Fundargerð - 16. maí 2007

Miðvikudaginn 16. maí 2007 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 14. fundar í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.

Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1. Ársreikningar Hörgárbyggðar, Þelamerkurskóla og Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk fyrir árið 2006, síðari umræða

Kjörnir skoðunarmenn sveitarfélagsins hafa yfirfarið ársreikningana og áritað þá. Eins og áður hefur komið fram er rekstrarniðurstaða ársins jákvæð upp á 19,3 millj. kr., sem er 10,5% af rekstrartekjum sveitarfélagsins. Fjárhagsstaða sveitarsjóðs er mjög traust og veltufjárhlutfall hans er 3,71. Ársreikningarnir voru samþykktir samhljóða og undirritaðir af sveitarstjórn.

 

2. Fundargerð sameiginlegs fundar sveitarstjórna Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar, fundargerð skólanefndar og umsögn og tillaga skólanefndar til sveitarstjórna

Fram kemur að oddvitum og varaoddvitum Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar var falið að ganga frá ráðningu nýs skólastjóra fyrir Þelamerkurskóla, að fenginni umsögn skólanefndar, á sameiginlegum fundi beggja sveitarstjórnanna sem haldin var mánudagskvöldið 14. maí 2007. Fundargerðirnar ræddar og afgreiddar án athugasemda.

 

3. Fundargerð framkvæmdanefndar Þelamerkurskóla, 26. apríl 2007

Fundargerðin er í sex liðum. Í henni er m.a. samþykkt um ráðstöfun húsaleigutekna skv. lista yfir viðhaldsverkefni sem fyrirhugað er að vinna að. Áætlaður kostnaður við þau er u.þ.b. kr. 1.620.000. Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.

 

4. Fundargerð stjórn Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk, 26. apríl 2007

Fundargerðin er í fjórum liðum. Í henni er m.a. samþykkt um að samin verði lýsing á þeim endurbótum sem fyrirhugaðar eru á næsta ári og að aflað verði tilboða í hönnun þeirra. Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.

 

5. Vinnureglur fjallskilanefndar

Lögð fram drög að vinnureglum fjallskilanefndar, sbr. fundargerð nefndarinnar 26. apríl 2007 til samræmis við það sem áður hefur verið afgreitt með afgreiðslum á fundargerðum fjallskilanefndar. Fyrirliggjandi drög voru rædd og samþykkt eins og þau eru lögð fram. Í framhaldi af því leggur sveitarstjórn áherslu á að gangnadagsverkin á Illagilsdal og Lambárdal á Þorvaldsdalsafrétti verði lögð á þá landeigendur sem hafa upprekstrarrétt og/eða nýta hann á nefndum svæðum.

 

6. Erindisbréf fjallskilanefndar

Lögð fram drög að erindisbréfi fjallskilanefndar, sbr. fundargerð nefndarinnar 26. apríl 2007. Drögin voru rædd og síðan afgreidd án athugasemda.

 

7. Fundargerð fjallskilanefndar, 26. apríl 2007

Fundargerðin er í fimm liðum. 3. og 4. liður hennar eru til umræðu í næstu liðum hér á undan. Fundargerðin var afgreidd en  5. lið fundargerðarinnar þarf að skoða nánar. 

 

8. Samningur um rekstur vinnuskóla

Lagður fram samningur milli Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps um rekstur vinnuskóla sumarið 2007, dags. 9. maí 2007. Samningurinn ræddur og síðan samþykktur eins og hann er lagður fram.

 

9. Niðurgreiðsla á dvalarkostnaði hjá dagmóður

Á síðasta fund sveitarstjórnar var tekin fyrir umsókn um niðurgreiðslu á dvalarkostnaði hjá dagmóður (4. liður), en afgreiðslu frestað.

Sveitarstjórn samþykkir að greiða allt að kr. 32.000 pr. mánuð til dagmóður með starfsleyfi, miðað við 8 tíma dagvistun og hlutfallslega fyrir styttri dvöl, frá sex mánaða aldri barnsins til þess tíma þar til barnið fær leikskólapláss á Álfasteini.

