Fundargerð - 05. september 2006

Þriðjudaginn 5. september 2006 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 4. fundar í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.

Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.  

 

1. Ráðning refaveiðimanna

Lögð voru fram drög að samningi við Hannes Haraldsson og Helgi Jóhannesson um refaveiðar í Hörgárbyggð, sbr. samþykkt síðasta sveitarstjórnarfundar.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn samþykkir að ráða Hannes Haraldsson og Helga Jóhannesson sem refaveiðimenn sveitarfélagsins til fjögurra, með þriggja mánaða uppsagnaákvæði, á grundvelli framlagðra samningsdraga þar að lútandi. Samningurinn gildir frá 1. september 2006.

 

2. Leikskólavist utan sveitarfélagsins

Lagt fram bréf frá Andreu Keel, Pétursborg, dags. 19. ágúst 2006, þar sem hún óskar eftir að veitt verði heimild fyrir leikskólavist í leikskólanum Brúsabæ á Hólum í Hjaltadal.

Eftirfarandi bókun var samþykkt

Sveitarstjórn samþykkir að greiða mótframlag vegna leikskóladvalar Lindu Bjargar Kristjánsdóttur veturinn 2006-2007, á Brúsabæ Hólum Hjaltadal, í samræmi við viðmiðunargjaldskrá Sambands ísl. sveitarfélaga.

 

3. Lausaganga búfjár við veg nr. 818

Lagt fram bréf frá Valdísi Jónsdóttur, Hraukbæjarkoti, dags. í júlí 2006, þar sem óskað er eftir að fundin verði varanleg lausn á lausagöngu fjár við veginn fyrir neðan bæjarröðina frá Syðsta-Samtúni til Ásláksstaða. Einnig var lagt fram minnisblað um málið, dags. 23. ágúst 2006.

Eftirfarandi bókun var samþykkt :

Sveitarstjórn samþykkir að vorið 2007 verði kannað ástand þeirra fjallsgirðinga í sveitarfélaginu, sem ábendingar hafa borist um veikleika á. Niðurstöður könnunarinnar verði lögð fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu. Jafnframt beinir sveitarstjórn þeirri áskorun til landeigenda að fjallsgirðingar þeirra séu í góðu lagi.

 

4. Gásaverkefnið, stjórnsýsla

Lagt fram bréf frá Héraðsnefndar Eyjafjarðar, dags. 1. sept. 2006, þar sem fram kemur sú ósk héraðsráðs að sveitarstjórn Hörgárbyggðar taki að sér ábyrgð á Gásaverkefninu og annist stjórnsýslu þess.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn samþykkir að óska eftir  fundi með starfsmanni Gásaverkefnisins og safnstjóra Minjasafnsins á Akureyri til að fara yfir stöðu verkefnisins og möguleika sem í því kunna að felast fyrir menningartengda ferðaþjónustu í sveitarfélaginu og héraðinu öllu.

 

5. Skjalavarsla sveitarfélagsins

Rætt um framtíðarfyrirkomulag á skjalavörslu sveitarfélagsins, m.a. með tilliti til krafna upplýsingalaga og skilvirkrar stjórnsýslu. Lögð voru fram tvö tilboð í skjalavörslukerfi, auk þess sem gert var grein fyrir bráðabirgðafyrirkomulagi sem notað hefur verið síðustu misseri.

Ákveðið var að málið verði skoðað nánar.

 

6. Hraun í Öxnadal, fólkvangur

Lagt fram bréf frá Hrauni í Öxnadal ehf., dags. 28. ágúst 2006, þar sem óskað er eftir því að sveitarfélagið beiti sér fyrir því að stofnaður verði fólkvangur í landi Hrauns.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn samþykkir að vísa beiðni Hrauns í Öxnadal ehf. um fólkvang til skipulags- og umhverfisnefndar til umfjöllunar við yfirstandandi aðalskipulagsgerð og felur nefndinni að hefja undirbúning fyrir stofnun fólkvangsins.

 

7. Svæðisskipulag Eyjafjarðar 1998-2018, endurskoðun

Lagt fram bréf frá Héraðsnefnd Eyjafjarðar, dags. 24. ágúst 2006, þar sem vakin er athygli á þeirri lagaskyldu sveitarstjórna að meta hvort nauðsynlegt sé að endurskoða gildandi svæðisskipulag héraðsins.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar telur að ekki sé brýn þörf á að endurskoða Svæðisskipulag Eyjafjarðar 1998-2018 á yfirstandandi kjörtímabili, eins og sakir standa, og bendir á aðeins eru 4 ár síðan það var staðfest. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar mun þó að taka þátt í slíkri endurskoðun, komi fram þar að lútandi almennur vilji annarra aðildarsveitarfélaga og haldbær rök.

 

8.  Birkihlíð, frágangur götu

Rætt um gerð gangstétta við Birkihlíð, en þær voru undanskildar í samningi við Kötlu ehf. um gatnagerðina.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn samþykkir að lokið verði við frágang gangstétta við Birkihlíð í haust, ef veðrátta leyfir. Frágangur verði sá að sleppa kantsteini en láta gangstéttarmalbikið mynda brún við götuna. Einnig var ákveðið að klára frágang austan við Skógarhlíðina vegna lóðanna við Birkihlíð.

