Innlegg þriggja sveitarstjórnarkvenna í Hörgárbyggð

 

Innlegg í umræðuna um sameinigarmál

skrifað í tilefni kosninganna 8. okt 2005

 

Þann 8. október nk. stöndum við íbúar Hörgárbyggðar frammi fyrir því að taka stóra ávörðun hvað varðar framtíð okkar sveitafélags og því mikilvægt að kynna sér málið rækilega til að vera sem best upplýstur um það sem er í vændum þ.e. framtíð og uppbyggingu hér í Hörgárbyggð eftir hugsanlega sameiningu.  En hvað framtíðin ber í skauti sér þ.e. hvað hér tekur við getur verið erfitt að svara og því er ábyrgð kjósenda mikil.

 

Hversu mikil áhrif komum við t.d. til með að hafa á fræðslu- og skipulagsmál ef til sameiningar kemur?

 

Þegar þetta er skrifað hafa farið fram kynningarfundir víða í Eyjafirði og kynning þessa verkefnis farin á fullan skrið núna  síðustu daga fyrir kosningar. 

 

Rétt er, áður en lengra er haldið, að stikla á stóru varðandi aðdraganda þessara kosninga og eins  að reyna að velta því fyrir sér hvað svona stór sameining kann að hafa í för með sér fyrir lítið samfélag eins og Hörárbyggð.

 

Eins og fólk veit,  sem fylgst hefur með  umræðunni,  skipaði Félagsmálaráðherra, í desember 2003, verkefnisstjórn um eflingu sveitarstjórnarstigsins og sameiningu sveitarfélaga.  Átti verkefnisstjórnin m.a. að hafa yfirumsjón með starfi nefndar um sameiningarmál og nefndar um aðlögun tekjustofna sveitarfélaga að nýrri sveitarfélagaskipan. 

Í desember 2003 var einnig skipuð sérstök sameiningarnefnd.  Nefndin átti að koma með tillögur um breytta sveitarfélagsskipan með það að markmiði að hvert sveitarfélag myndi heildstætt atvinnu- og  þjónustusvæði. Nefndin átti að vinna undir og með verkefnisstjórn.

 

Þegar sameiningarnefndin lagði fram sínar tillögur um sameiningarkosti  var að störfum stýrihópur um könnun á kostum og göllum sameiningar Siglufjarðarkaupstaðar, Akureyrarkaupstaðar, Ólafsfjarðarbæjar, Dalvíkurbyggðar, Arnarneshrepps, Eyjafjarðarsveitar, Hörgárbyggðar, Svalbarðsstrandarhrepps, Grímseyjarhrepps og Grýtubakkahrepps í eitt sveitarfélaga.  Því ákvað sameiningarnefndin að leggja ekki fram tillögur um breytingar á sveitarfélagsskipan í Eyjafirði fyrr en þeirri vinnu væri lokið og leggja þá fram tillögur í kjölfarið.

Stýrihópurinn fékk Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri til að vinna skýrslu um málið.  Skýrslan sem RHA vann fékk nafnið “Eyjafjörður í eina sæng?” og er hægt að nálgast hana á vefnum, t.d. á heimasíðunni ;eyfirdingar.is

Án þess að hér sé ætlunin að leggja mat á skýrsluna þá er ljóst að sitt sýnist hverjum um þessa ágætu skýrslu og því er vert að hvetja fólk eindregið til að kynna sér hana  samhliða því að taka ákvörðun með eða á móti sameiningu.

 

Eftir að þessi skýrsla kom út, voru viðhorf sveitarfélaganna við Eyjafjörð gagnvart sameiningu könnuð og lögðu Siglufjarðarkaupstaður, Akureyrarkaupstaður, Ólafsfjarðarbær, Dalvíkurbyggð, Grýtubakkahreppur og Arnarneshreppur til að kosið yrði um sameiningu allra sveitarfélaga í Eyjafirði þann 8. október. 

Sveitarstjórnir Eyjafjarðarsveitar, Svalbarðsstrandarhrepps og Hörgárbyggðar vildu taka minni skref  þ.e. að kosið yrði um smærri sameiningu.

Að fenginni umsögn sveitarfélaganna lagði sameiningarnefndin til að kosið yrði um sameiningu þeirra sveitarfélaga sem RHA fjallaði um í  skýrslu sinni  að undanskildum Grímseyingum.

Því varð það niðurstaðan af þessari vinnu að  kosið yrði  um sameiningu þessara 9 sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu þann 8. október 2005. 

 

En snúum okkur að kjarna málsins þ.e.a.s. þeirra spurninga sem margir íbúar Hörgárbyggðar spyrja sig þessa dagana;  hvað verður um Þelamerkurskóla og leikskólann Álfastein ef sameiningin sem kjósa á um þann 8. okt. verður að veruleika ? 

