Fundargerð - 07. maí 2009

Fimmtudaginn 7. maí 2009 kl. 14:40 kom framkvæmdanefnd Þelamerkurskóla saman til fundar í skólanum. Á fundinum voru Axel Grettisson, Helgi Bjarni Steinsson, Ingileif Ástvaldsdóttir og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem skrifaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Ársreikningur fyrir árið 2008

Lagður fram ársreikningur Þelamerkurskóla fyrir árið 2008. Skv. ársreikningnum urðu rekstrartekjur skólans á árinu alls 14,3 millj. kr. og rekstrargjöld urðu alls 121,5 millj. kr. á árinu. Framlög sveitarfélaganna urðu því alls 107,1 millj. kr. Um er að ræða nokkra lækkun frá fyrra ári, þar sem húsaleigutekjur minnkuðu verulega og samsvarandi fækkun varð á viðhaldsverkefnum í skólanum.

Ársreikningurinn var yfirfarinn og síðan staðfestur af framkvæmdanefndinni og skólastjóra.

 

2. Rekstur undanfarna mánuði

Lagt fram lauslegt yfirlit yfir rekstur Þelamerkurskóla janúar – mars 2009. Það sýnir að reksturinn er í stórum dráttum í samræmi við áætlanir, að undanskildum rekstri mötuneytis. Þar er hráefniskostnaður nokkru hærri en gert var ráð fyrir.

 

3. Samningur um öryggisgæslu

Lagðir fram samningar við Securitas um uppsetningu og rekstur öryggiskerfis, sbr. 1. lið í fundargerð framkvæmdanefndarinnar 11. febr. 2009. Þann 4. apríl 2009 var brotist inn í skólann og í framhaldi af því var samningurinn gerður.

 

4. Ráðstöfun íbúða

Gerð grein fyrir stöðunni í útleigu íbúða í skólanum.

Skólastjóra var veitt umboð til að leita eftir tilboðum frá orlofssjóðum stéttarfélaga í útleigu einnar íbúðar sem orlofsíbúðar.

 

5. Samningur um afnot skólans af íþróttamannvirkjunum

Lögð fram drög að samningi milli Þelamerkurskóla og Íþróttamiðstöðvarinnar um afnot skólans af íþróttamannvirkjunum fyrir íþróttakennslu. Endurskoðandi Íþróttamiðstöðvarinnar hefur bent á nauðsyn þess að slíkur samningur sé til staðar.

Framkvæmdanefndin samþykkti drögin fyrir sitt leyti.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 15:05