Fundargerð - 21. maí 2014

Miðvikudaginn 21. maí 2014 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Axel Grettisson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Helgi Þór Helgason, Sunna Hlín Jóhannesdóttir.

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Þetta gerðist:

 

1. Fundargerðir heilbrigðisnefndar 5. mars, 9. apríl og 7. maí 2014

Fyrsta fundargerðin er í fjórum liðum, auk afgreiðslu á tólf umsóknum um starfsleyfi, önnur fundargerðin er í fimmtán liðum, þar á meðal er afgreiðsla á ársreikningi Heilbrigðiseftirlitsins fyrir árið 2013, auk afgreiðslu á tólf umsóknum um starfsleyfi, og síðasta fundargerðin er í tólf liðum, auk afgreiðslu á þremur umsóknum um starfsleyfi. Enginn þessara liða varða Hörgársveit með beinum hætti.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti framlagðan ársreikning Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra fyrir árið 2013. Fundargerðirnar gefa ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

2. Fundargerð fræðslunefndar 6. maí 2014

Fundargerðin er í fimm liðum. Í henni er ein tillaga til sveitarstjórnar, um verðskrá útleigu í Þelamerkurskóla og reglu að reikningsfærslu á afnotum hópa og félaga að skólahúsnæðinu. Þá kemur í fundargerðinni fram staðfesting á starfsáætlunum Þelamerkurskóla og Álfasteins fyrir skólaárið 2014-2015. Aðrir liðir hennar eru um námshópa og starfsmannahald skólaárið 2014-2015 í Þelamerkurskóla, um niðurstöður Olweuskönnunar og um verklag við ákvarðanatöku vegna starfsmannahalds í Álfasteini.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu fræðslunefndar um verðskrá fyrir útleigu á Þelamerkurskóla, en samþykkti ekki tillögu að reglu að reikningsfærslu á afnotum hópa og félaga að skólahúsnæðinu, eins og hún er lögð fram. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

3. Fundargerð menningar- og tómstundanefndar 16. maí 2014

Fundargerðin er í fjórum liðum. Í henni eru tvær tillögur til sveitarstjórnar, um samning við Sögufélag Hörgársveitar vegna útgáfu Heimaslóðar og um samning um viðhald og rekstur Félagsheimilisins Mela, sbr. 5. gr. samnings um breytingar á eignarhaldi Mela. Aðrir liðir hennar eru um Sæludaginn 2014 og afmæli sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu menningar- og tómstundanefndar að samningi við Sögufélag Hörgársveitar um útgáfu Heimaslóðar og tillögu að samningi um viðhald og rekstur á Félagsheimilinu Melum. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

4. Þórustaðarétt, framkvæmdaleyfi fyrir vegi

Lögð fram umsókn, dags. 16. apríl 2014, frá Skútabergi ehf. um framkvæmdaleyfi fyrir vegi að Þórustaðarétt, sbr. 1. lið í fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar 19. maí 2014, sjá 5. lið þessarar fundargerðar.

Sveitarstjórn samþykkti, að tillögu skipulags- og umhverfisnefndar, að gefið verði út framkvæmdaleyfi til Skútabergs ehf. fyrir vegi að Þórustaðarétt í samræmi við gildandi deiliskipulag. Framkvæmdaleyfisgjald, kr. 49.000, greiðist.

 

5. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar 19. maí 2014

Fundargerðin er í fjórum liðum, einn þeirra var til afgreiðslu fyrr á fundinum. Aðrir liðir fundargerðarinnar eru um skýrslu frá Vegagerðinni um bættar vegasamgöngur milli Akureyrar og Grjótgarðs, um ályktanir frá Garðyrkjufélagi Íslands, annars vegar um kynbætur á yndisplöntum og hins vegar um mótun landslags og ræktun í þéttbýli, og um deiliskipulag á Lónsbakka.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar, að undanskildu því, sem fram kemur í 4. lið þessarar fundargerðar.

 

6. Fjárhagsrammar fastanefnda 2015

Rætt um drög að fjárhagsrömmum fastanefnda fyrir árið 2015. Í þeim er gengið út frá að heildarskatttekjur sveitarfélagsins á árinu 2015 verði 382 millj. kr. og að veltufé frá rekstri á árinu verði 50 millj. kr.

