Fundargerð - 29. janúar 2003

Miðvikudaginn 29. janúar 2003 kl. 20:30 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til fundar í Hlíðarbæ.

Mætt voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir og Sturla Eiðsson. Engir áheyrnarfulltrúa voru mættir.

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

 

1.   a. Fundargerð sveitarstjórnar frá 15. janúar 2003 var staðfest samhljóða með þeim breytingum, að í fyrsta lagi, á lið 2 e “möguleika á samstarfi við Arnarneshrepp um leikskóla” var fyrri bókun felld niður, þess í stað var samþykkt eftirfarandi bókun:

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar hefur tekið til umfjöllunar munnlega beiðni Arnarneshrepps varðandi möguleika á samstarfi um stofnun leikskóla í ÞMS. Þar sem endurskipulagning á rekstur leikskólans Álfasteins stendur yfir, í þeim tilgangi að gera leikskólann að hagkvæmari rekstrareiningu, sér sveitarstjórn Hörgárbyggðar ekki grundvöll fyrir því að koma að stofnun annars leikskóla eins og staðan er í dag.

Sveitarstjórn samþykkir að Arnarneshreppur breyti neðri heimavistargangi ÞMS í leikskóla, að því tilskyldu að fyrir liggi samningur varðandi kostnaðarskiptingu á milli hreppanna er lítur að fyrirhugaðri nýtingu Arnarneshrepps á ÞMS.

Að í öðru legi í lið 4b fjárhagsáætlun ÞMS komi til viðbótar að gjaldaliðurinn “samkomusalur” kr. 60.000 fellur niður. Ef farið verður í það verkefni að skoða byggingu samkomusalar við ÞMS verður það skoðað sérstaklega.

Og í þriðja lagi að í 9. lið d “um að setja upp ljósastaura í Hörgárbyggð”, komi til viðbótar, “hjá þeim ábúendum sem þess óska”.

b. Fundargerð framkvæmdanefndar íþróttahúss frá 24. janúar 2003 var lesin  upp til kynningar. Þar kemur fram að rekstrartekjur ársins 2001 voru kr. 12.686.871 og rekstrargjöldin voru kr. 13.060.996. Rekstrarstyrkur sveitarfélaganna var kr. 2.000.000.

c. Lögð var fram til kynningar niðurstaða skoðunar á bókhaldi íþróttamannvirkja ÞMS sem KPMG vann fyrir Hörgárbyggð dagana 12. og 13. desember 2002. Þar koma fram þó nokkrar athugasemdir vegna færslu bókhalds og fl. Þar á meðal að nauðsynlegt er að gengið verði frá skriflegum samningum um rekstur íþróttahússins milli eigenda, forstöðumanns og annarra starfsmanna íþróttahússins. Þau mál er varða íþróttamannvirkin eru komin í vinnslu og verður þeim framhaldið á næstu vikum í samstarfi við Arnarneshrepp.

 

2.   Leikskólinn – dvalarsamningur – inntökureglur - greiðsla annarra sveitarfél.

Dvalarsamningur barna við leikskólann Álfastein var staðfestur samhljóða í sveitarstjórn með áorðnum breytingum. Greiðslur annarra sveitarfélaga til leikskólans með sínum börnum verði þær sömu og eru hjá Akureyrarbæ hverju sinni.

Afslættir á leikskólagjöldum námsmanna verði þeir sömu og eru í gildi hjá Akureyrarbæ hverju sinni.

Reglurnar eru eftirfarandi: Afsláttur dvalargjalda á leikskóla er ef foreldra stunda nám í VMA, MA eða HA. 25% af dvalargjaldi ef annað foreldrið er í fullu námi í a.m.k tvö ár. Fullt nám í VMA, MA er 15 til 18 einingar á önn. Ef önnin nær ekki 15 einingum þá er engin afsláttur veittur. Krafist er nýs vottorðs fyrir hverja önn. 50% afsláttur er ef báðir foreldrar eru í fullu námi. Háskólinn metur hvað er fullt nám hjá honum og gefur vottorð samkvæmt því fyrir hverja önn.

 

Inntökureglur fyrir Álfastein voru staðfestar samhljóða með áorðnum breytingum og eru þær eftirfarandi:

Forgang um vistun hafa:

      1. Íbúar Hörgárbyggðar

      a) Börn með sérþarfir, þar sem fyrir liggur greining frá Greiningarstöð ríkisins eða Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar.

      b) Börn sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður samkvæmt mati Fjölskyldudeildar og/eða Barnaverndarnefndar.

      c) Börn á síðasta leikskólaári vegna aldurs (5 ára börn)

 

      2. Íbúar annarra sveitarfélaga.

      Leikskólastjóri má úthluta, að höfðu samráði við leikskólanefnd lausum leikskólaplássum til barna í öðrum sveitarfélögum ef fyrir liggur skrifleg staðfesting frá viðkomandi sveitarstjórn um að sveitarfélagið muni taka þátt í kostnaði við vistun barnsins. Upphæð á hvern seldan vistunartíma er ákveðin af sveitarstjórn Hörgárbyggðar.

