Fundargerð - 18. apríl 2007

Miðvikudaginn 18. apríl 2007 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 13. fundar í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra. Á fundinn mætti Arnar Árnason, löggiltur endurskoðandi. Axel Grettisson og Jón Þór Brynjarsson frá Arnarneshreppi voru viðstaddir yfirferð ársreikninga Þelamerkurskóla og Íþróttamiðstöðvarinnar.

Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1. Ársreikningar Hörgárbyggðar, Þelamerkurskóla og Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk fyrir árið 2006, fyrri umræða

Lagðir fram ársreikningur Hörgárbyggðar, svo og ársreikningar Þelamerkurskóla og Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk fyrir árið 2006.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu kr. 183,1 millj. og rekstrargjöld námu kr. 163,9 millj. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins var jákvæð upp á 19,3 milljónir kr.  Handbært fé í árslok var kr. 54,5 millj.

Rekstrargjöld Þelamerkurskóla námu á árinu kr. 88,6 millj.

Rekstrartekjur Íþróttamiðstöðvarinnar námu kr. 17,6 millj. og rekstrargjöldin námu kr. 20,2 millj.

Arnar Árnason endurskoðandi fór yfir ársreikningana með fundarmönnum og svaraði fyrirspurnum. Ársreikningunum var síðan vísað til annarrar umræðu.

 

2. Auðnir, framkvæmdaleyfi fyrir vegi

Á síðasta fundi sveitarstjórnar (9. mál) var tekið fyrir bréf, dags. 18. okt. 2006, frá Vegagerðinni, um framkvæmdaleyfi fyrir Auðnavegi, en afgreiðslu þá frestað. Lagt fram bréf, dags. 12. apríl 2007, frá Árna Pálssyni hrl., fyrir hönd Aðalsteins H. Hreinssonar og Sigríðar Svavarsdóttur, Auðnum I, þar sem ekki er fallist á það vegarstæði sem gert er ráð fyrir í bréfi Vegagerðarinnar.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Þar sem fyrir liggur að landeigandi felst ekki á legu vegar að Auðnum II skv. uppdrætti Vegagerðarinnar, sem fylgdi bréfi hennar dags. 18. okt. 2006, er sveitarstjórn ekki heimilt að veita framkvæmdaleyfi fyrir vegarlagningunni að svo stöddu.

 

3. Alþingiskosningar, kjörskrá

Kjörskrá vegna Alþingiskosningar 12. maí nk. hefur ekki borist og samþykkir sveitarstjórn Hörgárbyggðar að veita Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra og Helga Steinssyni oddvita umboð til að fara yfir kjörskrána og undirrita hana með fyrirvara um breytingar.

Sveitarstjórn ákvað að kjörstaður sveitarfélagsins verði í Hlíðarbæ.

 

4. Niðurgreiðsla á dvalarkostnaði hjá dagmóður

Umsókn, dags. 2. apríl 2007, um niðurgreiðslu á dvalarkostnaði barns á 1. ári vegna dvalar hjá dagmóður.  Málinu frestað til næsta fundar.

 

5. Lánasjóður sveitarfélaga ohf., eignarhluti

Bréf, dags. 28. mars 2007, frá Lánasjóði sveitarfélaga ohf., þar sem tilkynnt er um eignarhlut Hörgárbyggðar í Lánasjóðnum um síðustu áramót og um greiðslur til sveitarfélagsins vegna niðurfærslu á eigin fé sjóðsins. Bréfið er lagt frá til kynningar.

 

6. Skráning örmerktra gæludýra

Bréf, dags. 19. mars 2007, frá Önnu Guðrún Grétarsdóttur, þar sem reifuð er hugmynd um að gerður verði einfaldur gagnagrunnur til að halda utan um örmerkt gæludýr. Stungið er upp á að Hörgárbyggð verði “prufu”-sveitarfélag fyrir verkefnið. Það þýddi að taka yrði upp gjald fyrir skráningu gæludýra í sveitarfélaginu, eins og víða tíðkast, nema sveitarsjóður beri kostnaðinn. Sveitarstjórn ákvað að koma ekki að verkefninu að svo stöddu.

 

7. Neytendastofa, fyrirspurn um verðlagningu í mötuneyti

Bréf, dags. 30. mars 2007, frá Neytendastofu, þar sem óskað er upplýsinga um skilmála grunnskóla um verðmyndun og verðlagningu á mat til nemenda. Málinu vísað til framkvæmdanefndar til afgreiðslu.