Sveitarstjórn samþykkti að fjárhagsrammar fastanefnda vegna vinnslu á fjárhags-áætlunar sveitarfélagsins fyrir árið 2015 verði sem hér segir:

·       Félagsmála- og jafnréttisnefnd           26,0 millj. kr.

·       Fræðslunefnd                                  209,0 millj. kr.

·       Menningar- og tómstundanefnd          66,0 millj. kr.

·       Skipulags- og umhverfisnefnd            18,0 millj. kr.

·       Atvinnumálanefnd                              1,5 millj. kr.

 

7. Skipulagsfulltrúi

Lagt fram til kynningar minnisblað um hugsanlega ráðningu skipulagsfulltrúa fyrir aðildarsveitarfélög byggingafulltrúaembættis Eyjafjarðarsvæðis, sbr. fundargerð sveitarstjórnar 15. janúar 2014.

 

8. Hagaganga, leyfisveitingar

Lagt fram yfirlit yfir umsóknir um hagagönguleyfi 2014. Fulltrúi Landgræðslu ríkisins hefur kannað ástand þess lands sem um ræðir. Hann telur að í öllum tilvikum þoli hlutaðeigandi jarðir að bæta umbeðnum fjölda búfjár við það búfé sem er í eigu landeiganda. Fulltrúinn mun fylgjast með beitarálagi landsins áfram.

Sveitarstjórn samþykkti að veita leyfi til hagagöngu til eins árs á grundvelli fyrirliggjandi umsókna.

Helgi Steinsson tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

 

9. Flutningur á skrifstofu sveitarfélagsins

Lagðir fram til kynningar nokkrir valkostir í staðsetningu skrifstofu sveitarfélagsins í tengibyggingu milli B- og C-álmu í Þelamerkurskóla, dags. í maí 2014, sbr. samþykkt sveitarstjórnar 12. desember 2013. Þeir eru unnir af VA-arkitektum.

 

10. Vinnuskóli, laun

Rætt um laun í vinnuskóla sumarið 2014.

Sveitarstjórn samþykkti að laun í vinnuskóla sumarið 2014 verði 500 kr./klst. fyrir börn fædd 2000, 550 kr./klst. fyrir börn fædd 1999 og 690 kr./klst. fyrir börn fædd 1998. Orlof er innifalið.

 

11. Tónlistarskóli Eyjafjarðar, reglugerð

Lögð fram tillaga að endurskoðaðri reglugerð fyrir Tónlistarskóla Eyjafjarðar.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti fyrirliggjandi tillögu að reglugerð fyrir Tónlistarskóla Eyjafjarðar.

 

12. Búðagata 13a, lóðarumsókn

Lögð fram umsókn, dags. 25. apríl 2014, frá Vilhjálmi Ingvarssyni um verbúðalóðina Búðagötu 13a á Hjalteyri.

Sveitarstjórn samþykkti að fresta afgreiðslu fyrirliggjandi umsóknar um lóðina Búðagötu 13a þar til lausar verbúðalóðir á Hjalteyri hafa verið auglýstar til umsóknar.

 

13. Birkihlíð 7, breyting á lóðarmörkum

Lögð fram drög að endurskoðuðu lóðarblaði fyrir lóðina Birkihlíð 7, Lónsbakka.

Sveitarstjórn samþykkti að gerður verði nýr lóðarsamningur um lóðina Birkihlíð 7 á grundvelli fyrirliggjandi lóðarblaðs.

 

14. Þrastarhóll, frístundabyggð, breyting á landamerkjum

Lagt fram bréf, dags. 16. maí 2014, frá Haraldi Jósefssyni, þar sem óskað er eftir samþykki fyrir breytingu á landamerkjum frístundabyggðar á Þrastarhóli.

Sveitarstjórn samþykkti að ekki verði gerð athugasemd við breytt landamerki frístundabyggðar á Þrastarhóli af hálfu sveitarfélagsins.

Axel Grettisson vék af fundi við afgreiðslu málsins.

 

15. Trúnaðarmál

 

 

Þar sem þetta var síðasti fundur sveitarstjórnarinnar á kjörtímabilinu þökkuðu fundarmenn hvorum öðrum fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 22:50.