Minkaveiðiátak í Eyjafirði

Frá því í mars á þessu ári hefur sérstakt veiðiátak á mink verið í gangi í Eyjafirði, á svæði sem nær yfir Dalvíkurbyggð, Arnarneshrepp, Hörgárbyggð, Eyjafjarðarsveit, Akureyrarkaupstað, Svalbarðsstrandarhrepp og Grýtubakkahrepp. Nefnd á vegum umhverfisráðuneytisins hefur umsjón með veiðiátakinu og er tilgangur þess að kanna möguleika á útrýmingu minks á tveim svæðum á landinu, Snæfellsnesi og Eyjafirði, með það í huga að ráðast í landsátak í framhaldinu gefi niðurstaða tilefni til. Umhverfisstofnun hefur umsjón með veiðunum og hafa verið ráðnir veiðimenn til að sinna þeim.  Samhliða veiðunum eru í gangi rannsóknir sem ætlað er m.a. að meta árangur veiðiátaksins og eru þær unnar af Náttúrustofu Vesturlands í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands.

Talið er að veiðarnar hafi gengið vel það sem af er árinu. Stóraukinn fjöldi gildra hefur verið lagður á svæðinu auk þess sem minkaleit með hundum hefur verið meiri en áður.  Þrátt fyrir þessa auknu veiðar hafa einhverjir minkar komist undan og læður náð að gjóta.  Nú í ágúst fara hvolpar sem komist hafa á legg að verða sýnilegir og því mikilvægt að fá upplýsingar um hvar þeir sjást. Því vilja þeir sem að veiðiátakinu standa fara þess á leit við bændur og almenning að þeir láti vita ef sést til minka á ofangreindu svæði. Hægt er að hafa samband Veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar í síma 460 7900 og láta vita af því.