Fundargerð - 24. júní 2004

Fimmtudaginn 24. júní 2004 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 54. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Ásrún Árnadóttir, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Sturla Eiðsson, ásamt sveitarstjóra Helgu A. Erlingsdóttur. Engir áheyrnarfulltrúar mættu.

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

 

1. Kjör oddvita og varaoddvita. 

Helgi Steinsson var endurkjörinn oddviti og Sigurbjörg Jóhannesdóttir, varaoddviti.

 

2.  Ársreikningar 2003 – síðari umræða.

Þar kemur fram að skatttekjur á hvern íbúa voru kr. 293.542, þjónustutekjur og aðrar tekjur kr. 25.739, eignir kr. 431.910, eigið fé kr. 366.300 og skuldir kr. 65.610.

Niðurstaða rekstrarársins A og B hluta er eftirfarandi:

Heildartekjur sveitarsjóðs kr. 117.484.000, rekstrargjöld kr. 132.661.000.  Ársreikningar Hörgárbyggðar voru síðan samþykktir með þeim fyrirvara að kostnaðarskipting á öllum launum sem greidd eru starfsmönnum Þelamerkurskóla skiptist eftir nemendafjölda sbr. bókun frá sameiginlegum fundi sveitarstjórna Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar frá 17. mars 2003.

 

3.  Fundargerðir.

a) Fundargerð framkvæmdanefndar frá 25. maí. 2004, fundargerðin var rædd og staðfest án athugasemda.

b) Fundargerðir skólanefndar frá 25. maí og 16. júní 2004.  Fundargerðirnar voru ræddar og afgreiddar án athugasemda.

c) Fundargerðir heilbrigðisnefndar frá 10. maí og 2. júní 2004.  Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar. Þar kom fram að þær vatnsveitur sem fengið hafa starfsleyfi í Hörgárbyggð eru á eftirfarandi bæjum: Syðri-Bægisá, Þverá, Brakanda, Stóra-Dunhaga, Lönguhlíð, Þríhyrningi og Neðri-Vindheimum.

d) Stjórnar Eyþings frá 14. maí 2004.

Lögð fram til kynningar. Sveitarstjóri benti á að Eyþing hefur opnað heimasíðu og er slóðin www.eything.is

e) Fundargerðir bygginganefndar frá 18. maí og 15. júní 2004. Samþykktar án athugasemda.

 

4. Tónlistarskóli Eyjafjarðar, kostnaðaráætlun, rekstur.

Lagður fram ársreikningur Tónlistarskóla Eyjafjarðar 2003. Tekjur voru kr. 24.890.062, gjöldin kr. 25.458.902 mismunur –566.840. Áætlaður launakostnaður fyrir haustönn 2004 vegna Hörgárbyggðar er kr. 340.065 pr. mán, ágúst - desember.  Framlag Hörgárbyggðar til Tónlistarskóla Eyjafjarðar árið 2003 var kr. 3.441.415.  15 börn úr Hörgárbyggð stunduðu nám við skólann á sl. vetri miðað við fullt nám, fyrir utan skólakennslu. Fjárhagsáætlun Tónlistarskóla Eyjarfjarðar var síðan samþykkt samhljóða. Sveitarstjórn ákvað að vísa til framkvæmdanefndar til skoðunar hvor ekki væri til hagkvæmari lausn varðandi tónlistarkennslu við ÞMS, þar sem tónlistarskólinn þykir frekar dýr fyrir sveitar­félagið.

 

5. Erindi til kynningar.

a)  Sorpeyðing Eyjafjarðar – Um förgun sorps.

b)  Skipting kostnaðar við brunavarnir, tilboð.

c)  Framkvæmdaáætlanir í barnaverndarmálum, ákveðið var að best væri að barna­verndar­mál verði áfram í samvinnu við hin sveitarfélögin.

d)  Frá félagsmálaráðuneytinu um sölu á fasteignum.

e)  Minnispunktar frá vinnuhóp um þjónustu og kynningarmál á Gása­­svæðinu.

