Fundargerð - 20. júní 2012

Miðvikudaginn 20. júní 2012 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Axel Grettisson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jón Þór Benediktsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir.

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Þetta gerðist:

 

1. Kosning oddvita og varaoddvita

Hanna Rósa Sveinsdóttir var kosin oddviti og Axel Grettisson var kosinn varaoddviti, bæði til loka kjörtímabils sveitarstjórnarinnar.

 

2. Fjárhagsrammar fastanefnda 2013

Lögð fram drög að fjárhagsrömmum fastanefnda fyrir árið 2013. Í drögunum kemur fram að gert er ráð fyrir að heildarskatttekjur sveitarfélagsins á árinu 2013 verði 378 millj. kr. og að rekstarafgangur verði 25 millj. kr., þannig að um 7-8 millj. kr. verði til framkvæmda, þega afborganir lána hafa verði inntar af hendi.

Sveitarstjórn samþykkti að fjárhagsrammar fastanefnda vegna vinnslu á fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins fyrir árið 2013 verði sem hér segir:

·       Félags- og jafnréttisnefnd                   20,5 millj. kr.

·       Fræðslunefnd                                    220,0 millj. kr.

·       Menningar- og tómstundanefnd          80,0 millj. kr.

·       Skipulags- og umhverfisnefnd            20,0 millj. kr.

·       Atvinnumálanefnd                                 2,5 millj. kr.

 

3. Fundargerð fræðslunefndar, 12. júní 2012

Fundargerðin er í sex liðum. Meginefni hennar er staðfesting starfsáætlana Álfasteins og Þelamerkurskóla fyrir skólaárið 2012-2013. Aðrir liðir hennar eru þrjár tillögur til sveitarstjórnar, þ.e. um breyttar viðmiðunarfjárhæðir fyrir tímabundna leikskóladvöl barna með lögheimili utan sveitarfélagsins, um námsvist utan sveitarfélagsins fyrir tvo grunnskólanemendur og um uppfærslu á heimasíðu Þelamerkurskóla. Þá er þar gerð grein fyrir úttekt sem mennta- og meningarmálaráðuneytið hefur látið gera um skólastarf í Þelamerkurskóla.

Sveitarstjórn samþykkti tillögur fræðslunefndar um breyttar viðmiðunarfjárhæðir fyrir tímabundna leikskóladvöl barna með lögheimili utan sveitarfélagsins, um námsvist utan sveitarfélagsins fyrir tvo grunnskólanemendur og um uppfærslu á heimasíðu Þelamerkurskóla. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

4. Fjárhagsáætlun 2012, viðauki

Lögð fram drög að viðauka við fjárhagsáætlun fyrir árið 2012, sbr. 2. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga. Auðkenni viðaukans er 03/2012. Drögin gera ráð fyrir hækkun á fimm kostnaðarliðum, samtals upp á 3.730 þús. kr. Um er að ræða eftirtalda liði: (1) drenlögn á Hjalteyri, áætlaður kostnaður er 1.600 þús. kr., (2) meiri þátttaka í vinnuskóla en gert hafði verið ráð fyrir, sem kostar um 1.180 þús. kr., (3) aukin umhirða opinna svæða sem áætlað er að kosti um 450 þús. kr., (4) uppfærsla á heimasíðu Þelamerkurskóla upp á 300 þús. kr. og (5) viðbótarkostnaður við viðhald fjárrétta upp á 200 þús. kr. Inni í tölum í liðum (2) og (3) er þátttaka sveitarfélagsins í atvinnuátaki Vinnumálastofnunar og ríkisstjórnar. Drögin gera ráð fyrir að hækkun þessara kostnaðarliða verði mætt með lækkun á áður áætluðu handbæru fé í árslok.

Sveitarstjórn samþykkti framlögð drög að viðauka við fjárhagsáætlun 2012, nr. 03/2012, eins og þau voru lögð fram.

 

5. Hraukbær, deiliskipulag vegna vélageymslu

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi vegna vélageymslu á landspildu í landi Hraukbæjar, sjá 6. lið þessarar dagskrár. Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að tillagan verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um að fyrirliggjandi tillaga að deiliskipulagi vegna vélageymslu í land Hraukbæjar verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Hanna Rósa Sveinsdóttir vék af fundi við afgreiðslu málsins.

