Fundargerð - 01. mars 2005

Mættir eru: Logi Geir Harðarson, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Guðrún Harðardóttir (varamaður fyrir Borghildi Freysdóttur), Helgi Helgason, Hugrún Hermannsdóttir og Helga Erlingsdóttir og Sigríður Síta sem sátu fundinn að hluta til.

 

1. Barngildi í mars 2005:  Hugrún og Sigríður Síta fara yfir skýrslu um barngildi í mars 2005. Barngildi hefur verið 2,28 að undanförnu en starfshlutfallið 2,0 og hefur það verið látið sleppa. Núna hafa barngildin farið upp í 2,55 sem þýðir að ráða þarf starfsmann frá klukkan 09:00 til klukkan 13:00. Við það fer starfshlutfallið upp í 2,80 sem er þá aðeins yfir barngildinu í dag. Ein umsókn um pláss liggur frammi frá barni úr Arnarneshreppi. Ef það verður tekið inn verður leikskólinn aftur á móti fullnýttur. Hugrún fer þess á leit að fá að ráða Herdísi K. Bjarnadóttur, sem starfar nú í afleysingum við leikskólann, í þessa tilteknu stöðu. Leikskólanefnd leggur til að Hugrúnu verði veitt umboð til að ráða Herdísi til 1. maí til að byrja með. Leikskólanefnd leggur til að staðan verði endurskoðuð fyrir þann tíma með hliðsjón af því hvort börnum fækki í leikskólanum yfir sumartímann. 

 

Þá leggur leikskólanefnd til að leikskólinn verði fullnýttur nú sem áður. Leikskólanefnd leggur til að umsókn fyrir barn úr Arnarneshreppi verði samþykkt. Leikskólaplássið verður þó aðeins hægt að veita með skilyrðum um uppsögn frá 1. september þar sem biðlisti er inn í leikskólann. Á þeim biðlista eru börn úr Hörgárbyggð sem ganga fyrir samkvæmt reglum leikskólans. Er þetta í samræmi við núgildandi dvalarsamning leikskólans.

 

Hugrún segir að tilraun með að bjóða upp á leikskólapláss annan hvern dag þ.e. mánud.og miðvikud. annarsvegar og þriðjud og fimmtud  hinsvegar + annan hvern  föstudag hafi mælst vel fyrir. Þannig verður til samanlagt ½ pláss. Fyrirkomulagið var sett upp m.a til að koma á móts við þá sem búa langt frá leikskólanum. Boðið verður upp á slík pláss áfram.

 

2. Sumarið 2005: Rætt um vanda sem hefur stundum skapast í rekstri leikskólans vegna uppsagna á plássum yfir sumartímann. Leikskólastjórn telur erfitt að setja reglur um það hvenær megi segja plássi upp og hvenær ekki. Ekki talið að þetta vandamál verði uppi á næstunni þar sem leikskólinn sé fullnýttur núna og biðlisti sé inn á leikskólann í haust. Börn sem hætta yfir sumarið fara því aftast á þann lista, því ekki sjálfgefið að þau fái pláss aftur að hausti.

 

3. Viðhald og endurbætur í sumar: Hugrún ítrekar að enn eigi eftir að breikka rólur og gera við undirlagið undir rólunum samkvæmt kröfu heilbrigðisyfirvalda. Endurbæturnar eru á fjárhagsáætlun fyrir árið 2005 og var Hugrúnu því falið að sjá um að þær úrbætur yrðu framkvæmdar. 

 

Hugrún segir frá því að mála þurfi “sjónlínur” á gangstéttabrúnir, staura og fl. vegna barns með sérþarfir. Talið að um létta málningarvinnu sé að ræða sem hentaði unglingavinnunni vel ef hún yrði starfrækt næsta sumar.

Hugrún minnir á endurbætur sem hún telur að þurfi að gera á nokkrum rúðum í leikskólanum þar sem móða er komin á milli glerja. Helga segir að þær endurbætur séu á hendi eignarsjóðs sveitarfélagsins og bendir Hugrúnu á að senda inn skriflegt erindi til sveitarstjórnar um þær úrbætur.

 

4 Önnur mál: Helgi minnir á að leikskólinn verði 10 ára á árinu. Helgi spyr hvort að möguleiki sé á styrk vegna þessa þar sem foreldrafélag leikskólans fyrirhugi að halda afmælisveislu vegna tímamótanna. Helga bent á að senda skriflega umsókn fyrir hönd foreldrafélagsins til sveitarstjórna hreppanna um styrk til að halda veislu/opið hús í tilefni tímamótanna.

 

Guðný Fjóla spyr Loga hvort að honum hafi borist erindi frá sveitarstjórn til handa leikskólastjórn varðandi rekstur leikskólans þar sem sveitarstjórn vísar því til leikskólanefndar að gera tillögur til úrbóta á rekstri leikskólans. Logi svarar því til að slíkt erindi hafi ekki borist. Það eina sem honum sé kunnugt um þetta mál sé það sem hann hafi lesið um í fundargerð sveitarstjórnar sem borin sé út í hvert hús. Guðný segir að sveitarstjórn eða hluti hennar sé ekki ánægð með rekstur leikskólans og telji hann vera of dýran miðað við sambærilega leikskóla. Er þar m.a. bent á leikskólann á Grenivík.