 

6.  Frá Héraðsnefnd, ályktun um vaxtasamning.

Þar kemur fram að nefndin fagnar því að komnar séu tillögu  frá verkefnisstjórn. Lögð er m.a. áhersla á að Matvælastofnun Íslands verði á Akureyri, að fjölgað verði störfum á vegum ríkisins á Eyjafjarðarsvæðinu og að eflingu endurhæfingar og uppbyggingu í heilsutengdri upplýsingatækni, það sé mjög mikilvægt að stutt sé við áætlanir FSA í þeim efnum.

 

7. Sameiningarmál.

Þriðjudaginn 22. júní var haldinn fundur á Hótel KEA að frumkvæði félagsmálaráðuneytisins um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Þar kom fram að í haust mun nefndin sem sér um eflingu sveitarstjórnarstigsins setja fram sínar tillögur um hvaða sameiningarkosti verði kosið. Kanna þarf hug íbúa Hörgárbyggðar til sameiningarmála og væri hugsanlegt að gera slíka könnun samfara þjóðaratkvæðagreiðslu v/fjölmiðlafrumvarpsins. Sveitarstjóra falið að halda sveitar­stjórn upplýstri um umræður um sameiningarmál og einnig að fá framkvæmdastjóra  Eyþings, sem fyrst og eigi síðar en 20. júlí til að undirbúa  skoðunarkönnun þar sem Eyþing hefur boðið fram aðstoð sína við að vinna að undirbúningi sameiningarumræðna.

 

8.  Samningar-íþróttahús.

Sveitarstjóra falið að skrifa undir starfslýsingar starfsmanna íþróttamannvirkjanna eins og þær voru samþykktar í sveitarstjórn í apríl 2004 og sendir voru oddvita Arnarnes­hrepps í sama mánuði.

 

9. Fasteignagjöld á sumarhús til útleigu.

Undir umræðu kom fram að fasteignagjöld af sumarhúsum til útleigu falla undir B-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

 

10. Framkvæmdir.

Bora á könnunarholur í reitnum við Birkihlíð þar sem dýpra er á fast búið var að segja. Grunnurinn sem búið er að taka var að meðaltali 4,5 metrar á dýpt. Sveitarsjóður ber ábyrgð á kostnaði við gerð hvers grunns umfram tveggja metra dýpt. Kötlumenn áætla að tvö hús rísi fljótlega og tvö síðar í haust.

 

11. Fjármál.

Samþykkt að framlengja yfirdráttinn óbreyttan hjá Sparisjóði Norðlendinga til 1. október 2004.

 

12. Lóð í landi Einarsstaða.

Hjördís Stefánsdóttir og Jóhann Olsen sækja um leyfi sveitarstjórnar Hörgárbyggðar til að byggja íbúðarhús neðan þjóðvegar. Erindinu vísað til skipulagsnefndar.

 

13. Nefndarskipun.
Ákveðið var að fela fjallskilanefnd umsjón með riðumálum Hörgárbyggðar. Erindi frá Skarphéðni Péturssyni var hafnað um að flytja hálm frá Garði í Eyjafjarðarsveit að refahúsinu í Auðbrekku þar sem fara þarf yfir sauðfjárvarnarlínu. Ákveðið var að benda Skarphéðni á að til væri vel þurr hálmur í Hörgárbyggð ef hann vildi.

 

14. Umhverfismál.

Íbúar í Hörgárbyggð eru eindregið hvattir til að huga að umhverfismálum og gera átak í því að taka til á jörðum sínum, lóðum við íbúðarhús, sumarhúsalóðum og iðnaðarlóðum. Einnig var ákveðið að fá Heilbrigðiseftirlit Eyjafjarðar til að gera úttekt á umhverfismálum í Hörgárbyggð.

 

15.  Opnunartími á skrifstofu.

Ákveðið að opnunartími skrifstofunnar verði takmarkaður og verður opnunartíminn kynntur í fréttabréfi.

 

16.  Trúnaðarmál.

 

Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið kl. 00:07