Fundargerð - 19. febrúar 2014

Miðvikudaginn 19. febrúar 2014 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Axel Grettisson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Helgi Þór Helgason, Sunna Hlín Jóhannesdóttir.

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Þetta gerðist:

 

1. Fundargerð félagsmála- og jafnréttisnefndar 6. febrúar 2014

Fundargerðin er í einum lið, um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Gerð er tillaga til sveitarstjórnar um að settar verði reglur um NPA fyrir sveitarfélagið, sem taki mið af reglum Akureyrarbæjar um slíka þjónustu.

Sveitarstjórn samþykkti, að tillögu félagsmála- og jafnréttisnefndar, að settar verði reglur um notendastýrða persónulega aðstoð, sem taki mið af reglum Akureyrarbæjar um slíka þjónustu.

 

2. Fundargerð atvinnumálanefndar 13. febrúar 2014

Fundargerðin er í einum lið, um vinnslu lýsis til manneldis sem fyrirhugað er að setja upp á Hjalteyri.

Sveitarstjórn fagnar þeim áformum um atvinnurekstur á Hjalteyri sem koma fram í fundargerðinni.

 

3. Fundargerð fræðslunefndar 17. febrúar 2014

Fundargerðin er í þremur liðum, um yfirlit yfir helstu valkosti í skipulagi skólamála, um fyrirhugaðar framkvæmdir í Þelamerkurskóla, og um verðskrá fyrir afnot af húsnæði Þelamerkurskóla.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

4. Skipulag skólamála, yfirlit yfir helstu valkosti

Lagt fram yfirlit yfir helstu valkosti í skipulagi skólamála, sem m.a. miði að því að lækka kostnað við rekstur leikskóla og grunnskóla sveitarfélagsins. Yfirlitið er samið af vinnuhópi sveitarstjórnar, sbr. samþykkt hennar 16. október 2013.

Sveitarstjórn samþykkti að haldinn verði íbúafundur 12. mars 2014 um helstu valkosti í skipulagi skólamála í sveitarfélaginu.

 

5. Þelamerkurskóli, stækkun anddyris o.fl., útboð

Gerð grein fyrir þeim undirbúningi sem fram hefur farið við útboð á fyrirhuguðum framkvæmdum við stækkun anddyris, uppsetningu lyftu og endurbætur á A-álmu  Þelamerkurskóla. Fram kom að gert er ráð fyrir að verklok verði 20. ágúst 2014.

Sveitarstjórn samþykkti að framkvæmdir við stækkun anddyris, uppsetningu lyftu og endurbætur á A-álmu Þelamerkurskóla verði boðnar út með tilboðsfresti til 13. mars 2014.

 

6. Hólahólar og Hóladalur, friðlýsing

Tekin fyrir að nýju drög að auglýsingu um friðlýsingu Hólahóla og Hóladals og jafnframt tillaga skipulags- og umhverfisnefndar frá 9. janúar 2014 um breytingar á þeim. Fram kom að viðræður hafi átt sér stað milli sveitarfélagsins, Umhverfisstofnunar og landeiganda Hóla um drögin, sbr. samþykkt sveitarstjórnar 15. janúar 2014. Lögð var fram tillaga að breytingu á 2. mgr. 6. gr. fyrirliggjandi auglýsingardraga.

Sveitarstjórn samþykkti ekki tillögu skipulags- og umhverfisnefndar frá 9. janúar 2014 um afgreiðslu auglýsingardraganna. Sveitarstjórnin samþykkti að birt verði fyrirliggjandi drög að auglýsingu um friðlýsingu Hólahóla og Hóladals með eftirtöldum breytingum: 1) 2. mgr. 6. Gr. hljóði svo: „Á svæði sem afmarkast af veghelgunarsvæði Hringvegar að austan og Öxnadalsá að vestan skal heimilt að reisa þau þjónustumannvirki er ákveðin verða skv. verndar- og stjórnunaráætlun, sbr. 11. gr.  Innan sama svæðis, sem og þar sem landi hefur þegar verið raskað í friðlandinu, skulu einnig heimilar framkvæmdir við lagningu ljósleiðara, hitaveitu og önnur veitukerfi í almannaþágu.“2) Í 2. mgr. 8. gr. falli burt að umferð snjósleða sé háð leyfi landeiganda.

