Fundargerð - 20. febrúar 2008

Miðvikudaginn 20. febrúar 2008 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 24. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.

Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

  

1. Fundargerð leikskólanefndar, 24. jan. 2008

Fundargerðin er í 10 liðum. Þriðji liður hennar er um nýjar inntökureglur. Leikskólanefnd leggur til að inntökualdur barna verði lækkaður í 14 mánaða aldur barns.

Sveitarstjórn samþykkir tillöguna um inntökualdur og inntökureglurnar í heild, eins og þær koma fram í framlögðum drögum. Einnig var samþykkt tillaga nefndarinnar um að sumarlokun leikskólans verði frá 7. júlí til 5. ágúst. Aðrir liðir fundargerðarinnar, að undanskyldum 8. lið sem þarfnast frekari skoðunar, voru afgreiddir án athugasemda.

 

2. Fundargerð stjórnar Íþróttamiðstöðvarinnar Þelamörk, 5. febr. 2008

Fundargerðin er í einum lið. Fundargerðin er til efnislegrar afgreiðslu á sameiginlegum fundi sveitarstjórna Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar, eins og fram kemur í 4. lið hér að neðan.

 

3. Fundargerð framkvæmdanefndar Þelamerkurskóla, 5. febr. 2008

Fundargerðin er í átta liðum. Í öðrum lið hennar var rætt um bréf, dags. 7. jan. 2008, frá Legati Jóns Sigurðssonar, um viðræður um hugsanleg kaup Hörgárbyggðar/Arnarneshrepps á tilteknu landi og lóðum á Laugalandi

Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.

 

4. Fundargerð sameiginlegs fundar sveitarstjórna Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar, 6. febr. 2008

Fundargerðin er í sex liðum. Helst ber þar að nefna kynningu á háhraðaneti í dreifbýli, drög af samstarfssamningum um leikskólann á Álfasteini og Þelamerkurskóla, uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu og síðast en ekki síst um þá ákvörðun sveitarfélaganna að fara í gagngerðar endurbætur á sundlaugarmannvirkjum Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk á þessu ári. Samþykkt var að Íþróttamiðstöðin sæki um lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga, með ábyrgð sveitarfélaganna vegna fyrirhugaðra framkvæmda, til að fjármagna það sem er umfram fjárhagsáætlun ársins. Fundargerðin afgreidd án athugasemda.

 

5. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, 14. febr. 2008

Fundargerðin er í fjórum liðum. Í 1. lið hennar er lagt til að þéttbýli Hörgárbyggðar fái heitið Lónsbakki. Sveitarstjórn samþykkti að þéttbýli Hörgárbyggðar fái nafnið Lónsbakki. Núverandi götuheiti verða áfram óbreytt.

Í 2. lið hennar er lagt til að fyrirliggjandi drög að aðalskipulagstillögu verði kynnt og auglýst skv. 17. gr. skipulagslaga. Fram kom að ekki hefur borist umsögn Skipulagsstofnunar um hana og að ekki tókst að halda ráðgerðan fund í samráðshópi Hörgárbyggðar og Akureyrarbæjar um skipulagsmál á sveitarfélagsmörkunum fyrir þennan fund. Ákveðið var að bíða með formlega kynningu og auglýsingu á aðalskipulagstillögunni þangað til sjónarmið Skipulagsstofnunar og Akureyrarbæjar liggja skýr fyrir. Liður 3 er tekin til efnislegar afgreiðslu hér í næst á eftir. Lið 4 var frestað þar sem ekki liggja fyrir formleg leyfi þeirra aðila sem málið varða.

Fundargerðin rædd og afgreidd.

 

6. Moldhaugar, skáli í fornum stíl

Bréf, dags. 26. des. 2007, frá Skúla Þór Bragasyni, þar sem sótt er um leyfi fyrir staðsetningu á skála í fornum stíl í landi Moldhauga. Þá var lagt fram bréf, dags. 16. febr. 2008, frá Þresti Þorsteinssyni, þar sem hann gefur leyfi fyrir byggingunni fyrir sitt leyti.

Sveitarstjórn samþykkir erindið með fyrirvara um að lögð verði fram fyllri afstöðumynd en sú sem fylgdi erindinu og einnig að formlegt leyfi fyrir vegtengingu verður að liggja fyrir áður en málið verður endanlega afgreitt.

 

7. Þelamerkurskóli, samstarfssamningur um rekstur

Lögð fram drög að samningi Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps um rekstur Þelamerkurskóla. Drög eru samhljóða þeim sem dreift var á sameiginlegum fundi sveitarstjórna Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps þann 6. febr. 2008.

Sveitarstjóra og oddvita falið að ganga frá umræddum samningi.

 

8. Byggingarfulltrúaembætti, nýr samningur um rekstur

Lögð fram drög að samningi um rekstur byggingarfulltrúaembættis fyrir Arnarneshrepp, Eyjafjarðarsveit, Grímseyjarhrepp, Grýtubakkahrepp, Hörgárbyggð og Svalbarðsstrandarhrepp. Drögin eru til komin vegna breytinga sem framundan eru á samstarfsvettvangi sveitarfélaganna í Eyjafirði. Gert er ráð fyrir tveimur meginbreytingum á núverandi fyrirkomulagi: (1) í stað yfirstjórnar Héraðsnefndar er gert ráð fyrir framkvæmdastjórn sem í sitji sveitarstjórar/oddvitar viðkomandi sveitarfélaga og (2) gert er ráð fyrir að embættinu sé falið eftirlit með framkvæmdum sem eru háðar framkvæmdaleyfi.

Sveitarstjóra og oddvita falið að ganga frá samningum f.h. Hörgárbyggðar.

