamt á þessum árstíma.  Verðrið er líka misjafnt eftir hvar maður er í sveitarfélaginu.  Bara á þessari stuttu leið sem ég fer kvölds og morgna og stundum oftar, um Kræklingahlíð og Moldhaugaháls, geta verið þrennslags veður allt frá blíðuverðri í mokandi snjókomu með hvassviðri. 

Hér á skrifstofu sveitarfélagsins er mikið að gera eins og ævinlega.  Áramótin og vikurnar í kjölfarið er tími uppgjörs og afstemminga.  Þessa dagana er verið að ganga frá bókhaldi s.l. árs.  Jafnhliða því er verið að vinna í launum.  Fyrir utan að stemma þau af og skila launamiðum til launþega þá var nýlega gengið frá nýju starfsmati.  Í síðustu samningum við   Starfsgreinasambandið var samþykkt að nýtt starfsmat yrði gert á samningstímanum.  Fólst það í því að fara í gegn um öll þau störf sem unnin eru á vegum sveitarfélaganna og greitt er fyrir samkvæmt samniningum launanefndar sveitarfélaga og SGS., þar sem Eining–Iðja er aðili að.  Nýtt starfsmat gildir frá 1. desember 2002, er því mikill tími sem fer í að leiðrétta laun allra þeirra sem fá greitt eftir samningunum.  Þessi vinna er nú langt komin og flestir búnir að fá þann mismun greiddan sem þeim ber.  Það eru þó ekki allir sem hækka í launum við þetta og fer það eftir því um hvaða störf er að ræða.  Auk þessa breyttust laun kennara, samkvæmt nýgerðum kjarasamningum og nú um mánaðamótin janúar/febrúar var gengið frá nýjum kjarasamningi leikskólakennara.  Fleiri kjarasamningar eru og verða á samningsborðinu þannig að framundan eru breytingar hjá fleiri launþegum.

Við hér á skrifstofunni sendum út tæplega 140 launamiða, fyrir sveitarfélagið, skólann og Íþróttamiðstöðina, þá eru ótaldir launamiðar vegna verktöku  sem eru nokkuð margir.

 

Sameining sveitarfélaga.

Sameining sveitarfélaga er viðfangsefni sem sveitarstjórnir og starfsmenn þeirra þurfa að fást við næstu mánuði.  Sameining sveitarfélaga hefur verið í fréttum fjölmiðla undanfarið og hafa umræður um sameiningarmál víða farið fram, en þær umræður eiga eftir að aukast til muna eftir sem nær dregur 23. apríl n.k., en þá er ákveðið að sameiningarkosningar fari fram.

Sameiningarnefnd átaksins “efling sveitarstjórnarstigsins” starfar í samræmi við lög nr. 45/1998, með síðari breytingum, sem samþykkt voru á Alþingi 26. maí 2004.  En í lögum þessum er lýst heimildum sameiningarnefndar til að leggja fram tillögur að sameiningu sveitarfélaga.  Nefndin var skipuð af félagsmálaráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.  Það er ljóst að félagsmálaráðuneytið, sem forsvarsaðili ríkisins í sveitar­stjórnarmálum og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga er mjög í mun að fækka sveitarfélögum.  Þessir aðilar leggja áherslu á að það verði til þess að styrkja og efla sveitarstjórnarstigið.

Helstu atriði í fyrrgreindum lögum eru þessi:

Sameiningarnefnd skal skipuð í tengslum við átaksverkefni ríkisins og Sambands ísl. sveitarfélaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins.  Þessi nefnd skal leggja fram tillögu um sameiningu sveitarfélaga, sem skal kjósa um 23. apríl n.k

Við tillögugerðina skal nefndin hafa til hliðsjónar landfræðilegar og félagslegar aðstæður og um leið taka tillit til sjónarmiða hlutaðaeigandi sveitarfélags.  Hið nýja sveitarfélag skal vera heilstætt atvinnu- og þjónustusvæði.

Nefndin skal kynna sveitarfélögum tillögur sínar og gefa þeim frest til að skila inn athugsemdurm.

Nefndin skilaði flestum tillögum sínum í september s.l. og lagði hún til að kosið yrði um sameiningu í 80 sveitarfélögum af þeim 103 sem fyrir eru.  Þar sem nær öll sveitarfélög á  Eyjafjarðarsvæðinu tóku sig saman um að fela RHA að vinna skýrslu um kosti þess að sameina allan Eyjafjörð að Siglufirði meðtöldum og ljóst var að sú skýrsla yrði ekki tilbúin fyrr en í desember, frestaði nefndin að gera tillögu um sameiningu sveitarfélaga við Eyjafjörð. 

Skýrsla RHA; Eyjafjörður í eina sæng? – mat á sameiningu sveitarfélaga í Eyjafirði í eitt -, var kynnt sveitarstjórnum stuttu fyrir jól.  Sveitarstjórnir höfðu frest til 12. janúar  s.l. til þess að skila áliti sínu á sameiningarmálum til sameiningarnefndar.

Álit sveitarstjórna í Eyjafirði liggur fyrir og er óhætt að segja að þar sýnist sitt hverri og enn hafa tillögur sameiningarnefndar um sameiningu sveitarfélga við Eyjafjörð ekki birst.