 

7. Fjárhagsáætlun 2014, viðauki 01/2014

Lögð fram tillaga að viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2014, sem hefur auðkennið 01/2014.

Sveitarstjórn samþykkti viðauka við fjárhagsáætlun 2014, nr. 01/2014, sem gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða ársins verði jákvæð sem nemur 26.402 þús.

 

8. Ós, sala á landspildum

Þann 13. febrúar 2014 voru opnuð tilboð í þrjár landspildur úr jörðinni Ós, sbr. samþykkt sveitarstjórnar 12. desember 2013. Í spildu A barst eitt tilboð, í spildu B barst ekki tilboð og í spildu C barst eitt tilboð.

Sveitarstjórn samþykkti að samið verði við Hörð Blöndal um kaup á landspildu A og að samið verði við Stefán Magnússon um kaup á landspildu C úr jörðinni Ós á grundvelli tilboða þeirra.

 

9. Kræklingahlíð, lagning ljósleiðara

Lagt fram bréf, dags. 20. janúar 2014, frá Jónasi Þór Jónassyni, þar sem óskað er eftir að lagning ljósleiðara í Kræklingahlíð verði tekin formlega fyrir af sveitarstjórn og að hún verði í forsvari fyrir lagningu hans.

Sveitarstjórn samþykkti að fresta afgreiðslu erindisins og jafnframt að aflað verði upplýsinga um þá möguleika sem kunna að vera á úrbótum í fjarskiptamálum í sveitarfélaginu.

 

10. Syðri-Bakki, landskipti

Lagt fram bréf, dags. 14. janúar 2014, frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, þar sem óskað er eftir umsögn um landskipti á jörðinni Syðri-Bakka. Um er að ræða stofnun lóðar, sem er 5,7 ha að stærð.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti þau landskipti á Syðri-Bakka sem lýst er í  framlögðum gögnum.

 

11. Skógarhlíð 15, umsókn um leyfi til búfjárhalds í þéttbýli

Lögð fram umsókn, dags. 11. febrúar 2014, frá Garðari Steinssyni um leyfi til að halda allt að 20 kvenkyns alifugla í skúr að Skógarhlíð 15, Lónsbakka, sbr. samþykkt um búfjárhald.

Sveitarstjórn samþykkti að veitt verði leyfi fyrir allt að 20 kvenkyns alifuglum að Skógarhlíð 15, Lónsbakka.

 

12. Styrktarsjóður EBÍ, reglur

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 4. febrúar 2014, frá Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands (EBÍ), þar sem gerð er grein fyrir nýsettum reglum um Styrktarsjóð EBÍ og frest til að sækja til sjóðsins.

 

13. Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. 20. janúar 2014, frá NKG-verkefnalausnum, þar sem óskað er eftir fjárstyrk til verkefnisins „Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda grein“.

Sveitarstjórn samþykkti að hafna erindinu.

 

14. Landssamtök landeigenda, aðalfundarboð

Lagt fram til kynningar aðalfundarboð Landssamtaka landeigenda (LLÍ). Aðalfundurinn verður haldinn 20. febrúar 2014.

 

15. Sauðfjárræktarfélag Skriðuhrepps, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. 18. febrúar 2014, frá Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps, þar sem óskað er eftir styrk til að halda samkomu um sauðfjárrækt í tilefni af 50 ára afmæli félagins.

Sveitarstjórn samþykkti að Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps verði veittur styrkur að fjárhæð kr. 15.000 í tilefni af 50 ára afmælis félagsins.

 

16. Trúnaðarmál

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 23:35.