Fundargerð - 18. febrúar 2009

Miðvikudaginn 18. febrúar 2009 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 37. fundar í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.

Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1. Fundargerð byggingarnefndar, 18. des. 2008

Fundargerðin er í einum lið. Hún varðar Hörgárbyggð ekki sérstaklega.

Fundargerðin rædd og afgreidd

 

2. Fundargerð heilbrigðisnefndar, 22. jan. 2009

Fundargerðin er í 23 liðum. Í lið 6 kemur fram umsögn nefndarinnar um gjaldskrá fyrir sorphirðu í Hörgárbyggð. Í lið 22 kemur m.a. fram að vatnsveitan á Hlöðum í Hörgárbyggð hefur fengið endurnýjun á starfsleyfi.

Fundargerðin rædd og afgreidd

 

3. Fundargerð stjórnar Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk, 11. febr. 2009

Fundargerðin er í þremur liðum. Lagt fram yfirlit um áætlaða kostnað við endurbæturnar á sundlauginni, sbr. 2. lið fundargerðarinnar. Þar kemur fram að áætlaður heildarkostnaður þeirra verði kr. 142,4 millj.

Fundargerðin rædd og afgreidd

 

4. Fundargerð framkvæmdanefndar Þelamerkurskóla, 11. febr. 2009

Fundargerðin er í fjórum liðum.

Fundargerðin rædd og afgreidd

 

5. Þriggja ára áætlun, síðari umræða

Gert er ráð fyrir að rekstrarafgangur samstæðunnar árið 2010 verði neikvæður upp á kr. 285 þús., árið 2011 jákvæður upp á kr. 835 þús. og árið 2012 jákvæður upp á kr. 2.600 þús. og að handbært fé í lok ársins 2012 verði kr. 33 millj.

Þriggja ára fjárhagsáætlunin var samþykkt eins og hún var lögð fram.

 

6. Afsláttur af fasteignaskatti til elli- og örorkulífeyrisþega

Í ljósi upplýsinga sem lagðar voru fram á fundinum samþykkti sveitarstjórn að breyta áður samþykktum reglum um afslátt af fasteignaskatti til elli- og örorkulífeyrisþega, þannig að efstu tekjumörk verði kr. 3.000.000 fyrir einstaklinga og kr. 4.000.000 fyrir samskattaða aðila.

 

7. Lánasjóður sveitarfélaga, lántaka

Lagt fram yfirlit yfir framkvæmdakostnað ársins 2008. Þar kemur fram að framkvæmdir fóru u.þ.b. 27 millj. kr. fram úr áætlunum, þar við bætist að engin gatnagerðargjöld komu á móti gatnagerðarframkvæmdum við Lækjarvelli. Til að tryggja eðlilegt fjárstreymi á bestu kjörum sem völ er á, er lagt til að sótt verði um lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 20 millj. kr.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð kr. 20.000.000 til 10 ára, í samræmi við skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Lánið er tekið til að standa straum af kostnaði við gatnagerð vegna nýrra atvinnulóða við Lækjarvelli, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Jafnframt er sveitarstjóra, Guðmundi Sigvaldasyni kt. 140454-4869, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess  f.h. Hörgárbyggðar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari.

 

8. Félagsleg liðveisla

Bréf, dags. 4. febrúar 2009, frá búsetudeild Akureyrarbæjar um félagslega liðveislu fyrir tiltekna einstaklinga.

Sveitarstjórn samþykkti að veitt verði sú félagslega liðveisla sem fjallað er um í bréfinu.

 

9. Hörgá, rannsóknir

Umsóknir um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr Hörgá gefa tilefni til að rannsakað verði hversu mikið er óhætt að taka af jarðefnum úr ánni án þess að lífríki hennar og umhverfi sé spillt til lengri tíma. Útibú Veiðimálastofnunar á Sauðárkróki hefur hafið rannsóknir á Hörgá, sem ætlað er að verða grundvöllur hugsanlegra veitinga framkvæmdaleyfa fyrir efnistöku úr ánni. Fyrir liggur óformlegt tilboð frá Veiðimálastofnuninni í verkið, þ.e. 800.000 kr. Veiðifélag Hörgár mun greiða fjórðung fjárhæðarinnar og Arnarneshreppur annan fjórðung hennar.

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkti að taka þátt í verkefninu, með greiðslu 50% kostnaðar.

 

10. Samningur um innheimtuþjónustu

Lögð fram drög að nýjum samningi við Intrum á Íslandi hf. vegna breytinga á lögum um innheimtumál, sem tóku gildi 1. jan. 2009. Einnig fylgir yfirlit yfir kostnað við innheimtu eins hún er í dag og eins og hún mun verða miðað við samningsdrögin.

Sveitarstjóra falið að ganga frá nýjum samningi við Intrum á grundvelli framlagðra draga.

 

11. Landsráðstefna um Staðardagskrá 21

Bréf, dags. 12. febrúar 2009, frá landsskrifstofu Staðardagskrár 21 um landsráðstefnu um Staðardagskrá 21 sem verður haldin í Stykkishólmi 20.-21. mars 2009.

Sveitarstjóra falið að sækja umrædda ráðstefnu fyrir hönd Hörgárbyggðar.

 

12. Samband ísl. sveitarfélaga, megináherslur í úrgangsmálum

Bréf, dags. 27. janúar 2009, frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um áherslur þess í úrgangsmálum og aðgerðaáætlun þar að lútandi.

Lagt fram til kynningar

 

13. Fundargerð stjórnar Eyþings, 16. jan. 2009

Fundargerðin er í átta liðum. Lögð fram til kynningar.

 

14. Tréstaðir, landskipti

Bréf, ódags., frá Kristjáni Jónssyni, Tréstöðum, þar sem hann óskað umsagnar sveitarstjórnar á skiptingu jarðarinnar, sbr. 13. gr. jarðalaga nr. 81/2004, sem gerir ráð fyrir að landspilda sem er 16,3 ha verði tekin undan jörðinni og seld. Um er að ræða þann hluta jarðarinnar sem er sunnan Hringvegarins.

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar gerir ekki athugasemdir við framkomna skiptingu jarðarinnar fyrir sitt leyti.

 

15. Fundargerð skólanefndar, 15. jan. 2009

Fundargerðin er í fjórum liðum.

Fundargerðin rædd og afgreidd.

 

16. Trúnaðarmál

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 22:58.