Pistill sveitarstjóra

Kæru íbúar Hörgársveitar

Árið 2020, hvað getur maður sagt?  Ótrúlega sérstakt ár sem við vonandi getum sett aftur fyrir okkur og sagt, svona ár vil ég ekki fá með þessum hætti aftur.  Frá því fyrir rúmu ári síðan höfum við hér á þessu landsvæði verið á almannavarnarstigi, fyrst óveður og ófærð og afleiðingar þess, síðan kórónuveiran meira og minna allt árið og einnig viðbúnaður vegna yfirvofandi jarðskjálfta hér úti fyrir Norðurlandi.  Er ekki nóg að hafa eitt af þessu, nei allt þrennt á sama tíma í svona langan tíma hefur reynt á og þá sérstaklega veirufaraldurinn sem komið hefur niður á öllum með einu eða öðru móti og umbylt öllu lífi og samfélagsháttum okkar.  En nú er að birta, daginn fer að lengja jafnt og þétt og handan við áramótin verða tiltæk bóluefni sem við berum mikla væntingar til um að ljúki þessu veiruástandi á fyrri hluta næsta árs og lífið komist í sem líkast horf og áður var og við fáum aftur það frelsi sem okkur er svo mikilvægt, en hefur verið nauðsynlegt að takmarka meira og minna í nærri ár.

Áfram uppbygging

Hörgársveit er framsækið sveitarfélag.  Íbúum fjölgar og eru orðnir um 650. Við Lónsbakka er verið að byggja íbúðahverfi þar sem ætla má að íbúum fjölgi héðan í frá um 200-250 íbúa á næstu árum.  Þá er verið að byggja á öðrum svæðum og hugur stendur því til þess að íbúar geti verið orðnir um 900 innan fárra ára.  Þessari fjölgun þarf að mæta með uppbyggingu innviða og er stækkun leikskólans Álfasteins dæmi þess.  Nú eru 45 börn í leikskólanum og strax í vor verða þau komin yfir 50 og mun fjölga jafnt og þétt.  Leikskólinn er fullsetinn og verður það þar til byggingu nýrrar deildar verður lokið í mars en með henni getum við  mætt fjölguninni sem framundan er.  Við fögnum hverjum nýjum íbúa og ánægjulegt að verða vitni að ásókn í nýjar glæsilegar íbúðir þar sem fólk kann að meta umhverfið og orðsporið um gott samfélag, sem hlúir vel að menntun og uppeldismálum. Nemendur í Þelamerkurskóla eru nú 67 og mun þeim fjölga talsvert frá árinu 2023 og svo jafnt og þétt ef áætlanir ganga eftir. Skólastarf Álfasteins og Þelamerkurskóla er hjartað í samfélaginu, öflugt og gott og mörgum öðrum til eftirbreytni.  

Fjárhagslegur rekstur

Þrátt fyrir áhrif covid-19 hefur sveitarfélaginu tekist að halda í fjárhagslega sterka stöðu sína.  Við nutum þess að hafa ekki skuldsett okkur síðustu ár þrátt fyrir uppbyggingu og áttum orðið í sjóði sem við gátum nýtt til að mæta bæði tímabundnum áföllum í rekstri og haldið áfram framkvæmdum og heldur bætt í ef eitthvað var.  Tekjur lækkuðu vissulega og mest í kringum sundlaugina sem var lokuð svo vikum skipti á árinu.  Við mættum auknum áhuga á atvinnuþátttöku ungs skólafólks í sveitarfélaginu í sumar með því að ráða alla einstaklinga á aldrinum 13-25 ára sem óskuðu eftir starfi.  Alls voru þetta 30 námsmenn sem fengu vinnu í tvo mánuði við að gera sveitarfélagið okkar fegurra og framkvæma stórkostlega hluti eins og handgera nýjan göngustíg í kringum Hjalteyrartjörn svo eitthvað sé nefnt.  Þetta átaksverkefni kostaði að sjálfsögðu fjárútlát úr sveitarsjóði en var í senn mjög ánægulegt og eiga þau ungmenni sem að því komu þakkir skyldar fyrir þeirra þátttöku. Engin ný lán voru tekin á árinu þrátt fyrir um 100 millj. kr. framkvæmdir.  Á næsta ári er hinsvegar gert ráð fyrir lántökum til að halda áfram uppbyggingu, til að fjölga íbúðum og íbúum og fá þannig fleiri til að standa með okkur undir framtíðarrekstri sveitarfélagsins.

