Fundargerð - 19. janúar 2005

Miðvikudaginn 19. janúar 2005 kl. 19:30 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 62. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Sturla Eiðsson, ásamt sveitarstjóra Helgu A. Erlingsdóttur.  Engir áheyrnarfulltrúar mættu.

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1. Brynjólfur Snorrason

Brynjólfur mætti á fundinn og fór yfir það ferli sem er í gangi í sambandi við þróunarverkefni í nýsköpun sem hann er aðili að.

 

2. Héraðsnefnd Eyjafjarðar, samningur um þjónustu byggingarfulltrúa.  Lagður fram samningur um að skipulags og byggingafulltrúa Þingeyinga er heimilt að fela byggingafulltrúa Eyjafjarðarsvæðis verkefni sín við byggingaeftirlit vestan Stórutjarnarskóla í Þingeyjarsveit, gegn greiðslu til Héraðsnefndar Eyjafjarðar sem nemur kr. 5.690 fyrir hverja unna klukkustund. Samningurinn er til eins árs og gerir sveitarstjórn Hörgárbyggðar ekki athugasemdir við samninginn.

 

3. Samstarfssamningur um brunavarnir.

Lagður fram samstarfs-samningur milli Akureyrarbæjar annarsvegar og Eyjafjarðarsveitar, Svalbarðsstrandarhrepps, Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar hinsvegar.  Kostnaður Hörgárbyggðar vegna brunavarna, skv. samningnum á árinu 2004 er kr. 1.604.579.  Sveitarstjóra falið að undirrita samninginn fyrir hönd Hörgárbyggðar.

 

4. Ársskýrsla Náttúruverndarnefndar Eyjafjarðar.

Lögð fram til kynningar.

 

5. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra

a) Fjárhagsáætlun 2005- kostnaðarskipting, áætlaður kostnaður Hörgárbyggðar á árinu 2005 í rekstri eftirlitsins er kr. 732.324, réttur á endurgreiðslur frá fyrirtækum er upp á 539.345 kr.

b)Úttekst á vatnsveitum. Eftirtalin lögbýli hafa fengið úttekt á vatnsveitu á árinu 2004: Auðbrekka, Barká, Brakandi, Búðarnes, Hlaðir, Langahlíð, Neðri Vindheimar, Steinstaðir II, Stóri-Dunhagi, Syðri-Bægisá, Tréstaðir, Þríhyrningur, Þverá og Öxnhóll. Innheimt hefur verið fyrir úttektirnar og eins og kveðið er á um er eitt tímagjald á kr. 6.180 og eitt eftirlitsgjald 3. flokks kr. 15.450 þ.e. alls kr. 21.630 á hvern bæ fyrir sig.

 

6. Bréf sem borist hafa:

a)  Félagsmálaráðuneytið, dags. 11. janúar 2005, varðandi framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.  Þar kemur fram að endanlegt útgjaldajöfnunarframlag fyrir Hörgárbyggð er kr. 12.988.220, tekjujöfnunarframlag kr. 2.135.490 og framlag vegna fasteignaskatta er kr. 9.525.108 og aukaútgjaldajöfnunarframlag er kr. 577.254.

b)  Samband ísl. sveitarfélaga, dags. 14. janúar 2005,  skil á upplýsingum í Upplýsingaveitu sveitarfélaga. Þar er lögð áhersla á að sveitarfélög leggi fram fjárhagsáætlun sína fyrir árið 2005 eins fljótt og auðið er. Lagt fram til kynningar.

c)  Búnaðarfélag Íslands.  Bréf um Landsmarkaskrá. Kemur fram að eintakið af skránni kostar kr. 6.900.  Samþykkt að kaupa eitt eintak af skránni.