Í stuttu máli þá leggja sveitarstjórnir Siglufjarðarkaupstaðar, Dalvíkurbyggðar, Akureyrarkaupstaðar og Arnarneshrepps til að kosið verði um sameiningu allra sveitarfélaga við Eyjafjörð.  Bæjarstjórn Ólafsfjarðar hefur líka ályktað í þá veru en getið þess að skoðun bæjarstjórnar markist af afstöðu nágrannana en hún hefði heldur viljað sjá sameiningu Siglufjarðar, Ólafsfjarðar og Dalvikurbyggðar.  Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar telur sameiningu ótímabæra en mælir með aukinni samvinnu, en ef kosið yrði um sameiningu þá mælir hún með að kosið yrði um tvenns konar sameiningu, annars vegar Siglufjarðar, Ólafsjarðar og Dalvíkurbyggðar og hins vegar Arnarneshrepps, Hörgárbyggðar, Akureyrar, Eyjafjarðarsveitar, Svalbarðsstrandarhrepps og Grýtubakkahrepps.  Það sama má segja um sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps.  Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps vill ekki sameiningu en telur eðlilegt að íbúarnir kjósi um málið.  Sveitarstjórn Hörgárbyggðar telur sameiningu ótímabæra, nema þá helst við Arnarneshrepp, sbr. fundargerð.  Sveitarstjórnirnar setja að auku fram ýmsa fyrirvara, s.s. að verkefnaskipting milli ríkis og sveitarfélaga liggi fyrir, einnig ákvörðun um skiptingu tekjustofna,  samgöngur verði bættar og fleira.

 

 

Eftirfarandi er tekið beint af heimasíðu félagsmálaráðuneytisins:

“Tillögur sameiningarnefndar verða bindandi að því leyti að íbúar munu greiða um þær atkvæði í samræmi við bráðabirgðaákvæði við sveitarstjórnarlög nr. 45/1998, með síðari breytingum, sem samþykkt voru á Alþingi 26. maí 2004.  Sveitarstjórnir geta með öðrum orðum ekki ákveðið að atkvæðagreiðsla fari ekki fram í þeirra sveitarfélögum” (sbr. heimasíða félagsmálaráðuneytisins, Átak til eflingar sveiarstjórnarstigsins – www.felagsmalaraduneyti.is/vefir/efling/frettir/nr/1735).

 

Nokkur atriði enn af heimasíðu félagsmálaráðuneytisins  til upplýsinga:

 

“Í sveitarstjórnarlögunum er tekið fram að sveitarfélag verði eigi sameinað öðrum sveitarfélögum samkvæmt tillögu sameiningarnefndar nema fleiri íbúar þess lýsi sig fylgjandi tillögunni í atkvæðagreiðslu en eru henni andvígir. Það eru því íbúar hvers sveitarfélags sem skera úr um hvort sveitarfélag þeirra verði sameinað öðrum á grundvelli tillögu sameiningarnefndar. 

 Samkvæmt 2. mgr. IV. bráðabirgðaákvæðis með lögunum telst sameining sveitarfélaga samþykkt ef sameiningartillaga hlýtur samþykki íbúa í öllumsveitarfélögum sem tillagan varðar og tekur hún þá gildi 9. júní 2006 nema sveitarstjórnir ákveði aðra dagsetningu í samráði við félagsmálaráðuneytið. 

Ef tillaga sameiningarnefndar hlýtur ekki samþykki íbúa í öllum hlutaðeigandi sveitarfélögum, en meiri hluti þeirra sem afstöðu taka í atkvæðagreiðslu um sameiningartillögu lýsir sig þó fylgjandi sameiningu, skal greiða atkvæði að nýju innan sexvikna í sveitarfélögum þar sem tillaga var felld. Skilyrði er að tillagan hafi verið samþykkt í a.m.k. tveimur sveitarfélögum.  Sem dæmi gæti tillaga um sameiningu sveitarfélaga A, B, C og D verið samþykkt í sveitarfélögum A og B, en í þeim býr yfir helmingur þeirra íbúa sem tillagan varðar. Íbúar C og D skulu þá greiða atkvæði aftur innan 6 vikna um sömu tillögu. Rökin fyrir slíkri endurtekningu eru þau að afstaða íbúa C og D kann að breytast við það að vilji A og B verður þeim ljós.

 Að lokinni síðari atkvæðagreiðslu er sveitarstjórnum sveitarfélaga þar sem sameiningartillaga var samþykkt heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga. Þetta verður þó ekki gert nema tillaga hafi verið samþykkt í a.m.k. 2/3 sveitarfélaganna og í þeim sveitarfélögum búi a.m.k. 2/3 íbúa á svæðinu

Sameiningarnefnd getur ákveðið að leggja fram nýja tillögu um sameiningu sveitarfélaga ef tillaga nefndarinnar er felld í atkvæðagreiðslu. Atkvæðagreiðsla um þá tillögu skal fara fram á tímabilinu október 2005 til janúar 2006. 

Í sveitarstjórnarkosningum 27. maí 2006 verða sveitarstjórnir hinna nýju sveitarfélaga kjörnar og taka sameiningarnar gildi þann 9. júní sama ár.”

Mér finnst mikilvægt að fólk geti fylgst með þessu máli og set þetta hér að ofan  í frétta­bréfið þess vegna.   Viðbúið er að umræða um sameiningarmálin fari af stað af fullum þunga á næstu vikum.  Eitthvað hik er þó hjá nefndinni með að setja fram tillögu um sam­einingu sveitarfélaga í Eyjafirði, því enn hefur hún ekki komið fram.

Helga Arnheiður Erlingsdóttir