Fundargerð - 21. ágúst 2014

Fimmtudaginn 21. ágúst 2014 kl. 15:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn:  Axel Grettisson, Ásrún Árnadóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir og Jón Þór Benediktsson.

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Þetta gerðist:

 

1. Ráðningarsamningur sveitarstjóra

Lagður fram ráðningarsamingur sveitarfélagsins við Guðmund Sigvaldason, sveitarstjóra, sbr. samþykkt sveitarstjórnar 18. júní 2014.

Sveitarstjórn staðfesti fyrirliggjandi ráðningarsamning við sveitarstjóra.

 

2. Fundargerð fræðslunefndar 12. ágúst 2014

Fundargerðin er í tveimur liðum, um breytingu á starfsáætlun Þelamerkurskóla 2014-2015 og um vistunarúrræði fyrir yngstu nemendur þá daga sem nemur frestun skólabyrjunar.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

3. Fundargerð atvinnu- og menningarnefndar 14. ágúst 2014

Fundargerðin er í fimm liðum. Þar eru tvær tillögur til sveitarstjórnar, um erindisbréf nefndarinnar og um afgreiðslutíma í Íþróttamiðstöð veturinn 2014-2015. Ennfremur er í fundargerðinni fjallað um fjárhagsramma nefndarinnar vegna fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2015, um menningarmiðstöð á Möðruvöllum og um stöðu atvinnulífs í sveitarfélaginu.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu atvinnu- og menningarnefndar um að fyrirliggjandi drög að erindisbréfi nefndarinnar verði samþykkt og tillögu nefndarinnar um afgreiðslutíma Íþróttamiðstöðvar veturinn 2014-2015. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

4. Fundargerð fjallskilanefndar 19. ágúst 2014

Fundargerðin er í fimm liðum, þ.e. um fjallskilastjórn í Arnarnesdeild, um undanþágur frá fjallskilum, um álagningu gangnadagsverka, um flutning fjár sem kemur fram utansveitar og um viðhald fjárrétta.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

5. Kosning í barnaverndarnefnd Eyjafjarðar

Lagður fram tölvupóstur, dags. 20. júní 2014, frá starfsmanni barnaverndarnefndar Eyjafjarðar um kosningu af hálfu Eyjafjarðarsveitar, Grýtubakkahrepps, Hörgársveitar og Svalbarðsstrandarhrepps í barnaverndarnefndina.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti að Elisabeth J. Zitterbart verði aðalmaður í barnaverndarnefnd Eyjafjarðar sem sameiginlegur fulltrúi Eyjafjarðarsveitar, Grýtubakkahrepps, Hörgársveitar og Svalbarðsstrandarhrepps og að Sigmundur Guðmundsson verði varamaður hennar, hvort tveggja til loka yfirstandandi kjörtímabils.

 

6. Verbúðalóðir á Hjalteyri, úthlutun

Lagðar fram umsóknir um verbúðalóðir á Hjalteyri, sbr. samþykkt sveitarstjórnar 18. júní 2014. Umsóknir bárust um sex verbúðalóðir af níu, sem auglýstar voru lausar til umsóknar.

Sveitarstjórn samþykkti að úthluta Vilhjálmi Ingvarssyni verbúðalóðinni Búðagata 13a, Ásgrími Magnússyni verbúðalóðunum Búðagata 21, 23, 25 og 27 og Jóhannesi Ævarssyni verbúðalóðina Búðagata 29.

 

7. Yfirlit yfir rekstur og efnahag

Lagt fram til kynningar yfirlit yfir rekstur og efnahag sveitarsjóðs á fyrri helmingi ársins 2014. Ennfremur voru lögð fram til kynningar tvö bréf, annars vegar, dags. 12. júní 2014, frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, þar sem m.a. er gerð grein fyrir mikilvægi fjárhagsáætlunargerðar hjá sveitarfélögum og bent á ábyrgð sveitarstjórnar á fjármálum sveitarfélagsins, og hins vegar bréf, dags. 18. júní 2014, frá innanríkisráðuneytinu um gerð viðauka við fjárhagsáætlanir.

Rætt um undirbúning að gerð fjárhagsáætlunar sveitarsjóðs fyrir árið 2015.

 

8. Snjóhreinsun veturinn 2014-2015

Rætt um gerð samninga um snjóhreinsun á Hjalteyri, Laugalandi, Lónsbakka og Möðruvöllum.

Sveitarstjórn samþykkti að leitað verði eftir samningum um snjóhreinsun á Hjalteyri, Laugalandi og Lónsbakka veturinn 2014-2015.

 

9. Efnistaka úr Hörgá, umsögn um tillögu að matsáætlun

Lagt fram bréf, dags. 26. júní 2014, frá Skipulagsstofnun þar sem óskað er eftir umsögn um tillögu að matsáætlun umhverfismats á efnistöku úr Hörgá sem nemur alls 795.000 m3.

Sveitarstjórn samþykkti að af hálfu sveitarfélagsins verði ekki gerð athugasemd við framlagða tillögu að matsáætlun umhverfismats á efnistöku úr Hörgá.

 

10. Gerð deiliskipulags fyrir Hjalteyri

Rætt um undirbúning að gerð deiliskipulags fyrir Hjalteyri.

Sveitarstjórn samþykkti að kannaðir verði möguleikar á ráðningu skipulagsráðgjafa vegna væntanlegrar vinnu við deiliskipulag fyrir Hjalteyri.