Afþreying og menning

Veirufaraldurinn hefur valdið því að margt tómstundastarfið hefur legið í dvala.  Mér segir svo hugur að þegar við komumst fyrir faraldurinn verði margir orðnir býsna þyrstir í að komast í sína uppáhalds afþreyingu, hver sem hún er. Tómstundir, afþreying og gott menningarlíf þarf að vera til staðar í góðu samfélagi.  Þetta allt þarf hinn sameiginlegi sjóður sveitarfélagsins að styrkja.   Við rekum hér glæsilega íþróttamiðstöð og sundlaug sem er ein sú betri á landinu.  Hér fá allir sem lögheimili eiga í Hörgársveit afhent árskort í sund án endurgjalds. Það er hluti af góðum lífsgæðum í Hörgársveit. Frístundastyrkir til barna og unglinga hefur hækkað jafnt og þétt síðustu ár og verður kr. 42.000,- á árinu 2021.  Ungmennafélagið Smárinn hefur aukið starfsemi sína og stendur fyrir samverustundum með íþróttaívafi í íþróttamiðstöðinni í samvinnu við sveitarfélagið auk síns áður reglulega félagsstarfs og íþróttaæfinga auk samveru fyrir þau yngstu í íþróttasalnum.  Félagsmiðstöð unglinga er með aðstöðu á neðstu hæð heimavistar við miklar vinsældir. Sveitarfélagið hefur stutt við hið fjölbreytta menningarstarf sem fram fer í sveitarfélaginu og mun svo verða áfram. Vonandi kemst öll þessi starfsemi og miklu fleiri á fullt flug áður en langt um líður og íbúarnir farið að hittast án þess að vera með grímur fyrir andlitinu og eiga saman sínar bestu gleðistundir.

Framtíðar sveitarfélag

Við veljum að búa hér, því í Hörgársveit er gott að vera og hér líður okkur vel með okkar fjölskyldu í framsækinni sveit.  Það er því eitthvað rangt við það að skylda sveitarfélög til að einblína eingöngu á íbúafjölda þegar sveitarfélagaskipting er ákveðin.   Það er svo margt annað sem skiptir máli.  Við eigum ekki að sætta okkur við að réttur íbúanna í hverju sveitarfélagi fyrir sig til að ráða sínum málum sé tekinn af þeim, sama hvað sveitarfélagið er mannmargt.

Bjart framundan

Þótt á móti hafi sannarlega blásið á árinu 2020 er bjart framundan í Hörgársveit.  Ég finn bjartsýnina í íbúunum, sveitarstjórn og starfsmönnum sveitarfélagsins og væntingar þeirra um að við séum að “búa til bjartari heim og bægja frá okkur vonleysisskuggum”, eins og segir í því frábæra kvæði Aðventu sem mér fannst svo vel við hæfi á þessari stundu að setja hluta af í fréttabréfið okkar.

Ég þakka samstilltri sveitarstjórn og frábærum starfsmönnum Hörgársveitar kærlega fyrir samstarfið á árinu. Um leið og ég þakka ykkur sveitungar góðir fyrir árið sem er að líða, færi ég ykkur og fjölskyldum ykkar bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári með von um áframhaldandi gott samstarf og góð samskipti, hér eftir sem hingað til.

Snorri Finnlaugsson

Sveitarstjóri