Fundargerð - 19. september 2012

Miðvikudaginn 19.  sept. 2012 kl. 20.00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

Fundarmenn: Axel Grettisson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Helgi Þór Helgason og Sunna Hlín Jóhannesdóttir.

Fundarritari: Bjarni Kristjánsson

 

Þetta gerðist:

 

1. Fundargerð menningar- og tómstundanefndar, 11. fundur, 3. sept. 2012.

Fundargerðin er í 8 liðum. Þar er kynnt erindi frá Minjasafninu á Akureyri þar sem óskað er samstarfs við Hörgársveit um uppsetningu sýningar með yfirskriftinni „Hvar á ég heima“. Nefndin samþykkti að leita til ákveðinna aðila um að koma að undirbúningi sýningarinnar. Kynntur var undirbúningur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2013, erindi frá Gásakaupstað um framlengingu á styrktarsamningi. Þá er menningar- og atvinnumálafulltrúa er falið að skila inn stuttri greinargerð um framkvæmd  „Sæludaga í sveitinni“. Honum er einnig falið að gera tillögu að svörum við spurningum í bréfi frá menningarráði Eyþings sem snerta gerð sameiginlegrar stefnumótunar í menningarmálum fyrir sveitarfélög á starfssvæði Eyþings. Þá er fjallað í 6. lið fundargerðarinnar um málefni Hrauns í Öxnadal ehf.  Fyrir lá erindi frá Íslandsbanka hf. þar sem lögð er fram tillaga að lausn á fjárhagsvanda félagsins og að fulltrúi sveitarfélagsins taki sæti í stjórn félagsins f.h. bankans.  Í 7. lið er fjallað um rannsóknir og skráningu eyðibýla á Íslandi sbr. bréf frá 20. júní 2012 og ákveðið er að haldið verði íbúaþing um menningar- og tómstundamál hinn 3. okt. n. k.

Sveitarstjórn samþykkir að vísa styrktarsamningi við Gásakaupstað ses. til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2013 og samþykkir einnig að ganga til samninga við Íslandsbanka hf. um málefni Hrauns í Öxnadal ehf. á grundvelli erindis bankans frá 3. sept. 2012. Fulltrúi sveitarfélagsins á hluthafafundi félagsins sem haldinn verður 22. sept. n.k. verður Hanna Rósa Sveinsdóttir, oddviti.

Annað í fundargerðinni gefur ekki tilefni til ályktana.

 

2. Fundargerð fjallskilanefndar, 9. fundur, 23. ág. 2012

Fundargerðin er í 5 liðum þar sem fjallað er um tímasetningu gangna, álagningu fjallskila o. fl.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktana af hálfu sveitarstjórnar.

 

3. Fundargerð félags- og jafnréttisnefndar, 6. fundur, 11. sept. 2012

Fundargerðin er í tveimur liðum þar sem annars vegar er kynnt boðsbréf á landsfund jafnréttisnefnda sem haldinn var á Akranesi 14. sept. sl. og hins vegar um beiðni Jafnréttisstofu um greinargerð um stöðu jafnréttismála í sveitarfélaginu.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktana.

 

4. Fundargerð fræðslunefndar, 9. fundur, 13. sept. 2012

Fundargerðin er í 9 liðum þar sem fjallað er með almennum hætti um starf Álfasteins og Þelamerkurskóla á haustönninni. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að gjaldskrá í mötuneyti Þelamerkurskóla verði óbreytt til áramóta. Breytingar á gjaldskránni  miðist svo framvegis við upphaf nýs fjárhagsárs. Jafnframt verði  mötuneytisgjaldið innheimt mánaðarlega á starfstíma skólans. Þá leggur nefndin til að fram fari hið fyrsta  tæknileg úttekt á ástandi húsnæðis Þelamerkurskóla og viðhaldsþörf þess.   

