Fundargerð - 19. maí 2004

Miðvikudaginn 19. maí 2004 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 52. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Ásrún Árnadóttir, ásamt sveitarstjóra Helgu A. Erlingsdóttur. 

 

1  Fundargerðir: 

a) Leikskólanefndar frá 22. mars og 11. maí 2004.

3. liður í fundargerð frá 22. mars var tekinn fyrir sérstaklega.  Var hann samþykktur einróma þ.e. að þegar börn eru ekki sótt á réttum tíma þá er heimilt að innheimta kr. 300 þegar tilkynnt er um seinkun, en kr. 600 ef barn er ekki sótt á réttum tíma og ekki látið vita um seinkun. Fundargerðin að öðru leyti afgreidd án athugasemda. Fundargerð frá 11. maí.  Samþykkt var að keypt væri ný uppþvottavél og gerðar þær breytingar sem þarf. vegna þess. Fundargerðin síðan samþykkt án athugasemda.

b) Skólanefndar frá 10. maí 2004.

Sigurbjörg fór yfir helstu þætti fundargerðarinnar. Þar kemur fram að Kolbrún Árnadóttir matráður hefur sagt upp störfum.  Henni eru þökkuð vel unnin störf við Þelamerkurskóla. Þar sem skólinn er að leggja af stað með þróunarverkefni sem miðar að því að auka hollustu, útivist og hreyfingu verður tekið mið af því við ráðningu nýs matráðs.

Fram kom í umræðunni að það stefni í að íbúðarhúsnæði vanti fyrir nýja kennara í ÞMS. Fundargerðin var síðan afgreidd án athugasemda.

c) Byggingarnefndar frá 20. apríl 2004.

Fjögur erindi komu úr Hörgárbyggð og voru þau staðfest samhljóða. Þ.e. Erindi Gísla G. Sveinssonar sem er að byggja í Skógarhlíð 16. Erindi frá Byggingarfélaginu Kötlu vegna byggingar tveggja einbýlishúsa við Birkihlíð. Erindi frá Davíð Gíslasyni vegna breytinga á Berghóli og leyfi fyrir breytingum á íbúðarhúsinu á Hálsi í Öxnadal vegna veitingareksturs. Fundargerðin var að öðru leyti lögð fram til kynningar.

d) Frá Héraðsnefnd.  Fundargerðir héraðsráðs frá 24. mars og 28. apríl – ársreikningur héraðsnefndar 2003, fundargerðir Sorpeyðingar Eyjafjarðar b.s. frá 17. des. 2003,  18. febrúar og 15. mars 2004 og fundargerð stjórnar Minjasafnsins frá 4. febrúar 2004. Lagt fram til kynningar.

e) Fundargerð stjórnar Hafnarsamlags Norðurlands frá 19. apríl 2004.

Lögð fram til kynningar.

 

2. Erindi frá Vegagerðinni þar sem óskað er eftir framkvæmdaleyfi vegna bygginguar brúar yfir Hörgá. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkti samhljóða að veita Vegagerðinni framkvæmdaleyfið.

 

3. Tillaga að samstarfssamningi milli sveitarfélaganna um Þelamerkurskóla.

Farið var yfir samninginn og þau atriði rædd sem þarfnast nánari endurskoðunar sveitarstjóra falið að setja inn í samninginn þær athugasemdir sem óskað var eftir að yrðu skoðaðar sérstaklega. Stefnt skal að sameiginlegum fundi með Arnarneshreppi sem fyrst og fá Þröst Sigurðsson frá ráðagjafafyrirtækinu Parx til að koma á þann fund og reyna þá að klára samninginn.

     

4. Fasteignamat.  Breytingar á fasteignamati frá Fasteignamati ríkisins og afslættir.

Komið hefur í ljós að fasteignamat á nokkrum eignum í Hörgárbyggð hafa verið endurmetnar. Samþykkt að gera breytingar á álagningu samkvæmt endurmatinu.  Afslættir til eftirlaunaþega á fasteignagjöldum eru mun minni en undanfarandi ár. Reglur um afslætti á fasteignagjöldum verða endurskoðaðar í desember n.k.

 

5. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, reglur. Lagt fram til kynningar bréf frá félags­málaráðuneytinu dags. 15. apríl 2004. ásamt

reglum og skýringum um framlög úr sjóðnum vegna sameiningar sveitarfélaga.

