Fundargerð - 18. apríl 2012

Miðvikudaginn 18. apríl 2012 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Axel Grettisson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi Þór Helgason, Helgi Bjarni Steinsson, Sunna Hlín Jóhannesdóttir.

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Þetta gerðist:

 

1. Ársreikningur sveitarsjóðs fyrir árið 2011, síðari umræða

Fyrri umræða um ársreikning sveitarsjóðs fyrir árið 2011 fór fram á fundi sveitarstjórnar 21. mars 2012. Þá var hann afgreiddur til síðari umræðu.

Sveitarstjórn staðfesti ársreikning sveitarsjóðs fyrir 2011 með undirritun sinni á ársreikninginn.

 

2. Hörgá, framkvæmdaleyfi grjótvarnar

Lagt fram tölvubréf, dags. 23. febrúar 2012, frá Verkís, fyrir hönd Norðurorku hf., þar sem óskað er eftir framkvæmdaleyfi fyrir grjótvörn í Hörgá við Laugaland til að verja borholu sem er á árbakkanum þar. Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til að framkvæmdaleyfið verði veitt, sjá fundargerð nefndarinnar 27. mars 2012 (3. liður).

Sveitarstjórn samþykkti að veita Norðurorku hf. framkvæmdaleyfi fyrir grjótvörn í Hörgá við Laugaland á Þelamörk, á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Framkvæmdaleyfisgjald, kr. 49.000, greiðist.

 

3. Öxnadalsá, framkvæmdaleyfi vegna landbrots

Lagt fram tölvubréf, dags. 9. mars 2012, frá Vegagerðinni þar sem óskað er eftir framkvæmdaleyfi vegna ráðstafana gegn landbroti af völdum Öxnadalsár í landi Bakka. Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til að framkvæmdaleyfið verði veitt, sjá fundargerð nefndarinnar 27. mars 2012 (4. liður).

Sveitarstjórn samþykkti að veita Vegagerðinni framkvæmdaleyfi fyrir ráðstöfunum gegn landbroti af völdum Öxnadalsár, á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Framkvæmdaleyfisgjald, kr. 49.000, greiðist.

Helgi Þór Helgason tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

 

4. Fundargerðir skipulags- og umhverfisnefndar, 27. mars og 11. apríl 2012

Fyrri fundargerðin er í tíu liðum. Tveir þeirra voru til afgreiðslu í dagskrárliðunum hér að framan (nr. 2-3). Í öðrum liðum eru tillögur til sveitarstjórnar um afgreiðslu á lýsingu á skipulagsverkefninu „Svæðisskipulag Eyjafjarðar 2011-2024“, um frummatsskýrslu mats á umhverfisáhrifum Blöndulínu 3 og um breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018. Þá er í fundargerðinni fjallað um samstarfshóp um skipulagsmál á sveitarfélagsmörkum Hörgársveitar og Akureyrarkaupstaðar, um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr Hörgá, um tillögu að breyttri legu reiðleiða á Akureyri, um fyrirkomulag sorphirðu og um fyrirkomulag skógarkerfilseyðingar 2012.

Seinni fundargerðin er í fjórum liðum. Í henni eru tillögur til sveitarstjórnar um íbúafund um frumdrög að tillögu að aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024 og um fyrirkomulag sorphirðu.  Þá er í fundargerðinni fjallað um lýsingu á skipulagsverkefninu „Deiliskipulag á Skútum/Moldhaugum“ og um samráðsfund Skipulagsstofnunar og sveitarfélaganna.

Sveitarstjórn samþykkti tillögur skipulags- og umhverfisnefndar um afgreiðslu á lýsingu á skipulagsverkefninu „Svæðisskipulag Eyjafjarðar 2011-2024“, um umsögn um frummatsskýrslu mats á umhverfisáhrifum Blöndulínu 3, með þeirri breytingu að í umsögninni komi fram að við veitingu framkvæmdaleyfis áskilji sveitarfélagið sér rétt til að hafa áhrif á gerð línumastra á línuleiðinni, auk þess að það muni þá krefjast fleiri mótvægisaðgerða gegn talsvert neikvæðum ásýndaráhrifum línunnar í Kræklingahlíð s.s. að Dalvíkurlína 1 verði lögð í jörð á því svæði, um breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 og um íbúafund um frumdrög að tillögu að aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024. Afgreiðslu á tillögu um fyrirkomulag sorphirðu var frestað. Samþykkt var að íbúafundur um aðalskipulagsmál verði haldinn 2. maí 2012. Að öðru leyti gefa fundargerðirnar ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

5. Fundargerð fjallskilanefndar, 12. apríl 2012

Fundargerðin er í sjö liðum. Í henni er tillaga til sveitarstjórnar um drög að samþykkt um búfjárhald í sveitarfélaginu.  Þá er í fundargerðinni fjallað um samning við Akrahrepp um fjallskil, um tímasetningu gangna haustið 2012, um álagningu gangnadagsverka og annað skipulag fjallskila haustið 2012 og um viðhald fjárrétta. Á fundunum var lagt fram bréf, dags. 18. október 2011, frá 17 landeigendum um fund um lausagöngu búfjár.