 

10. Fundargerð leikskólanefndar, 9. maí 2007

Fundargerðin er í fimm liðum.  Fundargerðin var rædd og sveitarstjóra falið að skoða liði 2, 4, og 5 nánar að öðru leyti var fundargerðin afgreidd án athugasemda.

 

11. Syðsta-Samtún, Mið-Samtún – Blómsturvellir, makaskipti á landsspildum

Lagður fram uppdráttur, sem sýnir hugmynd um makaskipti við Akureyrarbæ á landspildum vegna lóðar Vélavers hf.

Málið rætt og hugmyndin samþykkt. Sveitarstjóra veitt umboð til að ganga frá skjölum varðandi þetta mál eins og það er lagt fram.

 

12. Fundargerð byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis, 8. maí 2007

Fundargerðin er í þrettán liðum. Liðir nr. 12 og 13 varða Hörgárbyggð. Annarsvegar er um að ræða hækkun á þaki slátursalar hjá B. Jensen og hinsvegar um leyfi til að setja upp auglýsingarskilti fyrir Pizza Pizza ehf. (Dominos) í landi Áss á Þelamörk.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar heimilar ekki umbeðna uppsetningu auglýsingaskiltis í landi Áss, með vísan til 43. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt án athugasemda.

 

13. RARIK, leyfi fyrir staðsetningu spennistöðvar í Skógarhlíðarhverfi o.fl.

Bréf, dags. 26. apríl 2007, ásamt uppdráttum, frá RARIK, þar sem óskað er eftir leyfi fyrir staðsetningu spennistöðvar í Skógarhlíðarhverfi og leyfi til að leggja háspennustrengi að spennistöðinni. Erindið var samþykkt og þykir eðlilegast að þetta mál fari í grenndarkynningu og var sveitarstjóra falið að sjá um hana.

 

14. Njólaeyðing

Gert er ráð fyrir að haldið verði áfram með þá njólaeyðingu sem hófst á síðasta ári í sveitarfélaginu. Rætt hefur verið við Sverri á Djúpárbakka um að taka verkið að sér. Samþykkt að halda áfram njólaeyðingunni þar sem frá var horfið og taka gamla Glæsibæjarhrepp næst. Sveitarstjóra og oddvita falið að semja við Sverri um framkvæmdina og er áætlaður kostnaður þetta árið kr. 300.000. Ákveðið að bjóða uppá njólaeyðingu gegn gjaldi á því svæði sem farið var yfir í síðasta ári og verður það auglýst síðar. 

 

15. Stofnun einkahlutafélags um úrgangsstjórnun í Eyjafirði

Bréf, dags. 10. maí 2007, frá Akureyrarbæ, þar sem boðað er til stofnfundar einkahlutafélags um úrgangsstjórnun í Eyjafirði þann 24. maí 2007. Félaginu er ætlað að taka við verkefnum og skuldbindingum Sorpeyðingar Eyjafjarðar bs.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir að eiga aðild að væntanlegu félagi um úrgangsstjórnun í Eyjafirði og samþykkir að leggja til þess eignarhlut sinn í Sorpeyðingu Eyjafjarðar bs.

 

16. Samvinna sveitarfélaga í Eyjafirði

Bréf, dags. 20. apríl 2007, frá Héraðsnefnd Eyjafjarðar, um vorfund Héraðsráðs og bókun hennar um skýrslu RHA um samvinnu sveitarfélaga í Eyjafirði, greining og framtíðarfyrirkomulag. Einnig lagt fram minnisblað, dags. 10. maí 2007, um skýrsluna ásamt ljósriti af nokkrum blaðsíðum úr henni. Sveitarstjórn tekur mjög jákvætt í allra samvinnu við önnur sveitarfélög á svæðinu.

 

17. Fundargerð héraðsráðs, 18. apríl 2007

Fundargerðin er í sex liðum. Þriðji liður hennar er til umræðu í næsta lið hér á undan. Að öðru leyti er fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

18. Umsókn um leikskóladvöl utan sveitar

Lögð fram umsókn, ódags., um tímabundna leikskóladvöl utan sveitar fyrir barn sem er að flytja í sveitarfélagið. Sveitarstjórn samþykkir erindið.