 

6. Erindi frá Gásafélaginu, dags. 23. apríl 2004 – undirbúningur framkvæmda.

Þar er óskað eftir að sveitarstjórn Hörgárbyggðar tilnefni fulltrúa í starfshópi Gásafélagsins. Sveitarstjóra falið að vera fulltrúi Hörgárbyggðar í starfshópnum og Guðnýju Fjólu til vara.

 

7. Stofnskrá Minjasafnsins – tillögur að starfsáætlun ársins 2005. Lagt fram til kynningar.

 

8. Hraun í Öxnadal – starfsáætlun 2004, o.fl.  Aðalfundur Hrauns ehf. 24. maí 2004. Útihátíð verður haldin að Hrauni í Öxnadal 12. eða 13. júní nk. með yfirskriftinni „Fífilbrekka, gróin grund.”  Samþykkt að kaffi og kleinur verði í boði Hörgárbyggðar. Í ráðgjafahópnum eru úr Hörgárbyggð: Anna Lilja Sigurðardóttir og Helga A. Erlingsdóttir.

 

9. Bréf frá Arnarneshreppi dags. 30.04.2004 v/ skólastjórastöðu við ÞMS.

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar tók bréfið fyrir. Sveitarstjórn vill taka fram að hún hefur ekki haft neitt út á störf skólastjóra að setja sem hamla endurráðningu hans. Engar formlegar kvartanir um störf skólastjóra hafa borist sveitarstjórn heldur þvert á móti þá hafa undirskriftir kennara og annars starfsfólks sýnt að skólastjóri nýtur almennings stuðnings sinna starfsmanna. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar leggur mikla áherslu á að gengið verði frá samstarfssamningi milli sveitarfélaganna fyrir 1. júní 2004. Lögð er mikil áhersla á að ráðningarsamningur og starfskjarasamningur við skólastjóra verði frágenginn og undirritaður fyrir 1. júní 2004.

 

10. Samningar um staðarhald ÞMS o.fl.

Drög að ráðningarsamningi við skólastjóra voru lögð fram til skoðunar. Sveitarstjórn sammál um  að breyta þurfi þriðju málsgrein að þar komi “Ferðakostnaður skólastjóra í þágu skólans, utan héraðs, verði greiddur sérstaklega”. Auk þess að í samningi um staðarhald ÞMS komi inn að samningurinn verði endurskoðaður fyrir 1. apríl 2005.

 

11. Hunda- og kattahald – drög.

Ákveðið var að setja  drögin í fréttabréfið og óska eftir athugasemdum við þau fyrir 1. ágúst nk. ef einhverjar eru.

 

12. Veganefnd, fundargerð frá 3. maí 2004.

Lögð fram til kynningar.

 

13. Framkvæmdanefnd búvörusamninga, bréf mótt. 6. maí 2004.  Lagt fram til kynningar.

 

14. Bréf frá skattstjóra frá 20. apríl 2004.  Þar sem vakin er athygli á ábyrgð launagreinenda með vísan til 22. greinar laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.  Lagt fram til kynningar.

 

15. Nefndarskipan – leikskóli, húsnefnd, kjörstjórn.

Sigríður K. Sverrisdóttir hefur óskað eftir lausn úr leikskólanefnd vegna anna. Borghildur Freysdóttir er fyrsti varamaður og hefur fallist á að taka sæti sem aðalmaður í leikskólanefnd.

Haukur Steindórsson kemur inn í kjörstjórn fyrir Sverri Haraldsson. Í húsnefnd var skipaður Logi Geir Harðarsson.  Sverrir Haraldsson, sat í báðum þessum nefndum en er fluttur úr sveitarfélaginu.  Honum eru þökkuð vel unnin störf,  en hann á stóran þátt í þeim endurbótum sem gerðar hafa verið á félagsheimlinum.

 

16. Gatan – götuheiti – framkvæmdir.

Samþykkt var að gatan við Skógarhlíð sem hefur haft vinnuheitið Lónshlíð heiti eftirleiðis Birkihlíð. Sveitarstjóra falið að kalla skipulagsnefndina saman til að skoða byggingamálin við Birkihlíð og fl.

 

17. OneCommunity – sérhæfð kerfi fyrir sveitarfélög og stofnanir, kynning.

 

18. Skýrsla, samantekt um úttektir á sjálfsmatsaðferðum,  menntamálaráðuneytið, 7. maí 2004.  Lagt fram til kynningar.

 

19. Fulltrúaráðsfundur Sambands ísl. sveitarfélaga, 23. apríl.  Ályktun – fylgir með. 

Ársskýrsla sambandsins og Lánasjóðsins lagðar fram til kynningar.

