Fundargerð - 20. apríl 2009

Mánudaginn 20. apríl 2009 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 39. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.

Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1. Ársreikningar Hörgárbyggðar, Þelamerkurskóla og Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk fyrir árið 2008, fyrri umræða

Lagðir fram ársreikningar Hörgárbyggðar, Þelamerkurskóla og Íþróttamiðstöðvar, sem kjörnir skoðunarmenn hafa afgreitt.

Skv. ársreikningi Hörgárbyggðar urðu rekstrartekjur sveitarfélagsins 231,9 millj. kr. og rekstrargjöld 209,9 millj. kr. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 17,0 millj. kr. og stafar það fyrst og fremst af því að neikvæður gengismunur var 20,9 millj. kr. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins var því 4,9 millj. kr. Rekstrargjöld Þelamerkurskóla umfram tekjur voru 107,1 millj. kr. Rekstrartekjur Íþróttamiðstöðvarinnar námu 13,9 millj. kr. og rekstrargjöld námu 20,1 millj. kr.

Arnar Árnason, löggiltur endurskoðandi, fór ítarlega yfir ársreikningana og svaraði fyrirspurnum. Oddviti og varaoddviti Arnarneshrepps voru viðstaddir umræður um ársreikninga Þelamerkurskóla og Íþróttamiðstöðvar.

Ársreikningunum var síðan vísað til síðari umræðu.

 

2. Fundargerð framkvæmdanefndar Þelamerkurskóla, 25. mars 2009

Fundargerðin er í tveimur liðum.

Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.

 

3. Moldhaugar, deiliskipulag vegna skála í fornum stíl

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi vegna skála í fornum stíl í landi Moldhauga. Skipulags- og umhverfisnefnd, sjá 5. lið þessarar fundargerðar, leggur til við sveitarstjórn að tillagan verði auglýst í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Staðsetning skálans var samþykkt af sveitarstjórn 19. nóv. 2008, 6. mál. Þá lá ekki fyrir að nauðsynlegt væri að málið þyrfti í deiliskipulagsferli.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu skipulags- og umhverfisnefndar.

 

4. Neðri-Rauðilækur, deiliskipulag vegna íbúðarhúss

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi vegna íbúðarhúss í landi Neðri-Rauðalækjar. Skipulags- og umhverfisnefnd, sjá 5. lið þessarar fundagerðar, leggur til við sveitarstjórn að tillagan verði auglýst í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Staðsetning íbúðarhússins var samþykkt af sveitarstjórn 16. jan. 2008, 10. mál. Þá lá ekki fyrir að nauðsynlegt væri að málið þyrfti í deiliskipulagsferli.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu skipulags- og umhverfisnefndar.

 

5. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, 30. mars 2009

Fundargerðin er í fjórum liðum.

Tveir fyrri liðir hennar hafa verið afgreiddir fyrr á fundinum, sjá 3. og 4. lið þessarar fundargerðar. Í 3. lið hennar er gerð grein fyrir landsráðstefnu um Staðardagskrá 21 sem nýlega var haldin í Stykkishólmi og í 4. lið fundargerðarinnar er gerð tillaga til sveitarstjórnar um veitingu umhverfisviðurkenningar 2009.

Fundargerðin rædd og tveir síðari liðir hennar afgreiddir án athugasemda.

 

6. Fundargerð heilbrigðisnefndar, 1. apríl 2009

Fundargerðin er í tólf liðum. Þar kemur m.a. fram að einkavatnsveitan á Bakka hefur fengið endurnýjun á starfsleyfi.

Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.

 

7. Fundargerð byggingarnefndar, 7. apríl 2009

Fundargerðin er í ellefu liðum. Enginn þeirra varðar Hörgárbyggð.

Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.

 

8. Skógarhlíð 12, byggingarframkvæmdir

Lagt fram bréf, dags. 8. apríl 2009, frá Auðbirni Kristinssyni, þar sem hann gerir grein fyrir þeirri fyrirætlan sinni að koma húsinu að Skógarhlíð 12 í viðunandi horf fyrir lok maí nk. Skv. ákvörðun sveitarstjórnar 20. ágúst 2008 (9. mál) og 15. október 2009 (6. mál) var byggjendum hússins gert að koma því í a.m.k. fokhelt ástand í síðasta lagi 16. apríl 2009, að viðlögðum dagsektum, sbr. ákvæði skipulagsreglugerðar.

Sveitarstjórn samþykkti að veita Auðbirni frest til að framvísa fokheldisvottorði í síðasta lagi 2. júní 2009. Hafi fokheldisvottorð þá ekki borist verður hafin beiting dagsekta sbr. ákvörðun sveitarstjórnar frá 15. október 2008.

 

9. Fráveita Lónsbakka, hreinsivirki

Lagðir fram minnispunktar fundar sem haldinn var 14. apríl 2009 um lok framkvæmda við hreinsivirki fráveitu Lónsbakka.