 

19. Svalbarðsstrandarhreppur, tillaga að breytingu á svæðisskipulagi

Bréf, dags. 27. apríl 2007, frá Svalbarðsstrandarhreppi, þar sem kynnt er tillaga um óverulega breytingu á Svæðisskipulagi Eyjafjarðar 1998-2018. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við breytinguna.

 

20. Fundargerð heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra, 4. maí 2007

Fundargerðin er í tíu liðum. Liður nr. 9c varðar Hörgárbyggð, þ.e efnistaka úr Hörgá. Lögð fram til kynningar.

 

21. Efnistaka úr Hörgá

Á síðasta fundi sveitarstjórnar (21. liður) 18. apríl 2007, var til umræðu umsókn landeigenda á Steðja og í Skriðu um efnistöku úr Hörgá í landi Steðja. Skv. því sem þá var ákveðið var leitað til Skipulagsstofnunar um hvernig með málið skuli farið. Að uppfylltum kröfum sem stofnunin taldi að gera ætti um gögn málsins og samráð við aðila var gefið út framkvæmdaleyfi fyrir umbeðinni efnistöku, sbr. framlagt afrit.

 

22. Fjölsmiðjan

Tölvubréf, dags. 4. maí 2007, ásamt greinargerð, frá fjölskyldudeild Akureyrarbæjar, þar sem kynntur er undirbúningur að stofnun atvinnuúrræðis fyrir ungt fólk, sbr. Fjölsmiðjan í Kópavogi. Lagt fram til kynningar.

 

23. Byggðarmerki, skráning hjá Einkaleyfisstofu

Á síðasta fundi sveitarstjórnar (20. liður) 18. apríl 2007 var byggðarmerki fyrir sveitarfélagið afgreitt. Það var hannað með það fyrir augum að það væri tækt til skráningar hjá Einkaleyfisstofu. Sveitarstjórn samþykkir að skrá merkið hjá Einkaleyfisstofu og vinna áfram að framgangi þess, svo það verði sem fyrst sýnilegt á skjölum sveitarfélagsins og að hægt verði að undirbúa uppsetningu skilta á sveitarfélagsmörkunum.

 

24. Skilti á sveitarfélagsmörkum

Sveitarstjórn ákvað að sett verði upp fjögur skilti á sveitarfélagsmörkum, þar sem við á, og er sveitarstjóra falið að vinna að framgangi málsins.

 

25. Skólahreysti 2007, umsókn um styrk

Bréf, ódags., frá Icefitness ehf. (Andrés Guðmundsson) þar sem óskað er eftir fjárstuðningi að upphæð kr. 50.000 til að standa straum af kostnaði við verkefnið Skólahreysti. Erindið var samþykkt þar sem talið er að verkefnið sé mjög vel til þess fallið að auka áhuga ungmenna á íþróttum almennt.

 

26. Félags íslenskra fíkniefnalögreglumanna, umsókn um styrk

Bréf, dags. 14. maí, frá Félagi íslenskra fíkniefnalögreglumanna þar sem óskað er eftir styrk til að birta auglýsingu í Morgunblaðinu 17. júní nk. Erindinu var hafnað.

 

27. Landvernd

Bréf, dags. 7. maí 2007, frá Landvernd þar kynnt er tímarit Landverndar og ritið “Skref fyrir skref”, ásamt hvatningu til skráningar í samtökin.

Lagt fram til kynningar.

 

28. Miðaldamarkaður á Gásum

Bréf, dags. 15. maí 2007, frá verkefnisstjóra Gásaverkefnisins, þar sem m.a. kemur fram að ekki hafi verkefnið um Miðaldamarkað á Gásum hafi ekki fengið styrk frá Norræna Menningarsjóðnum að þessu sinni og því sé fjármögnun Miðaldadaga á Gásum 21.-23. júlí í sumar í uppnámi. Málinu vísað til Gásanefndarinnar til úrlausnar og leggur sveitarstjórn mikla áherslu á að hægt verði að halda Miðaldadaganna í sumar eins og stefnt hefur verið að.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 23:40