Fundargerð - 06. nóvember 2012

Þriðjudaginn 6. nóvember 2012 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Hanna Rósa Sveinsdóttir, Anna Dóra Gunnarsdóttir, Birna Jóhannesdóttir og Róbert Fanndal í skipulags- og umhverfisnefnd og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Fjárhagsrammi 2013

Gerð grein fyrir þeim fjárhagsramma sem nefndinni ber að vinna með vegna fjárhagsáætlunar fyrir árið 2013, sbr. 9. gr. erindisbréfs nefndarinnar. Fjárhagsramminn er 20 millj. kr., skv. samþykkt sveitarstjórnar 20. júní 2012. Farið var yfir þau viðfangsefni sem heyra undir nefndina og lögð drög að áætlun um heildarfjárhæð fyrir hvert þeirra. Þrír málaflokkar heyra undir nefndina, þ.e. (1) hreinlætismál, (2) skipulags- og byggingamál og (3) umhverfismál.

 

2. Fundargerð samráðshóps um skipulagsmál á sveitarfélagsmörkum Hörgársveitar og Akureyrar

Lögð fram til kynningar fundargerð fundar samráðshóps um skipulagsmál á sveitarfélagsmörkum Hörgársveitar og Akureyrarkaupstaðar, sem haldinn var 11. október 2012. Fundargerðin er í sex liðum, sem hér segir: (1) Aðalskipulag fyrir Hörgársveit, (2) framtíðaríbúðarsvæði, (3) staðsetning þjóðvegar við sveitarfélagsmörk, (4) tengingar gönguleiða milli Akureyrarkaupstaðar og Hörgársveitar, (5) tengingar reiðleiða milli Akureyrarkaupstaðar og Hörgársveit-ar og (6) hafnsækin starfsemi.

 

3. Akureyri, tillaga um breytta legu reiðleiða

Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 27. mars 2012 var lagt fram bréf frá Akureyrarbæ þar sem gerð er grein fyrir tillögu að breytingu á legu reiðleiða í norður frá Akureyri. Nefndin frestaði að taka efnislega afstöðu til málsins uns það hafi fengið umfjöllun í samráðshópi um skipulagsmál á sveitarfélagsmörkum Hörgársveitar og Akureyrarkaupstaðar. Fram kom á fundinum sem haldinn var 11. október 2012 það álit fundarmanna að eðlilegt sé að reiðleið norður frá Akureyri liggi samsíða Hlíðarvegi (vegi nr. 818).

Skipulags- og umhverfisnefnd bendir á að í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir að megninreiðleið í norður frá Akureyri liggi samsíða Hlíðarvegi (veg nr. 818).

 

4. Skútar /Moldhaugar, tillaga að deiliskipulagi

Lögð fram að nýju tillaga að deiliskipulagi fyrir iðnaðarsvæði og efnistökusvæði í landi Skúta og Moldhauga ásamt greinargerð og umhverfisskýrslu. Tillagan nær m.a. yfir allt land Skúta. Lýsing á skipulagsverkefninu var afgreidd til kynningar af skipulags- og umhverfisnefnd 11. apríl 2012 og sú afgreiðsla síðan staðfest af sveitarstjórn 18. apríl 2012. Eins og þá kom fram er efnislega um að ræða sama deiliskipulag og var afgreitt af nefndinni til sveitarstjórnar 6. apríl 2011.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að fyrirliggjandi tillaga að deiliskipulagi fyrir Skúta/Moldhauga verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

5. Lónsbakki, lýsing á skipulagssverkefni

Lögð fram drög að lýsingu á skipulagsverkefninu „Lónsbakki, deiliskipulag“.  Málið var áður á dagskrá skipulags- og umhverfisnefndar 10. nóvember 2009, 13. janúar, 11. maí og 22. september 2010.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að fyrirliggjandi lýsing á  skipulagsverkefninu „Lónsbakki, deiliskipulag“, með þeim breytingum sem gerðar voru á henni á fundinum, verði kynnt, sbr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

6. Aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024, umræða

Lögð fram drög að nýrri tímaáætlun fyrir lokaáfanga við gerð aðalskipulags fyrir Hörgársveit. Þá var lögð fram yfirlýsing, dags. í október 2012, frá Brynjólfi Snorrasyni o.fl. þar sem því er lýst yfir að bréfritarar muni ekki leyfa að lögð verði 220 kV raflína í lofti um eignarlönd þeirra. Ennfremur var lagt fram bréf, dags. 4. nóvember 2012, frá Ólafi Valssyni og Sif Konráðsdóttur, þar sem gerð er grein fyrir athugunum þeirra á framtíðaráformum um orkuflutninga um sveitarfélagið.

 

7. Fundur um sorphirðumál

Skv. gildandi skipulagi sorphirðu í sveitarfélaginu ber að halda almennan upplýsingafund um úrgangsmál í nóvember árlega.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að að stefna að almennum fundi um úrgangsmál í mars 2013.

 

8. Tilllaga að landsskipulagsstefnu 2013-2024, ósk um umsögn

Lagt fram bréf, dags. 24. september 2012, frá Skipulagsstofnun, þar sem óskað er eftir umsögn um fyrirliggjandi tillögu að landsskipulagsstefnu 2013-2024. Meginefni tillögunnar varðar skipulagsmál á miðhálendi Íslands, búsetumynstur og dreifingu byggðar og skipulag á haf- og strandsvæðum.

 

9. Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018, tillaga að breytingu

Lagt fram bréf, dags. 15. október 2012, frá Akureyrarbæ þar sem gerð er grein fyrir tillögu að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018. Breytingin varðar tilfærslu á þéttbýlismörkum ofan byggðar.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd við fyrirliggjandi tillögu að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar, að öðru leyti en því að sveitarfélagsmörk Akureyrarkaupstaðar og Hörgársveitar eru ekki rétt dregin á uppdráttunum, auk þess sem nafn síðarnefnda sveitarfélagsins á uppdráttunum er rangt.

 

10. Kaffi Lísa, beiðni um að breyta notkun

Lagt fram bréf, dags. 10. október 2012, undirritað af Elísabet Guðbjörnsdóttir þar sem óskað er eftir að heimild til að breyta notkun fasteignarinnar sem Kaffi Lísa er í á Hjalteyri í „sumardvalarstað“. Óskin er samhljóða ósk sem fram kom í bréfi frá sama bréfritara, dags. 8. október 2010, til sveitarfélagsins. Erindinu var þá hafnað.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að skipulagslegri skilgreiningu svæðisins, sem Kaffi Lísa stendur á, verði ekki breytt.

 

11. Minkaveiðar

Lagt fram bréf, dags. 29. október 2012, frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar (AFE) um fyrirkomulag minkaveiða í Eyjafirði að loknu sérstöku minkaveiðiátaki sem stóð yfir á árunum 2007-2010. Árangur átaksins var góður þannig að mink var nánast útrýmt úr héraðinu. Þegar átakinu lauk kom fram sú hugmynd að sveitarfélögin tækju sig saman á vettvangi AFE um að verja þá stöðu sem upp var komin í þessum efnum. Skv. bréfinu gerir AFE ráð fyrir að halda eftir endurgreiðslu ríkisins vegna minkaveiðanna í viðkomandi sveitarfélögum vegna umsýslu málsins, en að að öðrum kosti sjái hvert sveitarfélag um minkaveiðinu á sínu svæði.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að Hörgársveit taki að sér umsjón með minkaveiði í sveitarfélaginu.

 

12. Ársfundur Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefnda 2012

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 30. október 2012, frá Umhverfisstofnun þar sem boðað er til ársfundar Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefnda sveitarfélaga 2012. Ársfundurinn verður 13. nóvember 2012 í Miðgarði í Skagafirði.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 23:15