Sveitarstjórn samþykkir tillögur nefndarinnar varðandi mötuneytið og mun kanna kostnað við úttekt á húsnæði Þelamerkurskóla. Annað í fundargerðinni gefur ekki tilefni til  ályktana.

 

5. Fundargerð byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis, 85. fundur, 4. sept. 2012

Fundargerðin er í 16 liðum og 5 þeirra varða Hörgársveit, þ. e. frá  B. Jensen ehf. um leyfi til stækkunar á sláturhúsi, Jónasi Þór Jónssyni,  Bitrugerði, um leyfi fyrri tveimur geymslu-gámum, Hlíð ehf. um leyfi til byggingar vélageymslu að Hraukbæ, Þresti Þorsteinssyni, Moldhaugum, um leyfi til fósbyggingar, og Jóni Gunnari Snorrasyni og Ásdísi Halldóru Hreinsdóttur,  Akureyri, um leyfi fyrir sumarhúsi á lóð úr landi Gloppu.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við þessar afgreiðslur nefndarinnar.

 

6. Fundargerð stjórnar Hafnarsamlags Norðurlands, 172. fundur, 27. ágúst 2012

Fundargerðin, sem er í 7 liðum,  er lögð fram til kynningar og gefur ekki tilefni til ályktana.

 

7. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, 799. fundur, 7. sept. 2012

Fundargerðin, sem er í 40 liðum, er lögð fram til kynningar og gefur ekki tilefni til ályktana.

 

8. Erindi frá Hreini H. Jósavinssyni, Auðnum 1, um afmörkun lóðar fyrir frístundahús úr landi Gloppu, dags. 31. ágúst 2012

Í erindinu er óskað samþykkis sveitarstjórnar fyrir afmörkun 18 þús. ferm.  lóðar úr landi Gloppu og að landspildan verði leyst úr landbúnaðarnotkun. Innan þeirrar afmörkunar er áður afmörkuð ca. þúsund ferm. frístundalóð. Með erindinu fylgir uppdráttur frá Búgarði dags. 9. júní 2012 sem sýnir staðsetningu og afmörkun þeirrar lóðar sem erindið fjallar um.

Sveitarstjórn samþykkir erindið.

 

9. Erindi frá Rúnari Gústafssyni, Bogasíðu 8, Akureyri, um leyfi til að byggja hákarlahjall á Hjalteyri.

Rúnar sækir um leyfi til að byggja hjallann neðan núverandi fiskhjalla. Hann gerir ráð fyrir einum hjalli til að byrja með en að þeir gætu orðið þrír þegar frá líður. Fyrsti hjallurinn verði ca. 4 x 5 m og í útliti eins og hjallur sem sýndur er á ljósmynd sem erindinu fylgir.  Ónákvæm staðsetning er sýnd á loftmynd.

Sveitarstjórn getur fyrir sitt leyti samþykkt byggingu eins hjalls með stöðuleyfi til tveggja ára enda leggi umsækjandi inn yfirlitsmynd sem sýni nákvæma staðsetningu og að stjórn Hjalteyrar ehf. samþykki framkvæmdina.  Erindinu verði að fengnu samþykki stjórnar Hjalteyrar ehf. vísað til endanlegrar afgreiðslu bygginganefndar.

 

10. Erindi frá Guðnýju Elise Jóhannsdóttur, Eiðsvallagötu 4, Akureyri, um leyfi til að taka til geymsla þrjá 20 feta gáma á lóð sína úr landi Eyrarvíkur.

Erindinu er vísað til afgreiðslu byggingarnefndar.

 

11.  Efnistaka og umhverfismat, Björg II og Skútaberg

Unnið er að umhverfismati sbr. meðfylgjandi minnisblöð sem jafnframt er yfirlýsing framkvæmdaaðilanna um að matinu verði hraðað eins og  frekast er kostur. 

Sveitarstjórn beinir þeirri áskorun til málsaðila að þeir standi við þau fyrirheit með það að markmiði að ljúka ferlinu eigi síðar en í janúar 2013.   