 

Margir hafa af  því miklar áhyggjur að rekstur Þelamerkurskóla verði fljótlega lagður niður.  

Það þarf ekki annað en lesa samanburðartölur yfir rekstarkostnað skólanna á Eyjafjarðarsvæðinu til að sjá að ÞMS er ein dýrasta rekstrareining í þeim samanburði.  Þar er kannski komin skýring á áhyggjum heimamanna hér í Hörgárbyggð,  þeir hafa fram til þessa  getað rekið sinn  skóla í samvinnu við Arnarneshrepp og með því haft áhrif á það metnaðarfulla skólastarf sem þar fer fram. 

Í skýrslunni “Eyjafjörður í eina sæng?” var m.a. kannað mat íbúa sveitarfélaganna á skólamálum í sínu sveitarfélagi.  Þar kemur fram staðreynd  sem rétt er að gefa  gaum  þ.e.a.s. að ákveðið samræmi sé á milli kostnaðar og ánægju með grunnskólana, þannig að ánægjan er almennt meiri í landbúnaðarhreppunum þar sem dýrustu skólarnir eru.  Sem kannski endurspeglar  þann vilja sem liggur á bakvið það að fólk vill halda í sinn skóla þrátt fyrir að hafa ekki möguleika á því að reka hann  á eins hagkvæman hátt og í stærri sveitarfélögum.

 

Í skýrslunni er einnig fjallað um hugsanleg áhrif  á Hörgárbyggð ef að sameiningu yrði.  Þar segir m.a.:

 

 “Það hefur verið nefnt sérstaklega sem annmarki við sameiningu frá sjónarhóli Hörgárbyggðar að skólamál komi til endurskoðunar.  Margt hefur áhrif á það hvar skóli er staðsettur og hefur þróun og dreifing byggðar þar líklega mest áhrif.  Uppbygging íbúðarhúsnæðis, hvort heldur er við núverandi bæjarmörk Akureyrar eða norðar á skólasvæðinu getur t.d. breytt forsendum.  Almenn má þó segja að ákvarðanataka um viðkvæm mál s.s. skólamál sé viðráðanlegri þegar stjórnsýslueiningin er stærri þrátt fyrir að aðrar ástæður en sameining liggi að baki”

 

Leggja má þann skilning í þessari  ályktun að þarna sé verið að vísa til þess að Þelamerkurskóli standi ekki í  skipulagðri íbúðabyggð og ef svo væri myndi það styrkja tilvist hans.  Einnig að fyrirséð sé að Þelamerkurskóli verði lagður niður og það sé auðveldara að taka slíka ákvörðun þegar stjórnsýslan er ekki svo nálæg. 

 

Í þessu sameiningarferli er því engin vissa um að rekstur skóla á Þelamörk komi til með að vera valkostur áfram í stóru sameinuðu sveitarfélagi þó flestir bindi vonir við það.  

Það hefur færst í vöxt á síðustu árum að fólk sæki í að fara út fyrir bæjarmörk Akureyrar og höfum við hér í Hörgárbyggð  fundið fyrir þeim áhuga og eru eflaust margar ástæður fyrir því.  Margir velja þann kost, vegna þess að þeir vilja að börnin þeirra gangi í fámennari skóla en í boði eru t.d.  á  Akureyri.  Það er líka staðreynd að sumum börnum hentar það betur enda er það vel þekkt úrræði, í gegnum árin, að börn úr stærri sveitarfélögum eru sendi í minni skóla.  Þó að það sé gott að reka skóla á eins hagkvæman hátt og hægt er þá má það ekki vera með þeim hætti að það bitni á þjónustu við nemendur. 

 

Á þessu kjörtímabili hefur verið unnið að nýrri skólastefnu ÞMS.  Einkunnarorð skólans, sem voru tekin upp s.l. vetur, eru Þroski, Menntun, Samkennd og munu þau endurspeglast í skólastefnunni.  S.l. vetur var einnig unnið mjög áhugavert þróunarstarf í ÞMS sem fengið hefur nafnið HHH, sem stendur fyrir hreyfing, heilsa og hollusta.  Markmiðið er að stuðla að bættri heilsu og líðan nemenda og starfsfólks skólans.  Afrakstur þessa starfs er að hluta komið til framkvæmda og verður spennandi að fylgjast áfram með því hvernig þessu verki miðar.  Hluti af HHH starfinu hefur í raun átt sér lengri aðdraganda en sl. vetur, þar sem nokkrir framtaksamir og duglegir kennarar komu á fót útiskóla hjá yngsta skólastiginu fyrir nokkrum árum og erum við nú með 1-5 bekk í útiskólanum. Í útiskólanum er verið að nýta nánasta umhverfi Þelamerkurskóla og kenna börnunum að læra á lifandi hátt um náttúruna og það sem hún hefur upp á að bjóða.   Umhverfi Þelamerkurskóla býður upp á ýmsa möguleika til að marka skólastarfi þar sérstöðu og er vonandi  að þeir sem sjái um rekstur skólans í framtíðinni komi til með að horfa til þess.   Að sjálfsögðu er ekki hægt að líta framhjá því  að innra skólastarf gæti eflstmikið við að vera hluti af stærra samfélagi og gæti þjónusta við börnin batnað við það.