 

9. Skólaakstur, um fyrirkomulag útboðs

Lagt fram minnisblað, dags. 18. febr. 2008, um fyrirkomulag á útboði í skólaakstri.

Ákveðið er að bjóða út skólaaksturinn nú í vor þar sem ýmsar breytingar hafa orðið á fjölda nemenda og fl. frá því að síðast var boðin út skólaakstur. Stefnt er að því að útboðið verði auglýst í byrjun apríl.

 

10. Lækjarvellir 3 og 5, lóðaumsóknir

Bréf dags. 30. jan. 2008, frá Kötlu ehf., byggingafélagi, þar sem sótt er um úthlutun á lóðunum Lækjarvellir 3 og 5.

Sveitarstjórn samþykkir að veita Kötlu ehf. umbeðnar lóðir.

 

11. Hörgárdalsvegur, vegstæði nýs vegar

Bréf, dags. 18. febr. 2008, og uppdrættir, frá Vegagerðinni, þar sem kynntar eru tveir valkostir um vegarstæði nýs vegarkafla Hörgárdalsvegar.

Sveitarstjórn álítur að leið B sé betri kost frá vegtæknilegu sjónarmiði t.d. vegna meiri fjarlægðar frá  mannvirkjum og vegna fyrirhugaðar reiðleiðar með hinum nýja vegi, en telur jafnframt að samningar við landeigendur sé forsendur fyrir endanlegri ákvörðun.

 

12. Gásakaupstaður ses., styrktarsamningur

Bréf, dags. 23. jan. 2008, frá Gásakaupstað ses., þar sem óskað er eftir að gerður verði styrktarsamningur við stofnunina til næstu 5 ára.

Samþykkt var að leggja Gásakaupstað til kr. 500.000 árlega næstu 5 árin og var sveitarstjóra og oddvita falið að ganga frá styrktarsamningnum.

 

13. Viðhald ljósastaura, athugasemd við þjónustu

Bréf, dags. 25. jan. 2008, frá Valdísi Ingibjörgu Jónsdóttur, þar sem gerð er athugasemd við að bíða þurfi eftir viðhaldi á ljósastaurum. Búið er að gera við það sem ekki var í lagi. Einnig var lagt fram annað bréf frá bréfritara, dags. 18. febr. 2008, um hlutverk ljósastaurar og ábyrgð á þeim. Sveitarstjóra falið að útbúa reglur um viðhaldsferli á ljósastaurum og leggja fyrir næsta fund.  

 

14. Hálkuvarnir, athugasemd við fyrirkomulag

Tölvubréf, dags. 28. jan. 2008, frá Gísla G. Sveinssyni, þar sem gerð er athugasemd við framkvæmd hálkuvarna. Fram kom á fundinum að skv. upplýsingum frá verktakanum hefur salt verið ekki notað við hálkuvarnir í Hörgárbyggð og að hann muni ekki hafa frumkvæði að því.

 

15. Tónlistarnám framhaldsskólanema, fyrirspurn um greiðslur

Tölvubréf, dags. 13. febr. 2008, frá Ingileif Ástvaldsdóttur, þar sem spurst er fyrir um hvort Hörgárbyggð greiði hlut sveitarfélags í tónlistarnámi framhaldsskólanema. Sveitarstjóra falið að skoða málið.

 

16. Norðurlandsskógar, kynning

Bréf, dags. 23. jan. 2008, frá Norðurlandsskógum, þar sem boðið er upp á kynningu á stöðu verkefnisins.

Samþykkt var að fá kynningu fyrir sveitarfélagið nú í vor á opnum fundi t.d. í Hlíðarbæ.

 

17. Héraðsáætlanir Landgræðslunnar, kynning

Bréf, dags. 4. febr. 2008, frá Landgræðslu ríkisins, þar sem gerð er stutt grein fyrir verkefninu Héraðsáætlanir Landgræðslunnar.

Lagt fram til kynningar.

 

18. Málefni innflytjenda, stefnumótun

Bréf, dags. 5. febr. 2008, frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, þar sem gerð er grein fyrir stefnumótunarvinnu í málefnum innflytjenda. Sveitarfélögum gefst kostur á að koma sjónarmiðum sínum að í þeirri vinnu.

Lagt fram til kynningar.

 

19. Alþingi, frumvarp til laga um samgönguáætlun

Bréf, dags. 17. jan. 2008, frá samgöngunefnd Alþingis, þar sem óskað er eftir umsögn um frumvarp til laga um samgönguáætlun.

Lagt fram til kynningar.

 

20. Þelamerkurskóli, niðurstaða úttektar á sjálfsmatsaðferðum

Bréf, dags. 31. jan. 2008, frá menntamálaráðuneytinu um niðurstöðu úttektar á sjálfsmatsaðferðum Þelamerkurskóla haustið 2007. Þar kemur fram að framkvæmd sjálfsmats og sjálfsmatsaðferðir eru fullnægjandi að hluta. Einnig fylgir með samantekt  skýrslu ráðuneytis um þær úttektir á sjálfsmatsaðferðum grunnskóla sem fram fóru haustið 2007. Áætlun um úrbætur, þar sem það á við, þarf að berast ráðuneytinu eigi síðar en 2. apríl 2008.

Sveitarstjóra var falið að svara bréfinu í samráði við rekstraraðila og skólastjóra.

 

21. Fundargerðir stjórnar Eyþings, 19. des. 2007, 17. jan. og 15. febr. 2008

Fundargerðirnar lagðar fram tilkynningar.

 

22. Reiðvegamál  

Sveitarstjórn ákvað að skipa Þór Jónsteinsson til að vera ráðgjafi vegna væntanlegrar reiðleiðar með nýjum vegi í Hörgárdal.

 

Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið kl. 23:15