 

12. Greið leið ehf. erindi dags. 31. ág. 2012, hlutafjáraukning

Stjórn félagsins hefur ákveðið að fullnýta heimild til að hækka hlutafé félagsins um kr. 100 millj. að nafnverði. Hlutur Hörgarsveitar í þeirri hækkun er kr. 914.911,00.

Sveitarstjórn samþykkir að taka þátt í hlutafjáraukningunni.

 

13. Málefni GáF ehf. (Grímsstaðir á Fjöllum)

Stjórn GáF ehf. hefur fengið heimild til að auka hlutafé í félaginu um kr. 450 þús. og er forkaupsréttur hluthafa að þessum nýju hlutum felldur niður.

Sveitarstjórn hefur samþykkt þá tilhögun. Umfjöllun um önnur málefni er varða GáF ehf. er frestað.

 

14.  Erindi Brynjólfs Snorrasonar mótt. 30. júlí 2012

Brynjólfur telur skólabyggingarnar á Laugalandi mjög rafmengaðar og spyrst fyrir um það hvort og hvernig sveitarstjórn hugsi sér að bregðast við.

Sveitarstjórn samþykkir að óska eftir greinargerð frá sveitarstjóra um þær lagfæringar sem þegar hafa farið fram í þeim tilgangi að draga úr rafmengun í skólabyggingunum og kynna Brynjólfi niðurstöðurnar.

 

15.  Erindi Icelandic Times Extra dags. 11. sept. 2012

Umsókn um styrk til útgáfu á bók sem dreift verður um allt land og inniheldur ýmiss konar landshlutabundnar upplýsingar sem gagnast eiga ferðamönnum.

Sveitarstjórn samþykkir að hafna umsókninni.

 

16.   Erindi OpenStreetMap dags. 6. sept. 2012

Óskað er samstarfs við sveitarfélög og fleiri aðila um söfnun gagna sem nýtast við gerð rafrænna grunnkorta með ýmiss konar upplýsingum. Verkefnið snýst um að kortleggja allan heiminn og veita frjálsan aðgang að kortagögnunum án endurgjalds.

Sveitarstjórn samþykkir að hafna erindinu.

 

17. Ungmannasamband Eyjafjarðar, erindi dags. 5. sept. 2012, umsókn um rekstrarstyrk á árinu 2013.

Sveitarstjórn samþykkir að vísa erindinu til afgreiðslu við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2013.

 

18. Fjárlaganefnd Alþingis, erindi dags. 3. sept. 2012

Sveitarstjórnarfulltrúum er boðið til fundar við nefndina vegna fjárlagafrumvarps 2013 á fyrirfram ákveðnum tíma (8. 10. 12. eða 15. okt. nk.).

Lagt fram til kynningar.

 

19. Greinargerð um starfsemi vinnuskólans sl. sumar

Greinargerðin er tekin saman af Jóni Þór Brynjarssyni og er yfirlit yfir þau verkefni sem  starfsmenn skólans tóku að sér. Verkefnin eru fjölþætt s.s. viðhaldsvinna á fjórum fjárréttum, illgresiseyðing og ýmiss konar minni viðhaldsverkefni á lóðum og lendum sveitarfélagsins, byggingum o.fl.

Sveitarstjórn lýsir yfir ánægju sinni með starfsemi skólans.

 

20. Fráveitumál á Hjalteyri

Fráveita frá tveimur  húsum sem standa niður á „Kambinum“ er í ólagi.  Á flóði er innstreymi í lögnunum sem veldur því að ekkert fer frá húsunum. Fyrir fundinum liggur greinargerð frá Jóni Þór Brynjarssyni þar sem hann lýsir vandanum  og gerir grein fyrir óformlegum tillögum   verkfræðistofunnar Verkís hf. til úrlausnar.

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að krefja Verkís hf. um formlega tillögu til lausnar á þessum vanda.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 23.30.