Fundargerð - 18. febrúar 2004

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 49. fundar í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Sturla Eiðsson, ásamt sveitarstjóra Helgu A. Erlingsdóttir. 

 

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Oddviti óskaði eftir að bæta við fundargerð byggingarnefndar 22. janúar 2004.

 

Fundarritiari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1) Fundargerðir sem borist hafa

a) Frá Eyþingi: 149 fundur frá 5. febrúar 2004 og af fundi með þingmönnum kjördæmisins frá 26. janúar 2004.

Lagt fram til kynningar.

b) Hafnarsamlaginu, 91. fundur frá 9. febrúar 2004.

Lögð fram til kynningar.

c) Fundargerðir heilbrigðiseftirlitsnefndar, 65. fundur frá 20. janúar 2004 og 66. fundur frá 9. febrúar 2004.

Lagðar fram til kynningar. Sveitarstjóra falið að vinna að undirbúningi reglugerðar um hundahald í Hörgárbyggð þannig að tryggt sé að hundar séu hreinsaðir í samræmi við lög. 

d) Skólanefnd, fundargerð og bréf frá trúnaðarmanni kennara. Tekið var fyrir bréf Sólveigar Z. trúnaðarmanns kennara til skólanefndar ÞMS dags 22.01.2004, þar sem hún gagnrýnir harðlega framkvæmd og vinnubrögð forsvarsmanna sveitarfélaganna við undirbúning og gerð leigusamninga við kennara.  Sveitarstjórn Hörgárbyggðar óskar eftir skriflegri greinargerð frá oddvita þar sem hann svarar þessari gagnrýni fyrir næsta fund sveitarstjórnar. Klængur mótmælti harðlega orðalagi í lið 3 þar sem stendur að hann hafi ekki réttindi til aksturs hópferðabifreiðar heldur er um að ræða að hann hafi ekki haft almennt rekstrarleyfi til fólksflutninga og óskar henn eftir að hann verði beðinn afsökunar á þessum dylgjum um að hann hafi ekki löglegt ökuskírteini og lagði fram almennt rekstrarleyfi sitt  dags. 7.janúar 2004 sem gildir til 7. janúar 2009. Fundargerðin var síðan staðfest samhljóða.

e) Framkvæmdanefnd íþróttahúss. Tekin fyrir uppsögn Helga Jóhannssonar forstöðumanns Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar harmar það að missa svo góðan starfsmann sem Helgi Jóhannsson er, en vill jafnframt þakka honum fyrir vel unnin störf í þágu íþróttamannvirkjanna á Þelamörk og óskar honum velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.

Undir lið 4 leggur Sigurbjörg fram eftirfarandi bókun:  “Það er öllum ljóst sem hafa komið á árshátíð ÞMS að skólinn býr við mikið plássleysi til að halda eins metnaðarfullar sýningar og haldnar hafa verið í skólanum s.l. ár. Því hefur sú umræða ítrekað komið á borð skólanefndar og sveitarstjórna að leita leiða til að leysa þennan vanda til frambúðar og hefur þá verið horft til íþróttahúss og félagsheimila sveitarfélaganna.  Íþróttahúsið hefur verið talinn álitlegri kostur m.a. vegna nálægðar við skólann.  Á fundi sveitarstjórnar 19. nóvember 2003 var fundargerð skólanefndar frá 4. nóvember 2003 afgreidd án athugasemda, þar er bókun um að beina því til sveitarstjórna að íþróttahúsið fáist fyrir árshátíð skólans í apríl n.k. Forsenda þess að hægt sé að fara með árshátíð skólans í annað húsnæði utan skólans er góð samvinna þeirra sem að koma”.

Þar sem ráða þarf forstöðumann í stað Helga Jóhannssonar var Helgu sveitarstjóra falið að kynna sér hvernig staðið er að málum hjá öðrum íþróttahúsum varðandi starfskjör og starfslýsingu forstöðumanns íþróttamannvirkja.

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar leggur áherslu á það að staðan verði ekki auglýst fyrr en búið er að fullmóta starfslýsingu og launakjör.

Fundargerðin staðfest samhljóða að öðru leyti.

f) Fundargerðir frá héraðsnefnd 26. nóv. 2003, héraðsráði 21. jan. 2004, stjórn Minjasafnsins, 17. des. 2003, stjórn Sorpeyðingar Eyjafjarðar, 17. des. 2003.

Lagðar fram til kynningar.

g) Fundargerð byggingarnefndar frá 22. janúar 2004.