 

6. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, 13. júní 2012

Fundargerðin er í fjórum liðum. Einn þeirra, um deiliskipulagstillögu í Hraukbæ, er til afgreiðslu á næsta dagskrárlið hér á undan. Aðrir liðir er um nokkur atriði í gerð aðalskipulags, sbr. minnispunkta skipulagsráðgjafa, dags. 11. júní 2012, um fjósbyggingu á Moldhaugum og um bréf Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar, dags. 31. maí 2012, um efnistöku, framkvæmdaleyfi og mat á umhverfisáhrifum. Ennfremur var á fundinum lögð fram tillaga að deiliskipulagi vegna fjósbyggingar á Moldhaugum.

Sveitarstjórn samþykkti að staðfesta afstöðu skipulags- og umhverfisnefndar til þeirra atriða sem fram koma á minnisblaði skipulagsráðgjafa aðalskipulags, dags. 11. júní 2012, að öðru leyti en því að mörk hafnarsvæðis á landi verði 50 m samsíða núverandi strandlínu, í stað 75 m, og að fyrirliggjandi tillaga að deiliskipulagi vegna fjósbyggingar á Moldhaugum verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

7. Fundargerð menningar- og tómstundanefndar, 18. júní 2012

Fundargerðin er í fjórum liðum. Í fyrsta lið hennar er gerð tillaga til sveitarstjórnar  um styrk til þorrablóts Hörgársveitar 2013 og í fjórða lið hennar er gerð tillaga til sveitarstjórnar um styrk til „Sæludags í sveitinni“ á yfirstandandi ári. Aðrir liðir fundargerðarinnar fjalla um bréf UMSE varðandi styrkveitingar til aðildarfélaga sem öðlast viðurkenninguna „Fyrirmyndarfélag ÍS͓ og um bréf UMSE varðandi samning um rekstrarstyrk til sambandsins.

Sveitarstjórn samþykkti tillögur menningar- og tómstundanefndar um að þorrablót Hörgársveitar 2013 verði styrkt af sveitarfélaginu um kr. 50.000 og að „Sæludagur í sveitinni“ á yfirstandandi ári verði styrktur um kr. 200.000. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

8. Berghóll II, niðurstaða útboðs

Gert var grein fyrir þeim tveimur tilboðum sem borist hafa í Berghól II. Frestur til að skila þeim rann út 23. maí 2012.

Sveitarstjórn samþykkti að hafna framkomnum tilboðum í Berghól II, en fresta afgreiðslu málsins að öðru leyti.

 

9. Tónlistarskóli Eyjafjarðar, fundargerðir, innritun og drög að reglugerð

Lagðar fram þrjár fundargerðir skólanefndar Tónlistarskóla Eyjafjarðar (8. febrúar, 21. mars og 18. apríl 2012), ennfremur yfirlit yfir innritun nemenda úr Hörgársveit skólaárið 2012-2013 og drög að nýrri reglugerð fyrir skólann. Í fundargerð skólanefndarinnar 18. apríl 2012 kemur fram að skólagjöld á næsta skólaári muni hækka um 7% frá yfirstandandi skólaári.

Sveitarstjórn samþykkti framlagðan lista yfir þá innritaða nemendur, sem eru á grunnskólaaldri. Þá samþykkti sveitarstjórnin fyrir sitt leyti fyrirliggjandi drög að reglugerð fyrir tónlistarskólann.

 

10. Sílastaðir, rekstrarleyfi gistingar í íbúðarhúsi og sumarhúsi

Lagt fram tölvubréf, dags. 24. maí 2012, frá Sýslumanninum á Akureyri, þar sem óskað er umsagnar um umsókn um rekstrarleyfi fyrir gistingu skv. gististaðaflokki I í íbúðarhúsi og sumarhúsi á Sílastöðum. Fram kom á fundinum að byggingarleyfi fyrir viðkomandi sumarhúsi hefur ekki verið gefið út.

Sveitarstjórn samþykkti að af hennar hálfu verði ekki gerð athugasemd við útgáfu  rekstrarleyfis í gististaðaflokki I í íbúðarhúsi á Sílastöðum og jafnframt að leggjast gegn veitingu rekstrarleyfis gistingar í sumarhúsi sem ekki hefur byggingarleyfi.

 

11. Umsóknir um hagagöngu búfjár

Lagðar fram fjórar umsóknir um leyfi fyrir hagagöngu búfjár annars staðar en í ógirtu heimalandi eða afrétt viðkomandi búfjáreiganda, sbr. 1. mgr. 7. gr. fjallskilasamþykktar fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð. Umsóknirnar eru frá Helga Steinssyni (um 400 kindur frá Garðshorni, Neðri-Rauðalæk og Djúpárbakka á Syðri-Bægisárdal), Stefáni Lárusi Karlssyni (allt að 260 kindur frá Ytri-Bægisá II á gangnasvæðið frá Bakka-merkjum að Gili í Öxnadal), Kristjáni Jónssyni (um 20 kindur frá Þríhyrningi II í Moldhaugaháls) og Ásrúnu Árnadóttur og Sigurði B. Gíslasyni (100 hross í Landafjall).

