Fundargerð - 03. desember 2008

Miðvikudaginn 3. desember 2008 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 33. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.

Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

 

Helgi Steinsson bað fundarmenn að standa á fætur og minnast Odds Gunnarssonar fv. oddvita og bónda á Dagverðareyri, sem lést 30. nóvember sl. Sveitarstjórn sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1. Fundargerð leikskólanefndar, 17. nóv. 2008

Fundargerðin er í þremur liðum. Hún var áður á dagskrá 19. nóv. 2008, en afgreiðslu hennar þá frestað.

Fundargerðin rædd og afgreidd en 2. liður hennar er afgreiddur hér undir næsta lið.

 

2. Álfasteinn, starfsmannahald

Lagt fram minnisblað um breytingu á starfsmannahaldi á Álfasteini, sbr. fundargerð leikskólanefndar 17. nóv. 2008.

Samþykkt að fjölga heimiluðum stöðugildum á Álfasteini um 0,50 frá og með 1. janúar 2009.

 

3. Fundargerð stjórnar Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk, 28. nóv. 2008

Fundargerðin er í þremur liðum. Í 3. lið fundargerðarinnar eru drög að fjárhagsáætlun Íþróttamiðstöðvarinnar tekin fyrir og afgreidd.

Fundargerðin rædd og afgreidd. Fjárhagsáætlun fyrri umræða.

 

4. Fundargerð framkvæmdanefndar Þelamerkurskóla, 28. nóv. 2008

Fundargerðin er í tveimur liðum. Í 1. lið fundargerðarinnar eru drög að fjárhagsáætlun Þelamerkurskóla tekin fyrir og afgreidd.

Fundargerðin rædd og afgreidd. Fjárhagsáætlun fyrri umræða.

 

5. Álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2009

Tölvubréf, dags. 2. desember 2008, frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um útsvarsprósentu.

Samþykkt að álagningarprósenta útsvars verði óbreytt frá árinu 2008, þ.e. 13,03%.

 

6. Álagningarhlutföll fasteignagjalda fyrir árið 2009

Sveitarstjórn ákvað að álagningarhlutfall fasteignaskatts skv. a-lið og c-lið á árinu 2009 verði þau sömu og á árinu 2008, þ.e. a-gjald 0,40% og c-gjald 1,40% af fasteignamati. Skv. lögum verður fasteignaskattur skv. b-lið 1,32% af fasteignamati. Ákveðið var að álagningarhlutfall holræsagjalda á árinu 2009 verði það sama og á árinu 2008 þ.e. 0,18% af fasteignamati. Afsláttur elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti verði að hámarki kr. 33.000 vegna eigin íbúðar, auk þess allt að kr. 11.500 tekjutengds viðbótarafsláttar, sbr. sérreglur þar um. Vatnsgjald verður áfram innheimt fyrir Norðurorku hf. eins og á árinu 2008. Sorphirðugjald heimila verður kr. 18.000 annars staðar en á lögbýlum þar sem búskapur er stundaður. Á lögbýlum þar sem búskapur er stundaður verður gjaldið kr. 27.000.

 

7. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2009, fyrri umræða

Lögð fram drög að fjárhagsáætlun aðalsjóðs, eignasjóðs og fráveitu Hörgárbyggðar fyrir árið 2009.

 

8. Fundargerð fjallskilanefndar, 26. nóv. 2008

Fundargerðin er í fjórum liðum.

Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.

 

9. Menningar- og sögutengd starfsemi

Lagt fram minnisblað, dags. 10. nóv. 2008, þar sem gerð er tillaga um tilraunaverkefni sem lýtur að samstarfi um rekstur menningar- og sögutengdrar starfsemi á Hörgársvæðinu.

Málið verður skoðað síðar.

 

10. Alþjóðahús á Norðurlandi, þjónustusamningur

Lögð fram drög að þjónustusamningi milli Hörgárbyggðar og Alþjóðahúss á Norðurlandi ehf., sbr. samþykkt sveitarstjórnar 15. okt. 2008 (20. mál).

Sveitarstjóra falið að undirrita drögin f.h. Hörgárbyggðar.

 

11. Ungmennasamband Eyjafjarðar, styrkbeiðni

Bréf, dags. 13. nóv. 2008, frá Ungmennasambandi Eyjafjarðar, þar sem óskað er eftir fjárstyrk til verkefna sambandsins á árinu 2009.

Sveitarstjórn samþykkti að greiða kr. 550 pr. íbúa til UMSE vegna ársins 2009.

           

12. Snorraverkefnið, styrkbeiðni

Bréf, dags. 25. nóv. 2008, frá Snorrasjóði, þar sem óskað er eftir fjárstyrk til Snorraverkefnisins á árinu 2009.

Erindinu hafnað.

 

13. Blöndulína 3, tillaga að matsáætlun

Bréf, dags. 16. okt. 2008, frá Skipulagsstofnun, þar sem óskað er eftir umsögn um tillögu að matsáætlun vegna Blöndulínu 3. Lögð fram drög að umsögn sem send höfðu verið sveitarstjórnarfulltrúum til athugunar 30. okt. 2008.

Sveitarstjórn samþykkti framlögð drög að umsögn um framkomna tillögu að matsáætlun vegna Blöndulínu 3.

 

14. Þelamörk og Hörgárdalur, lagning hita- og vatnsveitu

Lagt fram afrit af tölvubréfi, dags. 19. nóv. 2008, frá deildarstjóra markaðs- og þjónustudeildar Norðurorku til deildarstjóra framkvæmdadeildar sama fyrirtækis um forkönnun á lagningu hitaveitu og vatnsveitu um Þelamörk og hluta Hörgárdals. Lagt er til að kostnaði við forkönnunina verði skipt til helminga milli Hörgárbyggðar og Norðurorku. Tilboðs í forkönnunina verður aflað, þannig að kostnaður mun liggja fyrir áður en hún hefst.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti að aflað yrði tilboða í forkönnun vegna nefndra hitaveitu áforma.

           

15. Ungmennaráð

Á fundi sveitarstjórnar 15. okt. 2008 var rætt um bréf, dags. 20. sept. 2008, frá Umboðsmanni barna, um ungmennaráð í sveitarfélaginu. 

Ákveðið var að skoða málið síðar.

 

16. Fundargerð héraðsráðs, 19. nóv. 2008

Fundargerðin er í þremur liðum.

Lögð fram til kynningar.

 

17. Fundargerð stjórnar Eyþings, 27. nóv. 2008

Fundargerðin er í fimm liðum.

Lögð fram til kynningar.

           

18. Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum

Bréf, dags. 1. des. 2008, frá Stofnun Sæmundar fróða og ráðgjafarstofunni Rainrace þar sem kynnt er bókin Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum. Í bókinni eru almennar leiðbeiningar til sveitarfélaga um neyðaraðstoð og endurreisn í kjölfar náttúruhamfara, bókin mun liggja fram á skrifstofu sveitarfélagsins.

Lagt fram til kynningar.

           

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 23:15