Fundargerð - 15. desember 2004

Miðvikudaginn 15. desember 2004 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 60. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Ásrún Árnadóttir, Sturla Eiðsson, ásamt sveitarstjóra Helgu A. Erlingsdóttur.  Engir áheyrnarfulltrúar mættu.

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1.  Fjárhagsáætlun 2005.

Afgreiðslu fjárhagsáætlunar var frestað til næsta fundar og oddvita og varaoddvita gert að skera fjárhagáætlunina niður og leggja hana fram hallalausa.

 

2.  Fjármál, - nýtt starfsmat – afskriftir.

Nýtt starfsmat var rætt og frekari umræðum frestað til næsta fundar.

Vegna refa og minkaeyðinga var ákveðið að hætta að leita á grenjum og greiða þess í stað fasta upphæð fyrir hvert unnið dýr þ.e. fyrir hverja tófu kr. 14.000. Verð fyrir mink verður óbreytt sbr. gildandi tilboð.

Búið er að veita tvö loforð fyrir viðbótarláni, sem eru greidd úr Íbúðalánasjóði.  Hlutur sveitarfélagsins til varasjóðs Íbúðalánasjóðs vegna vegna viðbótarlána er kr. 75.000 vegna fyrri úthlutunar en kr. 60.000 vegna síðara lánsins.

 

3.  Fundargerðir:

a.  Fundargerð bókasafnsnefndar, frá 9. desember 2004.

Fundargerðin rædd og ákveðið að fela sveitarstjóra að leggja inn á reikning kr. 100.000 til síðari notkunar fyrir bókasafnið. Tölvumálum bókasafnsins var vísað til framkvæmdanefndar til skoðunar. Fundargerðin að öðru leyti afgreidd.

b.  Fundargerð skólanefndar, frá 7. desember 2004. Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.

c.  Fundargerð framkvæmdanefndar, frá 15. nóvember 2004.

Fundargerðin rædd og ákveðið að þeir kennarar sem ekki mættu til starfa 15. nóvember fengju ekki greidd laun þann dag. Fundargerðin að öðru leyti afgreidd án athugasemda.

d. Fundargerð skipulagsnefndar, frá 8. desember 2004.  Fundargerðin afgreidd án athugasemda.

e. Fundargerð félagsmálanefndar, frá 30. nóvember 2004. Afgreiðslu frestað til næsta fundar.

f.  Fundargerð búfjáreftirlits, frá 10. nóvember 2004 . Þar kemur fram að áætlaður kostnaður vegna búfjáreftirlitsins fyrir Hörgárbyggð er kr. 387.138, starfsárið 2005.

g.  Fundargerð heilbrigðisnefndar frá 6. desember 2004, lögð fram til kynningar.

     

4.  Erindi: 

a.  Erindi frá Gylfa á Ásláksstöðum um að sveitarstjórn Hörgárbyggðar veiti umsögn sína til landbúnaðarráðuneytisins um að taka Ásláksstaði úr óðalsréttarböndum. Erindi frá Bernharð Arnarsyni um að Auðbrekka II verði skráð sem lögbýli.  Bæði erindin samþykkt.

b.  Umf. Smárinn óskar eftir styrk vegna rekstrarársins 2004. Búið er að gera ráð fyrir styrk kr. 200.000 til Smáranns á fjárlögum og var sveitarstjóra falið að greiða út styrkinn.

c. Frá húsverði Mela komu fram óskir um að leiktjöld væru endurnýjuð, keypt yrðu 8 - 10 borð, útbúin tjaldsvæði og göngustígar svo frekar væri hægt að leigja [út] Mela fyrir ættarmót og fl. Samþykkt var að umbeðin borð [yrðu] keypt, annað verði athugað síðar þar sem ganga þarf fyrst frá samningum við landeiganda á Hallfríðarstöðum.

 

5. Breyting á svæðisskipulagi, bréf frá Svalbarðsstrandarhreppi, vegna breytinga á landnotkun á jörðunum Veigastöðum, Sólbergi, Geldingsá og Halllandsnesi. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar gerir ekki athugasemdir við breytingar á svæðisskipulagi vegna þessa, þar sem um óverulegar breytingar er að ræða.

 

6.  Ýmis bréf:

a.  Frá  Lýðheilsustöð.  Þar sem vakin er athygli á kynningarbæklingnum „Allt hefur áhrif, einkum við sjálf“ um það markvið að bæta lífshætti barna og fjölskyldna þeirra með áherslu á hreyfingu og góðri næringu. Lagt fram til kynningar.

b.  Frá nefnd um sameiningu sveitarfélaga.  Þar kemur fram að um-sagnarfrestur um sameiningartillögur nefndarinnar er framlengdur til a.m.k. til áramóta að beiðni allmargra sveitarstjórna.

c. Frá Menntamálaráðuneytinu, skipulag á skólahaldi.  Þar er óskað eftir upplýsingum frá sveitarstjórn með hvaða hætti skólahald verði skipulagt í einstökum sveitarfélögum út skólaárið í kjölfar verkfalls kennara. Sveitarstjóra falið að svara bréfritara í samvinnu við skólastjórnendur.

d.  Frá félagsmálaráðuneytinu, álit umboðsmanns Alþingis um sérstakra félagsþjónustu. Lagt fram til kynningar.

e.  Frá forvarnarverkefninu Vertu til.  En markmið verkefnisins er að aðstoða sveitafélög við að byggja upp forvarnastefnu/vímuvarnastefnu og finna raunhæfar leiðir til framkvæmda. Erindinu vísað til skólanefndar.

f.  Frá Hafnarsamlaginu vegna reglugerðar.  Óskað er eftir að eigendur Hafnarsamlagsins kynni sér tillögu að hafnarreglugerðinni og taki afstöðu til hennar.

g. Frá félagsmálaráðuneytinu vegna viðbótarlána.  Þar kemur fram að úthutun viðbótalána verður hætt um næstu áramót.

h.  Bréf frá Kristjáni Sveinssyni þar sem hann mótmælir álagningu gangnadagsverks, þar sem hann hafi ekki rekið kindur sínar til fjalls nokkur undanfarandi ár og frá og með haustinu 2004 séu engar kindur á Blómsturvöllum. Sveitarstjóra falið að svara bréfritara að mistök hafi verið að ræða ef svo er, því Kristján hafi aldrei tilkynnt um að hann hefði sitt fé í heimahögum.  

 

7.  Mál sem tengjast áramótum.  Innheimtumál – skuldalisti lagt fram til kynningar

8.  Mál frá fyrra fundi – sem ekki náðist að afgreiða. Frestað [enn] til næsta fundar.

 

9.  Holræsi – rotþrær. 

Ákveðið að ekki verði innheimt rotþróargjald fyrirfram eins og búið var að ákveða, heldur verði innheimt skv. reikningi fyrir hvern og einn eftir að tæming rotþróar hefur farið fram hverju sinni.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 23:54.