Lögð fram til kynningar.

 

2. Þingsályktunartillaga um náttúruverndaráætlun

Sveitarstjórn Hörgábyggðar gerir ekki athugasemd við þingsályktunartillöguna.

 

3. Íbúaskrá - leiðréttingar og athugasemdir

Íbúaskrá lögð fram og afgreidd án athugasemda. Íbúar Hörgárbyggðar 1. desember eru 371 og hefur þeim fjölgað um einn. Á kjörskrá eru 282.

 

4. Lóðagjöld – leyfi – iðnaðarlóðir – aðrar lóðir

Sveitarstjóra falið að koma með uppfærða gjaldskrá á lóðaverði í Hörgárbyggð fyrir næsta fund. Samningur við Kötlu á að vera tilbúnn til undirskriftar fyrir næsta fundi.

 

5. Lagning reiðvega

Reiðveganefnd Hestamannafélagsins Léttis fer þess góðfúslega á leit við sveitarstjórn Hörgárbyggðar að fyrirhuguð reiðleið í landi Skjaldarvíkur verði færð inn á aðalskipulag sveitarfélagsins sbr. meðfylgjandi kort. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir samhljóða. Erindið verður lagt fyrir skipulagsnefnd til nánari útfærslu.

Eftirfarandi var samþykkt á fundi sveitarstjórnar Hörgárbyggðar 18. febrúar 2004 vegna erindis frá Létti um reiðvegagerð:

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar hefur tekið fyrir erindi frá Hestamannafélaginu Létti um stuðning vegna undirbúnings framkvæmda við reiðvegagerð - fjölnotaveg í Hörgárbyggð. Vegurinn er fyrirhugaður ofan þjóðvegar nr. 1 frá Syðsta-Samtúni að Laugalandi á Þelamörk. Fyrirhugað er að vegurinn verði líka nýttur af göngu- og hjólreiðafólki. Sveitarstjórn styður Hestamannafélagið Létti heilshugar um að reiðvegur - fjölnotavegur verði lagður ofan þjóðvegar nr. 1 í Kræklingahlíð að Laugalandi á Þelamörk og þar með gert ráð fyrir honum í væntanlegu aðalskipulagi Hörgárbyggðar. Mjög brýnt er að af þessum framkvæmdum verði þar sem umferðin um þjóðveginn þarna er afar þung, hröð og mikil, þannig að umferð hestamanna, gangandi og hjólandi fólks er öllum hættuleg eins og málum er fyrir komið í dag og óskar sveitarstjórn eftir því við Vegagerðina að hún hefji framkvæmdir við þetta verkefni sem fyrst.

 

6. Efling sveitarstjórnarstigsins – bréf frá Eyþingi

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar tók fyrir erindi frá Eyþingi dags. 11. feb. 2004 um eflinu sveitarstjórnastigsins, þar sem sveitarstjórnir eru hvattar til að efna til umræðu um eflingu sveitarstjórnarstigsins og sameiningu sveitarfélaga í því samhengi. Einnig  afrit af bréfi frá nefnd um sameiningu sveitarfélaga dags. 22. janúar 2004.

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar lýsir sig reiðubúna til að taka þátt í umræðum um sameiningu sveitarfélaga og verkaskiptingu milli sveitarfélaga og ríkisvaldsins og leggja fram nauðsynlega vinnu í því samhengi. Sveitarstjórn er þeirrar skoðunar að umræða og vinna sem henni fylgir þurfi að fara fram á breiðum grundvelli og því þurfi Sameiningarnefndin og stjórn Eyþings að beita sér. Sveitarstjórn leggur áherslu á að fyrrnefndir aðilar hafi forgöngu um að málefni þetta verði tekið upp til umræðu meðal sveitarstjórnarmanna  á starfsvæði Eyþings. Meðan slík umræða hefur ekki farið fram telur sveitarstjórn Hörgárbyggðar ástæðulaust að einstakar sveitarstjórnir leggi fram tillögur í þessum efnum.

 

7. Fasteignaskattar og afslættir af fasteignagjöldum

Fasteignaskattur A 0,32% af fasteignamati

Fasteignaskattur B 1,32% af fasteignamati

Holræsagjald 0,28% fasteignamati

Sorpgjald á hvert heimili 8.000

Sorpgjald á fyrirtæki eftir magni

Gjalddagar fasteignagjalds eru 8, frá mars - október 

 

Eftirfarandi reglur voru samþykktar um afslátt á fasteignaskatti í Hörgárbyggð 2004

 

1 gr.

Tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum sem eiga lögheimili í Hörgábyggð er veittur afsláttur af fasteignaskatti, samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar Hörgárbyggðar ár hvert og reglum þessum, sbr. heimild í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

 

2. gr.

Rétt til afsláttar eiga íbúðareigendur í Hörgárbyggð sem búa í eigin íbúð og:

a) eru 67 ára á árinu eða eldri eða
b) hafa verið úrskurðaðir 75% öryrkjar.

 

3. gr.

Hjón og samskattað sambýlisfólk fær fullan afslátt þó einungis annar aðilinn uppfylli skilyrði 2. gr. Ef um fleiri en einn íbúðareiganda er að ræða að eign, sem ekki uppfylla skilyrði 1. mgr., er veittur afsláttur til þeirra sem uppfylla skilyrði 2. gr., í samræmi við eignarhluta þeirra.

 

4. gr.

Afsláttur af fasteignaskatti er tekjutengdur og er allt að kr. 27.500. Afsláttur er hlutfallslegur að teknu tilliti til allra skattskyldra tekna, þ.m.t. eigna- og fjármagnstekna síðastliðins árs, samkvæmt skattframtali. Miðað er við sameiginlegar tekjur hjóna og samskattaðs sambýlisfólks.

 

5. gr.

Tekjumörk eru sem hér segir:

Fyrir einstaklinga

a) með tekjur allt að kr. 1.250.000,  fullur afsláttur skv. 4. gr.
b) með tekjur yfir kr. 1.600.000, enginn afsláttur.

Fyrir hjón og samskattað sambýlisfólk
a) með tekjur allt að kr. 1.750.000, fullur afsláttur skv. 4. gr.
b) með tekjur yfir kr. 2.100.000, enginn afsláttur.

Ef tekjur eru á framangreindu bili er veittur hlutfallslegur afsláttur.

 

6. gr.

Sækja skal skriflega til skrifstofu Hörgárbyggðar, fyrir 30. apríl  um afslátt af  fasteignaskatti fyrir árið 2004. Með umsókn skal fylgja staðfest skattframtali framtalsársins 2004.

 

Sveitarstjórn Hörgábyggðar endurskoðar tekjumörk í desember ár hvert.

Samþykkt í sveitarstjórn 18. febrúar 2004.

 

8. Áætlanagerð – þriggja ára áætlun.

Lögð var fram fjárhagsáætlun sveitarsjóðs Hörgábyggðar 2004, komin inn í forrit KPMG með áorðnum breytingar. Breytingar á áætluninni voru staðfestar og var sveitarstjóra og oddvita falið að undirrita hana og senda félagsmálaráðuneytinu. Þriggja ára áætlunin var rædd og var sveitarstjóra falið að vinna áfram að áætluninni í anda umræðnanna á fundinum og leggja fyrir næsta fund.

 

9. Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis, styrkbeiðni.

Samþykkt að veita kr. 20.000 í styrk.

 

10. Bréf og erindi sem borist hafa:

a. Um gerð aðalskipulags, kynning

b. Grunnskólaþing sveitarfélaga, kynning

c. Rafrænt samfélag, kynning

d. UST, skert greiðsluhlutfall refa og minkaveiða. Lagt fram til kynningar

e. Héraðsnefnd, upplýsingarmiðstöð ferðamála.

Kostnaður við aðild Hörgárbyggðar að Upplýsingamiðstöð ferðamála á Norðurlandi er kr. 43.033.

f. Bréf frá Baldvini Hallgrímssyni og Ásdísi Birgisdóttur, dags. 10. febr. 2004.

Þar kemur fram fyrirspurn um hvort húsaleiga á Laugalandi muni hækka frá og með 1. nóvember 2004 þ.e. áður en endurbótum á eldhúsi og vaskahúsi er lokið.

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkti eftirfarandi bókun: Á  sameiginlegum fundi sveitarstjórnar Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps þann 17. mars 2003 var samþykkt að húsaleiga kennara hækki og taki mið af því sem gerist hjá öðrum skólum og að nauðsynlegustu endurbótum á íbúðum verði lokið áður en full húsaleiga verði innheimt. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar stendur við þá bókun.

g. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar heimilar sveitarstjóra að óska eftir viðbótarheimild á yfirdrætti hjá Sparisjóði Norðlendinga allt að kr. 2.500.000 til viðbótar fyrri heimild upp á kr. 3.500.000 til 30. júní 2004.

 

11. Trúnaðarmál.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 00:25.