 

20. Erindi frá félagsmálaráðuneyti og Jafnréttisstofu, dags. 4. maí 2004.

Þar kemur fram að fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa 25 starfsmenn eða fleiri skuli setja sér jafnréttisáætlun eða kveða sérstaklega á um jafnrétti karla og kvenna í starfsmannastefnu sinni. Lagt fram til kynningar.

 

21. Refa- og minkaveiðar  í Hörgárbyggð.  Bréf frá UST dags. 25.04.04.  Þar kemur fram að Umhverfisráðuneytið hefur nú auglýst viðmiðunartaxta launa minkaveiðimanna og verðlauna fyrir löglega unna minka. Ríkisjóður endurgreiðir allt að 50% útlagðs kostnaðar og verðlauna svo fremi að greiðslur fari ekki fram úr eftirfarandi viðmiðunartölum þ.e. minkar kr. 3.000, tímakaup minkabana jafnaðarkaup kr. 650 pr/klst og aksturstaxtar kr. 50 kr. /km. Vegna refa greiðir ríkisjóður kr. 7.000 fyrir fullorðin ref og 1.600 fyrir yrðling. Hannes Haraldsson og Helgi Jóhannesson hafa tekið að sér minkaveiðarnar árið 2004. Þeir vilja fá kr. 6.000 á mink og 3.000 fyrir hverja fjóra hvolpa úr læðu sem unnin er á tímabilinu 1. maí til 10. júní. En þá fá þeir ekki tímakaup né akstur.  Björn Stefánsson og Þór Jónsteinsson eru tilbúnir til að sjá um tófuveiðar á sama gjaldi og á sl. ári, á sama svæði og áður. Hjörleifur Halldórsson sér um Öxnadalinn.  Sveitarstjórn er þessu samþykk.

 

22. Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs, bréf frá UST, bréf dags. 28. apríl 2004. Lagt fram til kynningar.

 

23. Bréf frá Vinnueftirlitinu um áhættumat, dags. 9. maí 2004.  Vegna vinnu barna og unglinga t.d. í vinnuskóla og er vakin athygli á reglugerð um vinnu barna og unglinga nr. 426/1999 en hún nær yfir vinnu barna undir 18 ára aldri. Skv. 5. gr. reglugerðarinnar er atvinnurekanda skylt að gera áhættumat og viðeigandi ráðstafanir byggðar á niðurstöðum matsins til að tryggja öryggi og heilsu ungmenna. Þetta skal gert áður en þau hefja störf og í hvert sinn sem verulegar breytingar eru gerðar á starfskilyrðum þeirra.

 

24. Erindi frá Hróknum, ódags., mótt. 6. maí 2004. Þar sem formaður Hróksins Hrafn Jökulsson óskar eftir áheitum vegna maraþonsskámóts Hróksins. Erindinu var hafnað.

 

25. ÍSÍ- ályktanir, tengdar málefnum sveitarstjórna frá 67. íþróttaþingi ÍSÍ, 24. apríl 2004.

Þar sem sveitarstjórnir eru hvattar til að auka framlög til reksturs íþrótta- og ungmennafélaga. Lagt fram til kynningar.

 

26. Íslenskar fasteignir ehf. bréf frá 6. maí 2004.  Býður upp á sérhæfðar lausnir fyrir sveitarfélög sem hafa hug á að selja og endurleigja húsnæði sitt. Lagt fram til kynningar.

    

27. Lýðheilsustöð, erindi dags. 5. maí 2004. Þar sem verið er að kynna verkefnið um bætt matarræði og hreyfingu barna og unglinga.

Einnig kemur fram að frá stofnun Lýðheilsustöðvar hafa áfengis- og vímuefnaráð, manneldisráð, slysavarnarráð og tóbaksráð tilheyrt stöðinni en frá áramótum hafa bæst við Árvekni og tannverndarsjóður. Anna Elísabet Ólafsdóttir er forstjóri stöðvarinnar. Lýðheilsa snýr að því að bæta heilsu og lífsgæði þjóða eða þjóðfélagshópa. Ákveðið að vísa erindinu til leikskóla- og skólanefndar.

 

28. Stjórnsýsla og upplýsingar.

Rannsóknarreglan, jafnræðisreglan, meðalhófsreglan og andmælaréttur.  Lagt fram til kynningar.

 

29. Trúnaðarmál.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 00:25.