Fundargerð - 14. maí 2008

Miðvikudaginn 14. maí 2008 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 27. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.

Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1.   Fundargerð framkvæmdanefndar Þelamerkurskóla, 22. apríl 2008

Fundargerðin er í átta liðum.

Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.

 

2. Fundargerð stjórnar Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk, 22. apríl 2008

Fundargerðin er í tveimur liðum.

Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.

 

3. Ársreikningar Hörgárbyggðar, Þelamerkurskóla og Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk fyrir árið 2007, síðari umræða

Kjörnir skoðunarmenn sveitarfélagsins hafa yfirfarið ársreikningana og áritað þá. Eins og áður hefur komið fram var rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs á árinu jákvæð um 66,5 millj. kr. sem er 26% af rekstrartekjum hans. Handbært fé í árslok var 56,5 millj. kr. Fjárhagsstaða sveitarsjóðs er mjög traust, veltuhlutfall hans í árslok var 4,18.

Ársreikningarnir voru samþykktir samhljóða og undirritaðir af sveitarstjórn.

 

4. Yfirlit um rekstur og fjárhag

Lagt fram yfirlit um rekstur sveitarsjóðs á 1. ársþriðjungi 2008 og fjárhag hans 30. apríl 2008.  Þar kemur fram að rekstur sveitarsjóðs á tímabilinu var í góðu samræmi við fjárhagsáætlun og að fjárhagsstaða sveitarsjóðs í lok tímabilsins var traust.

 

5. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, 13. maí 2008

Fundargerðin er í fjórum liðum. Þrír þeirra varða fyrirliggjandi drög að aðalskipulagstillögu Hörgárbyggðar 2006-2026, þ.e. um skógræktar- og sumarhúsabyggð á óræktuðu landi á Auðnum 2, um frístundabyggð á Krossastöðum og um nýja háspennulínu frá Blöndu til Akureyrar. Fjórði liður fundargerðarinnar fjallar um gám fyrir endurvinnslupappír í íbúðabyggðinni á Lónsbakka.

Skipulags- og umhverfisnefnd felst á fyrir sitt leyti, að drögum að aðalskipulagstillögu Hörgárbyggðar verði breytt skv. þeim óskum sem fram koma í fundargerðinni og mælir með því að gámur fyrir endurvinnslupappír komi í íbúðabyggðina á Lónsbakka.

Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.

 

6. Búnaðarsamband Eyjafjarðar, verndun ræktunarlands

Lögð fram tillaga, sem gerð var á aðalfundi Búnaðarsambands Eyjafjarðar 16. apríl 2008 og felur í sér áskorun til sveitarstjórna í Eyjafirði um “að standa vörð um ræktanlegt landi í héraðinu”. Einnig lagt fram álit um málið, sem borist hefur frá Ævarri Hjartarsyni. Ef farið yrði að áskoruninni mundi að hans áliti taka að verulegu leyti fyrir sölu lands undir byggingasvæði og þar með möguleika á stækkun íbúðabyggðar.

Lagt fram til kynningar.

 

7. Gásir, skipulag

Bréf, dags. 14. apríl 2008, frá Gígju Snædal og Oddi Gunnarssyni, Dagverðareyri, þar sem gerð er athugasemd við það að gert sé ráð fyrir íbúðabyggð á Gásum í fyrirliggjandi tillögu að aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn samþykkti að fresta afgreiðslu erindisins þangað til fjallað verður um þær athugasemdir sem kunna að berast við aðalskipulagstillöguna eftir formlega auglýsingu hennar, sbr. 3. mgr. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Jóhanna María Oddsdóttir tók ekki þátt í umræðum og afgreiðslu þessa erindis.

 

8. Aðalskipulag Hörgárbyggðar 2006-2026, auglýsing á tillögu

Drög að aðalskipulagstillögu, bæði skipulagsuppdráttur og greinargerð, var kynnt á almennum fundi 2. apríl sl., sbr. ákvörðun sveitarstjórnar 19. mars 2008 (1. mál). Með þeim fundi telst lokið kynningu á aðalskipulagstillögunni, sbr. 17. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Skv. sömu lagagrein skal þá senda tillöguna til Skipulagsstofnunar til athugunar. Hafi stofnunin ekki gert athugasemdir við tillöguna innan fjögurra vikna skal tillagan auglýst óbreytt.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn samþykkir að fyrirliggjandi tillaga að aðalskipulagi Hörgárbyggðar 2006-2026 verði auglýst að lokinni athugun Skipulagsstofnunar, sbr. 17. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

 

9. Fundargerð leikskólanefndar, 4. maí 2008

Fundargerðin er í sex liðum.

Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.

 

10. Álfasteinn, starfsmannahald

Lagt fram minnisblað um starfsmannahald á Álfasteini, þar sem m.a. er óskað eftir heimild til að fjölga stöðugildum á deild um 0,6 frá 1. ágúst 2008 og auka starfshlutfall matráðs upp í 0,75. Samþykkt var að verða við beiðninni.

