Fundargerð - 14. september 2002

Laugardaginn 14. september 2002 kl. 13:30 komu sveitarstjórnir Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps saman til sameiginlegs fundar í Þelamerkurskóla vegna komu Geirharðs Þorsteinssonar hönnuð Þelamerkurskóla þar sem skoða á hvernig hægt sé að nýta byggingar Þelamerkurskóla sem best, þ.e. undir sveitarstjórnarskrifstofu fyrr Hörgárbyggð og leikskóla fyrir Arnarneshrepp.

 

Mættir voru frá Hörgárbyggð þau Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir og Sturla Eiðsson.
Frá Arnarneshreppi mættu þau Jón Þór Benediktsson, Jósavin Gunnarsson, Hjördís Sigursteinsdóttir, Hannes Gunnlaugsson og Lilja Gísladóttir.

Gestir fundarins voru þeir Karl Erlendsson skólastjóri og Geirharður Þorsteinsson hönnuður bygginga Þelamerkurskóla.

 

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

 

Tvö tilboð hafa borist í póstdreifingu á laugardögum.

Frá Valdimari Gunnarssyni kr. 9000 kr. ferð fyrri vsk. og frá Hrólfi B. Skúlasyni kr. 14.460 með vsk. Helgi og Hjördís hafa haft samband við dagblöðin fyrir sunnan og athugað hvort þau villi ekki greiða fyrir dreifinguna á blöðunum á laugardögum og létu í það skína að leggja ætti niður laugardagsútburðinn ef ekki kæmi einhverjar greiðsla fyrir. Sveitarstjórnarmenn vilja ekki skerða þjónustu við íbúa sveitarfélaganna og verður því áframhald á póstdreifingu á laugardögum, en jafnframt kom fram að menn eru ekki sáttir við að dreifa dagblöðunum endurgjaldslaust. Ákveðið var því að semja við lægstbjóðanda Valdimar Gunnarsson um dreifingu pósts á laugardögum.

 

Fundarmenn fóru og skoðuðu húsnæðið á annarri hæð þar sem áður var kvennavist Þelamerkurskóla og skoða rými myndmenntastofunnar. Fundi síðan framhaldið.

Karl Erlendsson fór gegnum þær breytingar sem hafa verið gerðar í gegnum tíðina á Þelamerkurskóla. Einungis tvær hurðir í skólanum uppfylla skilyrði um brunavarnir.

Þá tók Geirharður Þorsteinsson til máls og eru hans hugmyndir þær að myndmenntastofan verði sveitarstjórnarskrifstofa þar sem auðvelt er að koma upp útiaðstöðu og inngangi utanfrá. Þar sé einnig hægt að tryggja aðgengi fatlaðra einsog skylt er við opinber stjórnsýsluhús.

Það henta ágætlega að gera leikskóla úr gömlu kvennavistinni þar sem þar er auðvelt að gera góða útiaðstöðu fyrir börnin þar sem skjól er þar á milli húsa á þrjá vegu.

Hætta getur þó verið á einhverri truflun af leikvelli leikskólabarnanna fyrir nemendur Þelamerkurskóla sem líklega er hægt að leysa til dæmis með trjágróðri.

Ef gerðar væru íbúðir úr heimavistunum eins og talað hefur verið um, þá sé það frekar óhentugt og muni alltaf hafa yfirbragð heimavistar. Betra sé því að byggja nýjar íbúðir fyrir kennara t.d. norðan við heimavistina.

 

Eftir frekari umræður urðu menn sammála um að best sé að hafa sveitarstjórnarskrifstofu á 1. hæðinni þar sem myndmenntastofan er. Byggingafulltrúi Eyjafjarðar og Geirharður eru að fara í vinnu við að fara yfir alla bygginguna varðandi aðgengismál, brunavarnir og fleira. Rýmið sem fyrirhugað sé að setja skrifstofuna í veiti ágæta möguleika þar sem lofthæð er þar mismunandi. Geirharði var falið að vinna frumdrög að breytingum á húsnæðinu fyrir sveitarstjórnarskrifstofu og það rými sem leikskóli gæti verið í. Einnig var Geirharði falið að koma fram með hugmynd að nýju anddyri fyrir skóla þar sem núverandi anddyri sé mjög óaðlaðandi.

 

Oddvitunum var falið að komast að samkomulagi um kostnaðarskiptingu vegna vinnu við hönnun og fleira vegna fyrirhugaðra breytinga og leggja fyrir sveitarstjórnirnar.

Hjördís kynnti betur þær hugmyndir að Arnarneshreppur setti á stofn leikskóla og þá helst í Þelamerkurskóla. Það væri nauðsynlegt fyrir Arnarneshrepp að geta boðið upp á leikskóla þar sem sumir foreldra geti ekki sótt sér atvinnu og hafa jafnvel haft á orði að segja sig á hreppinn.

Hjördís óskar eftir að skipuð verði nefnd til að skoða leikskólamálin í heild sinni í samvinnu við Hörgárbyggð. Í nefndinni voru þá tilnefndir frá Hörgárbyggð Guðný Fjóla Árnmarsdóttir og Sigurbjörg Jóhannesdóttir. Frá Arnarneshreppi þau Jón Þór Benediktsson og Hjördís Sigursteinsdóttir.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 16.30.