Fornleifarannsóknir

Í júní hefur hópur fornleifafræðinga verið við rannsóknir á fornum öskuhaugum í Hörgárdal og Öxnadal. Rannsóknin er liður í stærra verkefni sem ber vinnuheitið "Bakland Gása". Markmið rannsóknanna er m.a. að afla efnis til að bera saman við það sem grafið var upp á Gásum á árunum 2001-2006. Í öskuhaugum er að finna mikið magn dýrabeina, sem og aðrar upplýsingar, og munu niðurstöður rannsóknanna geta varpað ljósi á tengsl Gásakaupstaðar við bakland sitt og mikilvægi staðarins á svæðinu.

Rannsóknirnar munu standa yfir til 10. júlí. Að þeim vinnur tæplega 10 manna hópur fornleifafræðinga frá Fornleifastofnun Íslands og CUNY Háskóla í New York, undir stjórn Ramonu Harrisson. Nú þegar hefur verið grafið í öskuhauga á Myrkárdal, á Oddsstöðum í landi Öxnhóls (neðri myndin) og á Skugga í landi Staðartungu (efri myndin), en fyrirhugað er að leita fanga víðar í Hörgárdal og Öxnadal.