Sveitarstjórn samþykkti ofangreindar umsóknir Helga og Kristjáns um leyfi til að taka kindur í hagagöngu með gildistíma á þessu ári og jafnframt að ekki verði gerð athugasemd við hagagöngu kinda frá Ytri-Bægisá II í Öxnadal á þessu ári, en bendir á að umsókn um hagagöngu skal berast frá viðkomandi landeigenda. Ennfremur samþykkti sveitarstjórnin að heimila að hagagöngu 50 hrossa í landi Steinsstaða II, Efstalands og Efstalandskots á þessu ári. Þá samþykkti sveitarstjórnin að unnið verði að útfærslu ákvæða 7. gr. fjalllskilasamþykktar um leyfisveitingar fyrir hagagöngu búfjár.

Helgi Steinsson vék af fundi við afgreiðslu málsins.

 

12. Drög að samþykkt um búfjárhald

Lagt fram bréf, dags. 13. júní 2012, frá Ásrúnu Árnadóttur og Sigurði B. Gíslasyni, þar sem kemur fram það sjónarmið að í samþykkt um búfjárhald sé rétt að kveða á um hvenær heimilt sé að hefja upprekstur sauðfjár á vorin. Í bréfinu eru líka spurningar til sveitarstjórnarinnar um rétt manna til að ráðstafa eigin landi og um sleppingu utandeildarfjár á land sveitarfélagsins. Í framangreindu bréfi kemur ennfremur fram það sjónarmið að það fyrirkomulag á eyðingu skógarkerfils sem viðhaft hefur verið undanfarin ár hafi verið „dauðadæmt frá upphafi“.

Sveitarstjórn samþykkti að fyrirliggjandi drög að samþykkt um búfjárhald í sveitarfélaginu vrði send ráðuneyti til staðfestingar eins þau voru lögð á fundi sveitarstjórnar 16. maí 2012. Um fyrirkomulag á eyðingu skógarkerfils samþykkti sveitarstjórnin að vísa til kynningar á málinu í fréttabréfi sveitarfélagsins. Um ofangreindar spurningar samþykkti sveitarstjórnin að vísa til bókunar í 11. lið þessarar fundargerðar.

 

13. Leyfislausir gámar

Lagt fram yfirlit yfir leyfislausa gáma, sem eru á lóðum og jörðum í sveitarfélaginu.

Sveitarstjórn samþykkti að fela byggingarfulltrúa að gera viðkomandi grein fyrir því að staða gáma skal vera samræmi við byggingareglugerð.

 

14. Fundargerð byggingarnefndar, 17. apríl 2012

Lögð fram til kynningar fundargerð byggingarnefndar 17. apríl 2012. Hún er í sautján liðum. Einn þeirra varðar Hörgársveit, þ.e. umsókn um leyfi fyrir tveimur geymslugámum í Lönguhlíð.

 

15. Dagverðareyri, stækkun lóðar

Lagt fram bréf, dags. 13. júní 2012, frá Seselíu M. Gunnarsdóttir þar sem óskað er eftir umsögn um fyrirhugaða stækkun á lóð með landnúmer 173056 á Dagverðareyri, sbr. 13. gr. jarðalaga nr. 81/2004. Bréfin fylgdi afstöðumynd. Ennfremur fylgdi því afrit af viljayfirlýsingu um málið þar sem fram kemur samþykki landeiganda á stækkuninni.

Sveitarstjórn samþykkti að gera ekki fyrir sitt leyti athugasemd við hina fyrirhuguðu stækkun á lóð með landnúmerinu 173056 á Dagverðareyri.

 

16. Ágústa Baldvinsdóttir, styrkbeiðni

Lagt fram tölvubréf, dags. 15. júní 2012, frá Baldvin Ara Guðlaugssyni og Ingveldi Guðmundsdóttur, þar sem sótt er um styrk fyrir þátttöku Ágústu Baldvinsdóttur á Youth Cup 2012, sem er mót á vegum alþjóðlegra samtaka um íslenska hestinn. Mótið verður haldið í Þýskalandi í sumar.

Sveitarstjórn samþykkti að hafna erindinu.

 

17. Búnaðarsamband Eyjafjarðar, ályktun um förgun dýrahræa

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 16. maí 2012, frá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar þar sem fram kemur ályktun aðalfundar sambandsins um hvatningu til sveitarfélaga um að finna „varanlega lausn“ á förgun dýrahræa.

 

18. Trúnaðarmál

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 00:45.