Fundargerð - 14. maí 2003

Miðvikudaginn 14. maí 2003 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til 32. fundar í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Ásrún Árnadóttir, ásamt sveitarstjóra Helgu A. Erlingsdóttur. Engir áheyrnarfulltrúar voru mættir.

 

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Á undan fundi var sérstakur fundur vegna skólastjóraráðningar í ÞMS. Sigurbjörg fór yfir vinnu skólanefndar og mælti skólanefnd með Önnu Lilju Sigurðardóttur. Sigurbjörg vék síðan af fundi. Sveitastjórn samþykkti síðan með leynilegri atkvæðagreiðslu að samþykkja tillögu skólanefndar með 5 atkvæðum, einn var á móti. Oddviti óskaði eftir að bæta erindi Ásgeirs Valdimarssonar inn á dagskrána undir lið 4b og var það samþykkt.

 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1. Fundargerðir

 

a)   Fundargerð 37. fundur sveitarstjórnar, lögð fram til kynningar.

b)   Fundargerð fjallskilanefndar frá 14. apríl, lögð fram til kynningar.

c)   Almennur fundur um fjallskilamál frá 25. apríl, lögð fram til kynningar.

d)   Sameiginlegur fundur sveitarstjórna Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar frá 26. apríl. Lögð fram til kynningar.

e)   Fundargerð framkvæmdanefndar frá 30. apríl 2003, afgreidd án athugasemda.

f)   Fundargerð Eyþings frá 14. apríl 2003, lögð fram til kynningar.

g)   Frá héraðsnefnd. 193. fundur héraðsráðs frá 9. apríl sl. og 56. fundur Sorpeyðingar Eyjafjarðar frá 31. mars sl. og 57. fundur Sorpeyðingar Eyjafjarðar frá 7. apríl 2003 lagðar fram til kynningar.

h)   Fundargerð byggingarnefndar frá 6. maí sl. 2003 lögð fram og samþykkt.

i)    Fundargerð Hafnarsamlags Norðurlands frá 12. maí 2003 lögð fram til kynningar.

 

2. Ýmis erindi lögð fram til kynningar

a) Fréttatilkynning frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar, lögð fram til kynningar. Samþykkt að sveitarstjóri fari á aðalfund félagsins 26. maí nk.

 

b) Samningur um stofnanaþjónustu fyrir aldraða. Samningurinn er að renna út og verður hann framlengdur á svipuðum nótum. Helgu falið að vinna að málinu og ganga frá samningi við Akureyrarbæ.

 

c) Þjónustusamningur við talmeinafræðinga milli Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar og talmeinafræðinga á Furuvöllum lagður fram til kynningar. Samþykkt að gjaldsskráin verði höfð til viðmiðunar þegar slík þjónusta er keypt í Hörgárbyggð.

 

d) Fjárhagsáætlun leikskólans – útfærð sundurliðuð áætlun lögð fram á fundinum.

 

e) Samningur um heitavatnslögn, lögð fram til kynningar.

 

3. Styrkbeiðnir

a)   Gigtarfélag Íslands, hafnað

b)   Sjálfsbjörg, landsamband fatlaðra, hafnað

c)   Ævintýraklúbburinn, hafnað

 

4. Tónlistarhátíð í Skjaldarvík

Umsókn um leyfi til að halda útihátíð í Skjaldarvík. Sveitarstjóra og oddvita falið að kynna sér málin áður en sveitarstjórn ákveði hvort hún heimili slíka hátíð í Hörgárbyggð.

 

5. Frístundahús í landi Tréstaða

Kaupsamningur milli ábúenda á Tréstöðum og Kaupþing – banka á 9 hektara landspildu úr landi Tréstaða. Sveitarstjóra heimilað að samþykkja söluna og einnig að samþykkja framkvæmdaleyfi á umræddri landspildu. Hvað varðar ósk ábúenda um að taka umrætt land úr landbúnaðarnotkun þá var erindið samþykkt samhljóða.

 

6. Minka- og refaveiðar

Fram kom að umhverfisráðuneytið greiðir verðlaun fyrir hvern unninn mink kr. 3.000, ref kr. 7.000 og fyrir yrðlinga kr. 1.600. Sveitarstjórn ákvað að greiða sama taxta fyrir veiðarnar og var í gildi í Hörgárbyggð á síðasta ári.

 

7. Vinnuskóli

14 börn sóttu um vinnuskólann í sumar. Samþykkt að auglýsa eftir leiðbeinanda við vinnuskólann í næsta fréttabréfi og bjóða íbúum sveitarfélagsins að nýta sér vinnu vinnuskólans gegn gjaldi. Á fjárhagsáætlun er kr. 500.000 ráðstafað í þennan málaflokk.

 

8. Sorpáætlun fyrir Eyjafjörð

Eftirfarandi bókun var samþykkt sem drög að svarbréfi til Sorpeyðingar Eyjafjarðar:

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar hefur tekið fyrir áætlun Sorpeyðingar Eyjafjarðar bs. fyrir Eyjafjörð 2003-2006 og greinargerð Sorpeyðingar um skipulag sorphirðu og -förgunar í Eyjafirði.

Sveitarstjórnin er samþykk áætluninni og eins er hún sammála skipulagi um sorphirðu og sorpeyðingu í stórum dráttum, en hefði viljað að sorpbrennsla með öðrum sveitarfélögum á Norðurlandi væri einnig úrræði í sorpeyðingu sem væri vel skoðað.

Sveitarstjórn er ánægð með fyrirliggjandi kynningargögn Sorpeyðingar Eyjafjarðar og á vinnu sem þar hefur sýnilega verið unnin.

Sveitarstjórn telur sjálfsagt að verja fjármunum til kynningar- og leiðbeiningarstarfs um flokkun úrgangs og meðhöndlun hans á svæði félagsins. Hún er samþykk því að stutt verði við að lífrænn úrgangur verði jarðgerður á heimilunum.

Sveitarstjórn hefur ásett sér að vinna að því að koma upp starfrækslu gámastaða fyrir endurvinnanlegt sorp í sveitarfélaginu eins og kostur er og leggja áherslu á að íbúar sveitarfélagsins flokki sitt sorp í samræmi við samþykkt um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra.

Helgu og Birnu falið að vinna áfram að sorpmálum Hörgárbyggðar.

 

9. Ársreikningur 2002

Helga fór yfir útskrift á aðalbók Hörgárbyggðar fyrir árið 2002. Reikningarnir voru lagðir fram til fyrri umræðu.

 

Aðalbók fyrir Þelamerkurskóla var lögð fram til fyrri umræðu.

 

Sveitarstjórnarfundir í júní eru ákveðnir 4. júní í ÞMS og 18. júní á Melum.

 

Ákveðið að laun sveitarstjórnar og nefndarmanna í Hörgárbyggð verði óbreytt út árið 2003, þrátt fyrir hækkun þingfararkaups. Greiða á sveitarstjóra sömu eftirvinnu og hún hefur haft síðastliðna mánuði.

 

 

Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið kl. 00:25.