 

11. Skólaakstur 2008-2010, Dagverðareyri, Eyrarvík

Lagt fram minnisblað um skólaakstur í Þelamerkurskóla frá Dagverðareyri og Eyrarvík skólaárin 2008-2009 og 2009-2010.

 

12. Vinnuskóli 2008, fyrirkomulag

Lögð fram drög að samningi við Arnarneshrepp um rekstur vinnuskóla sumarið 2008 og minnisblað um fyrirkomulag vinnuskólans.

Sveitarstjóra falið að vinna áfram að málinu í samræmi við umræður á fundinum.

 

13. Brunavarnir, samstarfssamningur

Lögð fram drög að samstarfssamningi um brunavarnir milli Akureyrarbæjar annars vegar og Arnarneshrepps, Eyjafjarðarsveitar, Hörgárbyggðar og Svalbarðsstrandarhrepps hins vegar. Samningurinn byggist á samningsdrögum sem gerð voru árið 2004, en voru aldrei undirrituð, þó að þau hafi gilt í raun síðan þau voru gerð.

Sveitarstjóra var falið að ganga frá samningnum f.h. Hörgárbyggðar.

 

14. Byr, afhending stofnfjár

Bréf, dags. 21. apríl 2008, frá Byr um afhendingu stofnfjár vegna samruna Byrs og Sparisjóðs Norðlendinga. Skv. því á Hörgárbyggð kr. 14.854.444 að nafnverði stofnfjárs í Byr.

 

15. Byr, arðgreiðsla

Bréf, dags. 21. apríl 2008, frá Byr um arðgreiðslu 2008. Þar kemur fram að Byr greiddi stofnfjáreigendum sínum 44% arð og var hlutur Hörgárbyggðar kr. 11.517.454 að frádregnum fjármagnstekjuskatti.

 

16. Þjónustuhópur aldraðra, upplýsingasöfnun

Bréf, dags. 28. apríl 2008, frá þjónustuhópi aldraðra á starfssvæði Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri, þar sem óskað er eftir upplýsingum um aðstoð og þjónustu við aldraða, sbr. 8. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra.

Sveitarstjóra falið að svara bréfritara með vísan til framlagðra draga að svari við bréfinu.

 

17. Icelandic Photo Agency, myndatilboð

Bréf, dags. 14. apríl 2008, frá Icelandic Photo Agency, þar sem sveitarfélaginu er boðið upp á “heildstætt myndatilboð”.

Erindinu var hafnað.

 

18. Myndlistarsýning, beiðni um styrk

Tölvubréf, dags. 6. maí 2008, frá Jónu Hlíf Halldórsdóttur, þar sem óskað er eftir fjárstyrk til sýningarhalds á Hálsi í Öxnadal.

Samþykkt að veita kr. 30.000 styrk til verkefnisins.

 

19. Swiss International Holiday Exhibition, boð um þátttöku

Símbréf, dags. 6. maí 2008, frá Promax Comminication SA í Sviss þar sem Hörgárbyggð er boðin ókeypis þátttaka í frítímasýningu, sem haldin verður í Lugano í Sviss 30. okt. – 2. nóv. 2008. Lagt fram til kynningar.

 

20. Dagur barnsins

Bréf, dags. 2. maí 2008, frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu, þar sem gerð er grein fyrir degi barnsins á Íslandi sem verður í fyrsta sinn haldinn 25. maí 2008 og er yfirskriftin Gleði og samvera. Þar er óskað eftir að sveitarfélög leggi sitt af mörkum til dagsins og tilefni tengiliði við framkvæmdanefnd verkefnisins.

Samþykkt að fela skólastjórnendum umsjón með degi barnsins.

 

21. Fundargerð héraðsráðs, 16. apríl 2008

Fundargerðin er í sex liðum.

Lögð fram til kynningar.

 

22. Fundargerð stjórnar Eyþings, 2. maí 2008

Fundargerðin er í ellefu liðum.

Lögð fram til kynningar.

 

23. Hafnasamlag Norðurlands, aðalfundarboð

Boð um aðalfund Hafnasamlags Norðurlands sem verður 28. maí 2008 á Akureyri. Sveitarstjóra falið að sækja fundinn fh. Hörgárbyggðar.

 

24. Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar bs., aðalfundarboð

Boð um aðalfund Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar bs. sem verður 11. júní 2008 á Melum í Hörgárdal. Sveitarstjóra falið að sækja fundinn fh. Hörgárbyggðar.

 

25. Fundargerð byggingarnefndar, 6. maí 2008

Fundargerðin er í tólf liðum. 12. liður hennar varðar Hörgárbyggð, þar sem fjallað er um byggingu tækjaklefa, eimbaðs, endurgerð sundlaugar o.fl. á vegum Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk.

Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 22:33.