 

11. Hlíðarvegur (818), endurbætur

Lagt fram bréf, dags. 21. júní 2014, frá Valdísi I. Jónsdóttur o.fl. um ástand Hlíðarvegar, (818).

Sveitarstjórn samþykkti að af hálfu sveitarfélagsins verði þrýst á um endurbætur á Hlíðarvegi og öðrum vegum í sveitarfélaginu, eftir því sem tilefni gefast, þar á meðal að eiga fund með vegamálastjóra um ástand veganna.

 

12. Lón, lóðarmál

Lagt fram bréf, dags. 18. ágúst 2014, frá Ásgeiri Erni Blöndal Jóhannssyni hdl., f.h. B. Jensen ehf., þar sem gerð er grein fyrir fyrirhugðum framkvæmdum á lóð félagsins og óskað eftir viðræðum við sveitarfélagið um málið. Um er að ræða viðbyggingu vestan við núverandi hús félagsins og er þá gert ráð fyrir að vegur sem þar er hliðrist um rúmlega breidd sína til vesturs.

Sveitarstjórn samþykkti að viðræður eigi stað við B. Jensen ehf. umfyrirhugaðar framkvæmdir á vegum félagsins.

 

13. Endurgreiðsla vegna refaveiða

Lagt fram bréf, dags. 10. júlí 2014, frá Umhverfisstofnun þar sem gerð er grein fyrir viðmiðunum vegna endurgreiðslu til sveitarfélaga vegna refaveiða, svo og drög að samningi milli stofnunarinnar og sveitarfélagsins um endurgreiðslur 2014-2016.

Sveitarstjórn samþykkti að fyrirliggjandi drög að samningi um endurgreiðslur vegna refaveiða 2014-2016 verði undirritaður af hálfu sveitarfélagsins.

 

14. Jafnréttisstofa, um skyldur skv. jafnréttislögum

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 14. ágúst 2014, frá Jafnréttisstofu þar sem vakin eru athygli á þeim ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er varða sveitarfélög.

 

15. Skákfélagið Hrókurinn, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. 11. júní 2014, frá Skákfélaginu Hróknum þar sem sveitarfélaginu er boðið að gerast bakhjarl félagsins.

Sveitarstjórn samþykkti að fyrirliggjandi erindi Skákfélagsins Hróksins verði hafnað.

 

16. Skurður við Birkihlíð, umsókn um lokun

Lagt fram tölvubréf, dags. 26. júní 2014, frá Birni Jóhannessyni, þar sem óskað er eftir að skurði við suðurenda Birkihlíðar verði lokað. Fram kom á fundinum að í frumdrögum að deiliskipulagi Lónsbakka sé gert ráð fyrir að göngustígur komi þar sem skurðurinn er nú.

Sveitarstjórn samþykkti að frágangur við suðurenda Birkihlíðar verði endurskoðaður í samræmi við væntanlegt deiliskipulag fyrir Lónsbakka.

 

17. Þátttaka í starfi Eyþings

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 18. júlí 2014, frá Eyþingi þar sem fjallað er um kosningu fulltrúa á aðalfund Eyþings og um skipun fulltrúaráðs samtakanna.

 

18. Drög að frumvarpi um breytingu á raforkulögum, umsögn

Lögð fram umsögn, dags. 15. ágúst 2014, sem Samband ísl. sveitarfélaga hefur gert um drög að frumvarpi um breytingar á raforkulögum. Í umsögninni er m.a. gerð tillaga um breytta 9. gr. c. í drögunum, sem er um stöðu kerfisáætlunar gagnvart skipulagi sveitarfélaga. Í tillögu Sambandsins er gert ráð fyrir að 5. mgr. greinarinnar falli brott. Málsgreinin gerir ráð fyrir að heimilt sé að krefja þann, sem óskar eftir annarri útfærslu á flutningslínu raforku en flutningsfyrirtækið tekur réttast, um kostnaðarmuninn, leiði sú útfærsla til aukins kostnaðar.

Sveitarstjórn samþykkti að samin verði umsögn um drög að frumvarpi um breytingar á raforkulögum, sem feli í sér eindreginn stuðning við þá tillögu Sambands íslenskra sveitarfélaga að 5. mgr. 9. gr. c í drögunum falli brott. Í því felst að sveitarstjórnin hafnar alfarið 9. gr c. lið frumvarpsins í núverandi mynd og að einnig að mótmælt er harðlega þeirri skerðingu á skipulagsvaldi sveitarfélaga sem fram kemur í frumvarpinu.

 

19. Drög að tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína

Lagt fram til kynningar afrit af frétt, dags. 20. ágúst 2014, af heimasíðu Sambands ísl. sveitarfélaga um drög að tillögu til þingsálykunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.

 

20.  Fjallskilanefnd, kosning varamanns

Lagt fram tölvubréf, dags. 20. ágúst 2014, frá Stefáni Lárusi Karlssyni, þar sem hann skýrir frá því að hann gefi ekki kost á sér sem varamaður í fjallskilanefnd.

Andrés Kristinsson var kosinn varamaður í fjallskilanefnd til loka kjörtímabilsins í stað Stefáns Lárusar Karlssonar.

 

21. 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 19. ágúst 2014, frá afmælisnefnd 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna. Þar er sveitarfélagið hvatt til að minnast þess að konur á Íslandi fengu kosningarétt árið 1915.

 

22. Trúnaðarmál

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 18:15.