 

7. Gjaldskrá leikskólans og gjaldtaka af annarri þjónustu, s.s. vinnuskóla o.fl.

Samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar Hörgárbyggðar fylgir gjaldskrá leikskólans Álfasteins gjaldskrá Akureyrarbæjar. Gjaldskráin hækkaði því um áramótin 2004-2005 um 2,5%.   Vistunartími kr. 2.846.  Hádegismatur kr. 2.563.  Hressing kr. 1.281.

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar ákvað að vísa til leikskólanefndar að endurskoða gjaldskrána í heild sinni fyrir 1. maí 2005 og mun gjaldskráin ekki breytast fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni.

Gjaldskrá fyrir vinnuskólann verður ákveðin þegar ljóst verður með hvaða hætti vinnuskólinn verður.

 

8. Innheimtureglur Hörgárbyggðar og innheimtuþjónusta er eftirfarandi:

Farið yfir innheimtureglur sveitarfélagsins.  Lagt er til að reglunum verði breytt þannig að þær verði enn afmarkaðri og skýrari. Sveitarstjóra falið í samvinnu við Sigurbjörgu að fullvinna innheimtureglurnar og skoða fyrirliggjandi tilboð um samning við Intrum innheimtuþjónustu og leggja fyrir næsta sveitarstjórnarfund

 

9. Erindi frá Kaupfélagi Eyfirðinga varðandi hlutafé til Norðurvegar ehf. 

Í bréfi frá KEA, dags. 13. janúar s.l. kemur fram að þann 4. febrúar n.k. verður stofnað félagið Norðurvegur ehf, sem mun vinna að því lagður verði nýr vegur milli Akureyrar og Reykjavíkur eða öllu heldur á  milli Norðurlands og Suðvesturhornsins um Stórasand.  Leitað er eftir hlutafé hjá fyrirtækjum, sveitarfélögum og stofnunum.  Sveitarstjórn Hörgárbyggðar ákvað að leggja ekki fram hlutafé að svo komnu máli.

 

10. Samningar og erindisbréf.

Sveitarstjóra falið að staðfesta formlega dvalarsamningi Leikskólans á Álfasteini. Erindisbréf Skipulagsnefndar og Félagsmálanefndar voru samþykkt með áorðnum breytingum.

Samningur um Þelamerkurskóla.  Lögð fram drög til kynningar að samningi  milli Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar um rekstur Þelamerkurskóla, sem sveitarstjóri, oddviti og varaoddviti hafa endurskoðað í samvinnu við oddvita og varaoddvita Arnarneshrepps. Óskað er eftir athugasemdum frá sveitarstjórnarmönnum við drögin innan viku.

 

11. Ýmis mál.

a) Birkihlíð, staða mála og samningur.  Jón Ingi stefnir á að sex hús verði kominn við Birkihlíð fyrir árslok 2005. Sveitarfélagið má ráðstafa tveim lóðum til einstaklinga ef eftir þeim verður leitað en þá verður húsgerðin að vera í samræmi við skipulag svæðisins.

b) Kynning á starfsmati og framkvæmd þess.

c)  Erindi frá Viðari Þorsteinssyni um að ekki verði beitt sektarákvæði skv. 20. gr. í fjallskilasamþykkt Eyjafjarðar, þar sem hann hafi tilkynnt fjallskilastjóra og gangnastjóra um það með sólahrings fyrirvara að engir menn kæmu til leitar í aðrar göngur frá Brakanda, vegna óánægju með gangnastjóra úr Þorvaldsdal í fyrstu göngum. Sveitarstjórn samþykkti að fella niður sektina á Viðar, að þessu sinni, en vísa til Fjallskilanefndar að útfæra betur reglur um fjallskil og gangnarof fyrir haustið 2005.

d)   Snjómokstursmál.  Helga upplýsti um að hún hefði farið og talað við G. Hjálmarsson um snjómokstur og óskaði eftir því að hann kæmi með tillögur um hvernig hægt væri að spara í mokstrinum, en kostnaður hefur verið umtalsverður. Málið verðru í áframhaldandi vinnslu.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl: 23:31