Fundargerð - 26. júní 2002

Miðvikudaginn 26. júní 2002 kl. 20:30 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til fundar í Hlíðarbæ.

 

Mættir voru Ármanna Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir og Sturla Eiðsson.

 

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.
 

1.  Staða mál í Skógarhlíð, Ævar Ármannsson frá Verkfræðistofnunni VST kynnti deiliskipulag í Skógarhlíð ásamt hugmyndum að lagnastæði fráveitulagna frá Lónsá og fyrir þær 6 lóðir sem búið er að skipuleggja austan Skógahlíðar, sunnan lækjar. Ákveðið var að fara í lagnavinnuna sem fyrst og setja þessar 6 lóðir í útboð eins fljótt og hægt er. Verkfræðistofunni VST var falið að annast útboðið á lóðunum og sjá um undirbúning fráveitulagna. Helga Steinssyni falið að útvega verktaka í fyrirsjáanlega gröfuvinnu. Einnig þarf að hafa samband við RARIK og óska eftir að þeir fjarlægi spenni sem er þarna staðsettur.

 

2.  Bókhald, Sigfús Karlsson kom að máli við sveitarstjórn til að kynna sér hug sveitarstjórnamanna til ráðningar á sveitarstjóra. Hvert væri fyrirhugað starfssvið sveitarstjóra ef af ráðningu yrði og hvort mönnum væri ljóst hvað kostnaður væri því samfara. Ný bókhaldslög sveitarfélaga væru mjög flókin og ekki nema á fárra færi að setja sig inn í þau. Hann væri búinn nú þegar að leggja á sig mikla vinnu vegna sameiningar sveitarfélagsins en nú væri þeirri vinnu lokið. Fram kom að vinnuframlag hans á árinu 2001 hafi verið sem svaraði til þriggja mánaða vinnu í fullu starfi á móti tæplega tveggja mánaða vinnu á árinu 2000. Sigfús fékk þau svör að ef af ráðningu sveitarstjóra yrði þá væri fyrirhugað að sveitarstjórinn tæki yfir allt bókhald sveitarfélagsins. Einnig að sveitarstjórnarmenn gerðu sér grein fyrir þeim kostnaði sem væri því samfara og þá jafnframt hvað myndi sparast á móti.

 

3.  Fundargerðir sveitarstjórnar frá 15. og 18. júní voru staðfestar með áorðnum breytingum. Fundargerðir skólanefndar frá 6. og 18. júní voru staðfestar samhljóða. Fundargerð leikskólanefndar frá 6. maí var staðfest með þeirri breytingu í inngangsreglum leikskóla að börn kennara sem starfa við Þelamerkurskóla hafi forgang til vistunar sama var þau búa. Fundagerð byggingarnefndar frá 6. júní var staðfest samhljóma, ásamt fundargerð framkvæmdanefndar frá 21. júní. Samningur um ráðgjafaþjónustu Kennaradeildar Háskólans á Akureyri við Leikskólann Álfastein var lagður fram til kynningar og var hann staðfestur.

 

4.  Fjárhagsáætlun – viðhald Mela. Oddviti lagði fram drög að breyttri fjárhagsáætlun fyrir árið 2002 vegna nýrra hugmynda um framkvæmdir á Melum. Kostnaðaráætlun liggur nú fyrir. Heildarupphæð er kr. 11.000.000. Hlutur Hörgárbyggðar er kr. 8.660.000, hlutur kvenfélagsins og hlutur leikfélagsins kr. 1.980.000. Eftir nokkrar umræður var gengið til atkvæða hvor sveitarstjórn Hörgárbyggðar gæfi samþykkt sitt fyrir því að Félagsheimilið að Melum færi í þær gegngerðu breytingar sem um hefur verið rætt. Atkvæði féllu þannig að Helgi og Sigurbjörg samþykktu fjárveitinguna. Klængur, Ármann, Guðný og Birna sátu hjá og Sturla greiddi atkvæði á móti. Breytingarnar voru því samþykktar með framangreindum hætti. Breytt fjárhagsáætlun fyrir Hörgárbyggð var síðan samþykkt með 6 atkvæðum 1 var á móti.