Sveitarstjórn samþykkti að þann 26. apríl 2012 verði haldinn íbúafundur um fyrirliggjandi drög að samþykkt um búfjárhald í sveitarfélaginu og að á grundvelli fyrirliggjandi yfirlýsingar verði unnið að gerð samnings við Akrahrepp um fjallskilamál. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

6. Fundargerð menningar- og tómstundanefndar, 13. apríl 2012

Fundargerðin er í sex liðum. Í henni eru tillögur til sveitarstjórnar um styrk til umf. Smárans til kaupa á mörkum fyrir æfingavöllinn við Þelamerkurskóla og um styrk til Verksmiðjunnar á Hjalteyri til að greiða húsaleigu fyrir listamiðstöð sem rekin er í „mjölhúsinu“. Þá er í fundargerðinni fjallað um viðgerð á sundlaugarbakka Jónasarlaugar, um ljóðatengingu Jónasarlaugar, um afmæli sveitarfélagsins og um heimsókn frá Kvinesdal í Noregi.

Sveitarstjórn samþykkti tillögur menningar- og tómstundanefndar um styrk til umf. Smárans að fjárhæð kr. 200.000 til kaupa á mörkum fyrir æfingavöllinn við Þelamerkurskóla og um styrk til Verksmiðjunnar á Hjalteyri að fjárhæð kr. 450.000 til að greiða húsaleigu fyrir listamiðstöð á árinu 2012. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

7. Fjárhagsáætlun 2012, viðauki

Lögð fram drög að viðauka við fjárhagsáætlun fyrir árið 2012. Auðkenni viðaukans er 02/2012. Drögin gera ráð fyrir hækkun allmargra gjaldliða og lækkun nokkurra tekjuliða upp á samtals 5.596 þús. kr. Á móti er gert ráð fyrir lækkun nokkurra gjaldliða og hækkun nokkurra tekjuliða upp á samtals 7.475 þús. kr., þannig að gert er ráð fyrir að samtals verði áhrifin þau að handbært fé á árinu hækki um 2.633 þús. kr. í stað 754 þús. kr., eins og gildandi fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir.

Sveitarstjórn samþykkti framlögð drög að viðauka við fjárhagsáætlun 2012, nr. 02/2012, eins og þau voru lögð fram.

 

8. Ós, ósk um kaup

Lagt fram tölvubréf, dags. 20. mars 2012, frá Rúnari Gústafssyni þar sem óskað er eftir að kaupa hluta úr jörðinni Ós. Þá var tekið fyrir að nýju tölvubréf, dags. 20. júní 2011, frá Sunnu H. Jóhannesdóttur og Hjörvari Kristjánssyni um kaup á hluta jarðarinnar, sbr. fundargerð sveitarstjórnarfundar 22. júní 2011.

Sveitarstjórn samþykkti að árétta samþykkt hennar frá 22. júní 2011 um sölu jarðarinnar Óss.

Sunna H. Jóhannesdóttur vék af fundinum undir þessum dagskrárlið.

 

9. Viðhald á heimreiðum

Rætt um ónógt viðhald á heimreiðum í sveitarfélaginu. Í viðræðum við Vegagerðina um slík mál hefur komið fram að ekki sé til staðar vettvangur til fara yfir viðhaldsmál heimreiða eftir að veganefnd, skv. eldri vegalögum, er ekki lengur til.

Sveitarstjórn samþykkti að óska eftir fundi með fulltrúum Vegagerðarinnar um fyrirkomulag viðhalds á heimreiðum í sveitarfélaginu.

 

10. Laugareyri, jarðhitarannsóknir

Lagt fram tölvubréf, dags. 12. apríl 2012, frá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) þar sem gerð er grein fyrir tilboði í gerð yfirborðsrannsókna við Laugareyri í Hörgárdal vegna hugsanlegrar jarðhitanýtingar. Fram kom á fundinum að Norðurorka hf. er reiðubúin að greiða helming kostnaðarins. Þá var lagður fram útdráttur úr lokaskýrslu ÍSOR um jarðhitarannsóknirnar sem fóru fram í Hörgárdal og Öxnadal í vetur. Niðurstaða skýrslunnar er að nýtanlegt jarðhitasvæði er ekki að finna á því svæði sem rannsakað var.

Sveitarstjórn samþykkti að samið verði við ÍSOR, Norðurorku hf. og landeigendur um yfirborðsrannsóknir við Laugareyri í Hörgárdal vegna hugsanlegrar jarðhitanýtingar á grundvelli fyrirliggjandi gagna frá ÍSOR.

 

11. Tímabundin störf fyrir námsmenn og atvinnuleitendur

Lagt fram bréf, dags 28. mars 2012, frá Vinnumálastofnun þar sem gerð er grein fyrir átaki til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn og atvinnuleitendur.

Sveitarstjórn samþykkti að af hálfu sveitarfélagsins verði tekið verði þátt í fyrirhuguðu átaki til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn og atvinnuleitendur.

 

12. Þjóðlendur, fundur

Lagt fram til kynningar bréf, dags 28. mars 2012, frá forsætisráðuneytinu þar sem boðað er til fundar 24. maí 2012 um málefni þeirra landsvæða sem úrskurðuð hafa verið þjóðlendur.

 

13. Símey, ársfundarboð

Lagt fram til kynningar ársfundarboð Símenntunarstöðvar Eyjafjarðar (Símey). Ársfundurinn verður 25. apríl 2012.

 

14. Trúnaðarmál

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 24:05