 

8. Bakkakirkja, beiðni um fjárstuðning

Bréf, dags. 24. mars 2007, frá sóknarnefnd Bakkakirkju þar sem óskað er eftir fjárstuðningi að upphæð kr. 500.000 til að hefja framkvæmdir við endurbætur kirkjugarðs.

Samþykkt var að verða við erindinu í þetta sinn og veita Bakkakirkju fjárstuðning allt að kr. 500.000 að útlögðum kostnaði.

 

9. Fjórða árs hjúkrunarnemar við Háskólann á Akureyri, beiðni um fjárstuðning

Tölvubréf, ódags., frá 4. árs hjúkrunarnemum við Háskólann á Akureyri, þar sem óskað er eftir fjárstuðningi í formi auglýsingar í blað þeirra. Erindinu var hafnað.

 

10. Götusmiðjan, beiðni um fjárstuðning

Tölvubréf, dags. 16. apríl 2007, frá Götusmiðjunni, þar sem óskað er eftir fjárstuðningi í formi auglýsingar í blað hennar. Erindinu var hafnað.

 

11. Fundargerð byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis, 3. apríl 2007

Fundargerðin er í tíu liðum. 9. liður hennar varðar lóð í landi Engimýrar frá Og fjarskipti ehf. til að byggja tækjahús til nota fyrir Neyðarlínuna og Vodafone. Fundargerðin afgreidd án athugasemda.

 

12. Fundargerð skólanefndar Þelamerkurskóla, 10. apríl 2007

Fundargerðin er í þremur liðum. Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.

 

13. Fundargerð húsnefndar, 16. apríl 2007

Fundargerðin er í 3. liðum. Fundargerðin rædd og samþykkt að kaupa 75 stóla fyrir Hlíðarbæ.  

 

14. Menningarmiðstöð á gömlu Öxnadalsárbrúnni

Lögð fram hugmynd Arnar Inga um að byggð verði lítil menningarmiðstöð á gömlu Öxnadalsárbrúnni. Sveitarstjórn leggst ekki gegn því að hugmyndin verði skoðuð nánar.

 

15. Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, aðalfundur

Bréf, dags. 10. apríl 2007, frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar, þar sem boðað er til aðalfundar byggðasamlagsins þann 24. apríl nk. Sveitarstjóri mun fara fh. Hörgárbyggðar.

 

16. Tækifæri hf., aðalfundur

Bréf, dags. 12. apríl 2007, frá Tækifæri hf. þar sem boðað er til aðalfundar félagsins þann 30. apríl nk. Lagt fram til kynningar

 

17. Minjasafnið á Akureyri, aðalfundur

Bréf, dags. 11. apríl 2007, frá Minjasafninu á Akureyri þar sem boðað er til aðalfundar sameignarstofnunarinnar þann 26. apríl nk. Jóhanna María Oddsdóttir var kosin aðalmaður og Guðný Árnmarsdóttir til vara.

 

18. Fundargerðir stjórnar Minjasafnsins á Akureyri, 21. mars og 3. apríl 2007

Fyrri fundargerðin er fimm liðum og síðari fundargerðin er í sex liðum.

Lagðar fram til kynningar.

 

19. Fundargerðir héraðsráðs, 21. febr. og 21. mars 2007

Hvor fundargerð er í fimm liðum. Lagðar fram til kynningar.

 

20. Byggðarmerki fyrir sveitarfélagið

Lagðar fram tvær fullunnar tillögur að byggðarmerki fyrir sveitarfélagið frá Jóhanni H. Jónssyni, teiknara, sbr. 11. lið í fundargerð síðasta fundar sveitarstjórnar.

Samþykkt var að tillaga merkt A verði byggðarmerki Hörgárbyggðar.

 

21. Efnistaka úr Hörgá

Erindi frá eigendum Skóga og Skriðu um að fá framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr og við Hörgá á móts við Steðja og jafnframt framkvæmdaleyfi fyrir lagfæringu á árfarveginum með fyrirhleðslum sbr. meðf. uppdrátt. Áætluð efnistaka nemi allt að 30.000 rúmmetrum. Óskað er eftir að framkvæmdaleyfið gildi til 31. desember 2008. Sveitarstjóra falið að óska eftir mati Skipulagsstofnunar á því hvernig beri að standa að afgreiðslu málsins og er því ekki tekin afstaða til veitingar framkvæmdaleyfis, fyrr en svar Skipulagsstofnunar liggur fyrir.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 00:42