 

Ákveðið var á fundinum að taka þetta mál fyrir undir liðnum önnur mál. Leikskólanefnd hefur ekki séð nýjan samanburð á rekstri sambærilegra leikskóla og auglýsir eftir þeim samanburðartölum sem sveitarstjórn hefur væntanlega undir höndum. Ef nýjar samanburðartölur liggja ekki fyrir gerir leikskólanefnd það að tillögu sinni að sveitarstjóri taki slíkar samanburðartölur saman þannig að samanburður fáist helst á milli nokkurra skóla. Samanburðartölurnar yrðu að vera vel sundurliðaðar til að þær kæmu að gagni þ.e launaliður, ræsting, matur, leikskólagjöld, húsnæði, leikföng, viðhald og fl.

 

Oft hefur því verið fleygt fram að leikskólinn á Grenivík sé til að mynda mun ódýrari í rekstri en leikskólinn okkar. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum þá er einn faglærður leikskólakennari starfandi við þann leikskóla en til að mynda þrír hjá okkur. Nálægðin við Akureyri gerir það að verkum að auðveldara er að fá menntað starfsfólk til starfa við leikskólann okkar en til að mynda á Grenivík. Margir, jafnvel flestir, myndu telja þetta kost en ekki galla en vissulega kostar það sitt. Leikskólakennari er löggild starfsstétt og ber því að auglýsa þær stöður sem ófaglært starfsfólk er í, einu sinni á ári. Það að ætla að stuðla að því af hafa færri ófaglærða innan skólans á móti hinum faglærðu er því ekki inni í myndinni. Þar af leiðandi þarf endurnýjun á starfsfólki ekki endilega að verða til þess að launaliðurinn lækki vegna uppbyggingar launakerfisins. Leikskólakennarar raðast í launaflokka efir starfsaldri, lífaldri, menntun og fl.

 

Leikskólinn Álfasteinn er eins og allir vita lítil rekstrareining. Þar af leiðandi er oft erfitt að finna jafnvægi á milli barngildis og starfsfólks. Einingin bíður ekki upp á neinar tilfærslur á milli deilda líkt og í stærri skólum sem kemur sér afar illa m.a. þegar um veikindi starfsfólks er að ræða svo og til að fólk geti nýtt sér lögboðinn matar- og kaffitíma svo eitthvað sé nefnt. Þá bíður húsið ekki upp á matar- né vinnuaðstöðu fyrir starfsfólkið sem það á lögboðinn rétt á samkvæmt kjarasamningum. Fastir kostnaðarliðir varðandi húsnæðið deilast niður á fá börn, það er innkomu leikskólabarna af fáum börnum. Langvarandi veikindi starfsfólks á síðustu misserum hefur verið rekstrinum hvað erfiðastur og mjög kostnaðarsamur. Við því er víst lítið annað hægt að gera nema að vona að heilsa starfsfólksins verði betri í framtíðinni.

 

Barn með sérþarfir hefur vissulega verið leikskólanum dýrt þar sem það krefst eins starfsmanns með sér. Fyrirséð er að annað barn með sérþarfir komi inn í skólann um áramót þannig að sá liður á væntanlega eftir að hækka. Líkt og það er skylda sveitarfélaga að reka leikskóla þá er það einnig skylda leikskólanna að taka við þessum börnum og veita þeim þá þjónustu sem þau eiga rétt á. Það liggur hins vegar ljós fyrir að sökum smæðar skólans að þá mun þetta auka enn á þrengslin, þá sér í lagi hvað varðar aðstöðu starfsfólks sem eykst um einn með hverju barni með sérþarfir.

 

Ein leið, sem leikskólanefnd sér, til að minnka kostnað sveitarfélagsins er hækkun leikskólagjalda. Hækkun leikskólagjalda, umfram það sem gengur og gerist, gæti þó orðið tvíbent þar sem það gæti orðið til þess að fækkun yrði í leikskólanum þar sem foreldrar myndu í auknum mæli vera heim hjá börnunum. Þannig gætu útsvarstekjur sveitarfélagsins minnkað sem kæmi á móti hækkuninni. 

 

Ef sveitarfélagið er þannig statt að það getur ekki rekið leikskólann verður það að leita annarra leiða til að sinna skyldum sínum. Samningur við Akureyrarbæ um pláss í leikskólum bæjarins er einn kostur. Hvort að hann sé farsæll eða raunhæfur skal ósagt látið.

 

Uppi hafa verið hugmyndir um færslu leikskólans í Þelamerkurskóla í samstarfi við Arnarneshrepp. Engar kannanir né kostnaðaráætlanir hafa verið gerðar á því hvort að sú tilfæring borgaði sig né hvort hún sé í raun raunhæf eða ekki. Ljóst þykir þó að helsta uppbyggingin í Hörgárbyggð sé og verði í kringum núverandi staðsetningu leikskólans. Það er spurning hvort færsla á leikskólanum yrði til að hægja enn frekar á uppbyggingu íbúða hverfis sem er í nágrenni skólans. Auk þess að gera hverfið fráhverft fólki með börn.

 

Leikskólanefnd telur að margt hafi áunnist á undanförnu misseri varðandi rekstur skólans. Leikskólanefnd telur að raunhæfur samanburður við aðra leikskóla þurfi að fara fram þannig að hægt sé að átta sig betur á því hvar kostnaður við leikskólann Álfastein liggur miðað við aðra sambærilega leikskóla.

 

Fundi slitið klukkan 22:22