 

9. Slökkvun götuljósa og annarra ljósa

Lagt fram bréf frá Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, dags. 24. ágúst 2006, þar sem óskað er eftir því að öll götuljós  og önnur ljós í eigu sveitarfélagsins verði slökkt í hálfa klukkustund að kvöldi 28. september nk.

Lagt fram til kynningar.

 

10. Varasjóður húsnæðismála

Lagt fram til kynningar bréf frá Varasjóði húsnæðismála, dags. 23. ágúst 2006, þar sem fram koma  upplýsingar um starfsemi sjóðsins.

 

11. Kosning í stjórn búfjáreftirlits 18. svæðis

Ármann Búason var einróma kosinn fulltrúi Hörgárbyggðar í stjórn búfjáreftirlits 18. svæðis á yfirstandandi kjörtímabili.

 

12.       Kosning í skólanefnd Tónlistarskóla Eyjafjarðar

Gylfi Jónsson var kosinn fulltrúi Þelamerkurskóla í skólanefnd Tónlistaskóla Eyjafjarðar á yfirstandandi kjörtímabili og til vara Guðjón Rúnar Ármannsson.

 

13. Kosning eins aðalmanns á aðalfund Eyþings

Guðmundur Sigvaldason var kosinn aðalmaður á aðalfund Eyþings í stað Odds Gunnarssonar, þar sem skv. lögum Eyþings þarf viðkomandi að vera aðal- eða varamaður í sveitarstjórn, eða vera framkvæmdastjóri sveitarfélags.

 

14. Fundargerð héraðsráðs 16. ágúst 2006

Fundargerðin er í sjö liðum. Í fimmta dagskrárlið hennar er fjallað um það atriði sem varðar Hörgárbyggð mestu, þ.e. Gásaverkefnið – stjórnsýsla þess og ábyrgð, sjá 4. dagskrárlið.

Fundargerðin afgreidd án athugasemda.

 

15. Fundargerð héraðsráðs 30. ágúst 2006

Fundargerðin er í sex liðum. Helstu atriði hennar varða moltugerð og samning við RHA um úttekt á núverandi samstarfi sveitarfélaga í Eyjafirði, auk Gásaverkefnisins.

Fundargerðin afgreidd án athugasemda.

 

16. Fundargerð bygginganefndar 18. ágúst 2006

Fundargerðin er í níu liðum. Liðir nr. 8 og 9 í fundargerðinni varða Hörgárbyggð, þ.e. um viðbyggingu við verslunarhúsið á Lónsbakka og um byggingu 9 fermetra bjálkahúss á sumarhúsasvæðinu á Steðja. Bygginganefnd samþykkti bæði erindin fyrir sitt leyti.

Fundargerðin afgreidd án athugasemda.

 

17. Fundargerð stjórnar Eyþings 21. ágúst 2006

Fundargerðin er í tíu liðum. Fundargerðin var afgreidd án athugasemda.

 

18. Fundargerð fjallskilanefndar 21. ágúst 2006

Fundargerðin er í fimm liðum. Fundargerðin rædd og hún afgreidd eftir umræðu um gangnafyrirkomulag.

 

19. Fundargerð fjallskilanefndar 27. ágúst 2006

Fundargerðin er í fjórum liðum. Hún var afgreidd án athugasemda.

 

20. Erindi frá Guðmundi Jósavinssyni í Árhvammi

þar sem hann sækir um niðurfellingu á dagsverki með vísan til 17. fjallskilareglugerðar. Sveitarstjórn fellst á að verða við erindinu.

 

21. Hækkun viðmiðunarverð fasteignamats vegna fjallskila, mótmæli

Lagt fram bréf frá Sigurði Gíslasyni og Ásrúnu Árnadóttur, Steinsstöðum II, dags. 5. sept. 2006, þar sem mótmælt er hækkun viðmiðunarverðs fasteignamats fyrir þá sem eru undanþegnir fjallskilum, sbr. fundargerð sveitarstjórnar 16. ágúst 2006.

Oddvita falið að leysa málið.

 

22. Samningur um sérfræðiþjónustu vegna bókasafnskerfis

Lögð fram drög að samningi um sérfræðiþjónustu vegna bókasafnskerfis við Landskerfi bókasafna hf. Samningurinn gerir ráð fyrir að bókasafn Þelamerkurskóla fái aðgang og þjónustu frá miðlægu bókasafnskerfi sem nefnist Gegnir. Hann gerir ráð fyrir að þjónustugjald sé 12,37 kr. (án vsk.) á íbúa á mánuði.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn samþykkir að gerður verði samningur um sérfræðiþjónustu vegna bókasafnskerfis, sbr. framlögð drög, og að gerður verði samningur við Þelamerkurskóla um fjármögnun hans.

 

Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið kl. 23:23