Samþykkt að dreift verði upplýsingabæklingi um hreinsivirkið í þau hús sem tengt eru fráveitunni, auk þess sem hann verði aðgengilegur á heimasíðu sveitarfélagsins.

 

10. Kjörskrá vegna Alþingiskosninga 25. apríl 2009

Lögð fram kjörskrá fyrir Hörgárbyggð vegna Alþingiskosninga 25. apríl nk. Kjörskráin var yfirfarin og gerð á henni ein breyting vegna andláts. Að þeirri breytingu gerðri eru á kjörskránni 169 karlar og 136 konur, alls 305 manns.

 

11. Samþykkt um búfjárhald, tillaga

Lögð fram drög að samþykkt um búfjárhald í Hörgárbyggð, sem gera ráð fyrir að búfjárhald í þéttbýli í sveitarfélaginu verði óheimilt. Tilefni þessa máls eru kvartanir vegna alifuglahalds. Framlögð drög um búfjárhald í þéttbýli í Hörgárbyggð voru samþykkt eins og þau eru lögð fram.

 

12. Skjaldarvík, skipting lands vegna dælustöðvar

Bréf, dags. 16. apríl 2009, frá Akureyrarbæ þar sem óskað er eftir samþykki sveitarfélagsins fyrir skiptingu á landi Skjaldarvíkur svo hægt sé að stofna þar lóð fyrir dælustöð. Fyrirhuguð lóð er sunnan við afleggjarann að Skjaldarvík við aðveituæð hitaveitunnar frá Hjalteyri. Stærð hennar er áætluð 2.578 m2.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti framkomna beiðni.

 

13. Bændasamtök Íslands, fjallskilamál

Bréf, dags. 15. apríl 2009, frá Bændasamtökum Íslands þar sem gerð er grein fyrir skýrslu milliþinganefndar búnaðarþings um fjallskil.

Sveitarstjóra falið að vinna að málinu.

 

14. Óleyfisíbúðir, eftirlit

Bréf, dags. 16. mars 2009, frá Brunamálastofnun þar sem óskað er eftir upplýsingum um könnun á umfangi ólögmætrar búsetu í atvinnuhúsnæði í sveitarfélaginu.

Lagt fram til kynningar.

 

15. Steinsstaðir, afmörkun lóðar fyrir íbúðarhús

Lögð fram afstöðumynd sem sýnir fyrirhugaða afmörkun lóðar fyrir íbúðarhús á Steinsstöðum.

Afmörkun lóðarinnar var samþykkt.

 

16. Velferðarvaktin, vinnumarkaðsaðgerðir

Bréf, dags. 8. apríl 2009, frá Velferðarvakt félags- og tryggingamálaráðuneytisins þar sem vakin er athygli á ákvæði í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar  um vinnumarkaðsaðgerðir. Þar eru sveitarfélög hvött til að nýta sér vinnumarkaðsaðgerðir Vinnumálastofnunar og að ráðast í sérstök átaksverkefni til að draga úr atvinnuleysi.

Lagt fram til kynningar.

 

17. Aðalskipulag Dalvíkurbyggðar

Bréf, dags. 3. apríl 2009, frá Teiknistofu arkitekta, þar sem vakin er athygli á auglýsingu um tillögu að aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008-2020. Á fundi sveitarstjórnar 19. nóv. 2008 (13. mál) var þetta mál til umræðu. Þá var ekki talin ástæða til að gera athugsemdir við aðalskipulagstillöguna.

Lagt fram til kynningar.

 

18. Fundargerð héraðsráðs, 11. mars 2009

Fundargerðin er í fimm liðum. Meginefni hennar er niðurlagning Héraðsnefndar Eyjafjarðar.

Lögð fram til kynningar.

 

19. Fundargerð stjórnar Eyþings, 16. mars 2009

Fundargerðin er í ellefu liðum.

Lögð fram til kynningar.

 

20. Trúnaðarmál

 

21. Minjasafnið á Akureyri, aðalfundarboð

Bréf, dags. 16. apríl 2009, frá Minjasafninu á Akureyri, þar sem boðað er til aðalfundar Minjasafnsins 30. apríl 2009.

Samþykkt var að Jóhanna María Oddsdóttir færi með umboð Hörgárbyggðar á aðalfundinum.

 

22. Aflið, samtök gegn heimilis- og kynferðisofbeldi á Norðurlandi, styrkbeiðni

Bréf, dags. 14. apríl 2009, frá Aflinu, samtökum gegn heimilis- og kynferðisofbeldi á Norðurlandi.

Erindinu var hafnað.

 

23. Lausaganga hunda

Tölvubréf, dags. 20. apríl 2009, frá Ingvari Stefánssyni, þar sem kvartað er yfir lausagöngu hunda.

Sveitarstjórn beinir þeim tilmælum til hundaeigenda í sveitarfélaginu að virða reglugerð sveitarfélagsins um hundahald.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 23:38