 

Oddvita falið að senda leikskólastjóra bréf og óska eftir skýringum hvers vegna barn úr Arnarneshreppi haf verið veitt leikskólapláss án þess að gengið hafi verið frá samkomulagi um greiðslu frá Arnarneshreppi og án þess að leita eftir heimild leikskólanefndra fyrir inntöku barnsins. Einnig á hvaða forsendum var barnið tekið inn og þá hvort leikskólaplássið sé uppsegjanlegt af hálfu leikskólans samanber gildandi inntökureglur.

 

 

3.   Húsnæðið í Þelamerkurskóla, gistiþjónusta

Ákveðið að skoða fleiri möguleika varðandi staðsetningu sveitarstjórnarskrifstofu áður en farið verður út í viðamiklar breytingar á húsnæði Þelamerkurskóla.

Erindi frá Ásbirni Valgeirssyni og Hörpu Hrafnsdóttir um að reka gistiþjónustu í Þelamerkurskóla næsta sumar var vísað til framkvæmdanefndar skólans til afgreiðslu.

 

4.   Reiðhöll

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar hefur tekið til skoðunar erindi frá Hestamannafélaginu Framfara um að Hörgárbyggð leggi til fjármagn í byggingu reiðhallar að Björgum. Þar sem fjármögnun verkefnisins er mjög óljós sér sveitarstjórn Hörgárbyggðar sér ekki fært að gefa eitthvert vilyrði fyrir fjárveitingu.

 

5.   Tónlistarskólinn, hljóðfærakaup

Erindi Tónlistarskóla Eyjafjarðar um hljóðfærakaup var tekið til afgreiðslu. Hlutur Hörgárbyggðar er u.þ.b. kr. 91.000 á ári næstu þrjú árin. Erindið var samþykkt með 6 atkvæðum, einn var á móti.

 

6.   Sorpmálin

Málin voru rædd og skipst á skoðunum og var ákveðið að halda borgarfund sem fyrst og fá þar frummælendur til að kynna málin.

 

7.   Skipulagsmál

Auglýsing, eins og hún mun verða birt, um byggingarsvæðið við Skógarhlíð var samþykkt. Þar kemur fram að Hörgárbyggð hefur hug á að úthluta í einu lagi umræddu byggingasvæði og er óskað eftir að þeir verktakar sem hafa áhuga á að byggja á þessum stað hafi samband við sveitarstjóra.

      Samþykkt að oddviti skrifi undir það að Ævar Ármannsson hjá V.S.T. verði skipulagsfulltrúi Hörgárbyggðar að því gefnu að ekki fylgi því einhverjar sérstakar fjárhagskuldbindingar.

 

8.   Fjárhagsætlanir

Fjárhagsáætlun skólans var rædd og samþykkt með áorðnum breytingum. Fjárhagsáætlun Hörgárbyggðar var rædd að teknu tilliti til heimasíðugerðar, sorpgjalds og fleira. Fjárhagsáætluninni var vísað til næsta fundar til afgreiðslu.

 

9.   Sala á Hrauni

Bréf frá Bjarna Guðleifssyni þar sem fram kemur að Menntamálaráðuneytið er að skoða hvort ríkið kaupi Hraun í Öxnadal. Eigendur Hrauns fyrirhuga að selja einkaaðilum í febrúar nk. ef ekki hefur verið gengið frá málinu við ríkið fyrir þann tíma.

 

10.Önnur mál

Snjómoksturssamningur við Vegagerð ríkisins er ekki hnökralaus. Einungis er um að ræða helmingamokstur þrisvar sinnum í viku. Oddviti mun hafa samband við Birgi hjá Vegagerðinni til að fá upplýsingar um hvað annað sé í boði. Málin verða skoðuð nánar.

 

Bréf frá Davíð Guðmundssyni í Glæsibæ þar sem hann óskar eftir að fá afslátt af fasteignagjöldum á ónotuðum og/eða ónýtum útihúsum. Samþykkt að lækka fasteignagjöld af umræddum útihúsum um 30%. Einnig óskar Davíð eftir lækkun á fasteignagjöldum íbúðarhúss þar sem eiginkona hans sé öryrki. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkti að ef greiðandi fasteignagjalda íbúðar er 75% öryrki eða meira hjá Tryggingastofnun muni viðkomandi hafa sama afslátt af fasteignagjöldum og aldraðir hafa í Hörgárbyggð.

 

Erindi frá Menntasmiðju kvenna þar sem óskað er eftir að Hörgárbyggð greiði kr. 10.6000 vegna íslenskunáms nýbúa úr sveitarfélaginu. Erindið samþykkt.

 

Samþykkt að greiða húsverði Mela, Þórði Steindórssyni, föst laun kr. 10.000 pr. mánuð.

 

Sveitarstjórn samþykkti að greiða sveitarstjóra með janúarlaunum þá 15 eftirvinnutíma sem hún hefur unnið umfram þá föstu eftirvinnu sem hún er með samkvæmt kjarasamningi. Verður sú regla framvegis að unnin eftirvinna umfram kjarasamning verður greidd jafnóðum.

 

Mjög áríðandi er að bókhaldskerfin komist í rétt horf sem fyrst og gengið verði frá samkomulagi við sveitarstjóra Arnarneshrepps um kostnaðarskiptingu. Oddvita falið að vinna að málinu ásamt sveitarstjóra.

 

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 00:50.

 

Birna Jóhannesdóttir, fundaritari