 

Varðandi rekstur leikskólans Álfasteins þá er hann örlítið betur settur en Þelamerkurskóla, þar sem hann er í skipulagðri íbúabyggð sem fer stækkandi.  Leikskólinn er byggður af Glæsibæjarhreppi árið 1995 í tengslum við uppbyggingu íbúðabyggðar í Skógarhlíð og kom inn í sameinað sveitarfélag árið 2001 þegar Hörgárbyggð varð til.

Í  dag eru rými fyrir 16 börn í leikskólanum.  Eftirspurn eftir leikskólaplássum hefur verið að aukast  og er nú biðlisti á leikskólann.  Sveitarstjórn Hörgárbyggðar hefur því ákveðið að kanna möguleika á að stækka leikskólann til að hann geti betur mætt eftirspurninni. Það gildir það sama með Álfastein og Þelamerkurskóla að hlutfallslega er hann dýr eining en við teljum að ákveðin hagræðing eigi að nást við að stækka leikskólann.  En rétt er að benda á að stórt hlutfall af rekstrarkostnaði er launakostnaður en við höfum verið svo lánsöm að til okkar hefur ráðist hlutfallslega margt faglært fólki sem kallar á aukinn launakostnað sem svo aftur endurspeglast í góðu og metnaðarfullu starfi sem skilar sér til barnanna okkar.

 

Það er ljóst að í svo dreifðri byggð sem Hörgárbyggð er þá verður erfitt að staðsetja leikskóla sem hentar öllum.  Leikskólinn hefur samt sem áður  reynt að koma til móts við þarfir þeirra sem lengra eiga að sækja hann með því að bjóða upp á sveigjanlegan dagvisunartíma.

Á yfirstandandi kjörtímabili hefur komið upp sú umræða hvort ekki væri rétt að reka leikskóla í Þelamerkurskóla.  Sveitarstjórn Hörgárbyggðar hafnaði beiðni hreppsnefndar Arnarneshrepps, á fundi sínum þann 15. janúar 2003, að byggja upp og koma að rekstri leikskóla í Þelamerkurskóli.   Það þótti ekki verjandi að reka tvo leikskóla fyrir ekki stærra sveitarfélag, en til greina hefði komið að kaupa pláss af Arnarneshreppi í Þelamerkurskóla ef leikskóli hefði verið stofnaður þar eins og hugmyndir þeirra gengu út á.   Sá skóli hefði vafalaust nýst íbúum Hörgárbygggðar sem búa eða vinna nær Þelamerkurskóla en Álfasteini.

En fram til þessa hafa börn úr Arnarneshreppi haft möguleika á að nýta þau  leikskólapláss á  Álfasteini sem Hörgárbyggð hefur ekki notað.

 

Það er eiginlega ekki hægt að skilja við umræður um sameiningarmál án þess að koma aðeins inn á sorpmálið.

Umræða um nýjan urðurnarstað hefur verið í brennidepli undanfarin misseri og var mikið hitamál á fundum sameiningarnefndar í Hlíðarbæ og Þelamerkurskóla.  Óvissan í þeim efnum veldur mörgum áhyggjum og slæmt er að þau mál séu ekki útkljáð þegar gengið verður til kosninga um sameiningu.  Enda hefur verið látið að því liggja að lítið mál verði að finna nýjan urðunarstað þegar búið verði að sameina sveitarfélögin.

 

Kjósendur ættu að hafa hugfast að hvort sem sameining verður samþykkt eða felld mun einfaldur meirihluti þeirra sem kjósa taka ákvörðun sem mun standa um ókomna framtíð.

Því er mikilvægt að kynna sér málið vel og mæta á kjörstað.

 

Skrifað af sveitarstjórnarkonum í Hörgárbyggð,

 

Birna Jóhannesdóttir, ritari og nefndarmaður í skipulagsnefnd

Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, nefndarmaður í leikskólanefnd

Sigurbjörg Jóhannesdóttir, varaoddviti og formaður skólanefndar ÞMS