 

5.  Tilnefning varamanns í stjórn Hafnasamlags Norðurlands. Hermann Harðarson var einróma skipaður sem varamaður í stjórn Hafnasamlags Norðurlands.

 

6.  Girðing, Skógarhlíð-Bitrugerði. Sveitarstjórn samþykkti að fara að girðingarlögum sem samþykkt voru að Alþingi 14. desember 2001 og girða fyrir ofan veginn í Skógarhlíð að jöfnu á móti landeigendum í Bitrugerði, skv. framkominni ósk þeirra.

 

7.  Sveitarstjóri: Rætt var um að ráða sveitarstjóra og ákvað sveitarstjórn að fá ráðningarskrifstofuna Mannafl til að auglýsa eftir sveitarstjóra. Sigurbjörgu og Guðnýju var falið að útbúa auglýsingu í samvinnu við Mannafl. Ef af ráðningu sveitarstjóra verður er stefnt að því að hann geti hafið störf ekki síðar en 1. janúar 2003. Sveitarstjóra væri t.d. ætlað að sjá um allt bókhald Hörgárbyggðar og vinna ýmislegt sem oddviti hefur séð um hingað til, ásamt daglegum rekstri sveitarfélagsins. Sú vinna sem honum er ætlað að sjá um hefur Hörgárbyggð, undanfarin ár, greitt fyrir u.þ.b. fjórar milljónir árlega. Fram kom að jöfnunarsjóður sveitarfélaga leggi fram ákveðna upphæð árlega í fimm ár frá sameiningu sveitarfélaga til að koma á móti þeim kostnaði sem fylgir því að sameina og stofna nýtt sveitarfélag. Í fjárhagsáætlun Hörgárbyggðar fyrir árið 2002 er gert ráð fyrir kr. 1.500.000 fjárveitingu vegna ráðningar sveitarstjóra og ákvað sveitarstjórn að nýta þá fjárveitingu til að útbúa skrifstofu fyrir sveitarstjóra og verður hún að sjálfsögðu staðsett í Hörgárbyggð. Uppsagnarfrestur bókhaldara Hörgárbyggðar eru þrír mánuðir vegna sveitarsjóðs og sex mánuðir vegna Þelamerkurskóla.

 

8.  Systrasamtök Stígamóta sækir um kr. 20.000 styrk til starfsemi samtakanna á Norðurlandi. Sveitarstjórn samþykkti að veita samtökunum kr. 20.000 í styrk.

 

9.  Önnur mál

 

Óskað er eftir að Hörgárbyggð kaupi styrktarlínu í Skinfaxa 2002 vegna afmælis UMFÍ sem er 90 ára um þessar mundir. Erindi er hafnað.

Erindi frá Valdís Jónsdóttur Hraukbæjarkoti þar sem hún óskar eftir að sveitarstjórn beiti sér fyrir því að gert verði við fjallsgirðinguna í Kræklingahlíð. Bent er á að fjallsgirðingar eru á ábyrgð þeirra landeigenda sem eiga land að girðingunni en ef landeigendur hafa áhuga á að fá girðingarmann Hörgárbyggðar, Kristján Sigurðsson, til viðgerða á fjallsgirðingu eiga þeir að hafa samband við Kristján og væri það þá á kostnað hvers landeiganda fyrir sig.

Rætt var um laun girðingarmanns, Kristjáns Sigurðssonar, og ákvað sveitarstjórn að greiða honum kr. 1.200 pr. klukkutíma.

Ármann Búason upplýsti að hann hefði verið kallaður á fund veganefndar. Þar hefði komið fram að fara ætti í þrjú verkefni í Hörgárbyggð. Í Garðshornsveg kr. 750.000, í Hlíðarhólsveg kr. 500.000 og veginn að Bug kr. 250.000.

Lögð fram beiðni um heimilisaðstoð frá hjónunum Stefáni Halldórssyni og Önnu Jónsdóttur á Hlöðum. Fram kom að Ásta Stefánsdóttir væri tilbúin að taka að sér þessa að stoð ef hún yrði samþykkt. Sveitarstjórn samþykkti að greiða umbeðna heimilisaðstoð, þrjá klukkutíma á viku.

 

Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið kl. 00.40.