Drög að Staðardagskrá 21 fyrir Hörgárbyggð

 

Kynnt á íbúafundi þann 16. janúar 2006

 

Efnisyfirlit

 

Inngangur                                                    3

Atvinnulífið                                                  5

Drykkjarvatn – Heitt vatn                           6

Menningarminjar – náttúruminjar             7

Náttúrumengun og umhverfismál

     (hávaði og loftmengun)                        9

Skipulagsmál                                             10

Úrgangur frá heimilum og

fyrirtækjum                                                11

Skógrækt                                                   12

Neysla og lífsstíll

       (útivist og göngustígar)                   13

Fjölskyldumál, m.a. málefni barna

og unglinga                                              14

Umferð og flutningar                               15

 

 

Inngangur

 

Hörgárbyggð liggur við vestanverðan Eyjafjörð, frá bæjarmörkum Akureyrar, um Kræklingahlíð og út að Hörgá, þaðan um Þelamörk og inn Hörgárdal, beggja vegna Hörgár, og Öxnadal. Þéttbýliskjarni er í Skógarhlíð, rétt við sveitarmörk Hörgárbyggðar og Akureyrar. Grunnskóli sveitarfélagsins er á Þelamörk, auk þess sem þar eru íþróttamannvirki sveitarfélagsins. Leikskólinn Álfasteinn er norðan Skógarhlíðar. Byggðin í sveitarfélaginu mótast nokkuð af því að þjóðvegur 1 liggur eftir því endilöngu, auk þess sem vegalengdir eru nokkuð miklar frá innstu bæjum í Öxnadal og inn í Kræklingahlíð og Skógarhlíð.

 

Nokkrir stórir vinnuveitendur eru í sveitarfélaginu og má þar nefna;  Dvalarheimilið í Skjaldarvík, Húsasmiðjan, Þór hf. Vaka-DNG, Sláturhús B. Jensen, svo nokkur séu talin. Þá vinna margir við skólann, leikskólann og Íþróttamiðstöðina. Hefðbundinn landbúnaður hefur verið á undanhaldi á síðustu árum, en þó eru allmargir sem hafa vinnu af honum.

 

Staðardagskrá 21 er velferðaráætlun sem öllum sveitarstjórnum heimsins ber að gera í samræmi við ályktun Heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun sem haldin var í Ríó de Janeiró 1992. Þessi áætlun skal unnin í samráði við íbúa og hags-munaaðila á hverju svæði og á hún að tryggja komandi kynslóðum viðunandi lífsskilyrði. Með þessari áætlun er verið að vinna að framtíðarsýn fyrir sveitarfélagið og leitast er við að svara þeirri spurningu hvernig íbúarnir og aðrir hagsmunaaðilar vilja að sveitarfélagið þróist á næstu árum og áratugum.

 

Nálægðin við Akureyri hefur mótað þróun byggðar og búskapar í Hörgárbyggð, hluti íbúa sveitarfélagsins sækir vinnu inn á Akureyri, auk þess sem íbúar frá Akureyri sækja vinnu í Hörgárbyggð. Líklegt er að þessar breytingar muni halda áfram og til að geta frekar tekist á við breytta tíma, ákvað hreppsnefnd Hörgárbyggðar sumarið 2005 að mótuð yrði Staðardagskrá 21 fyrir sveitarfélagið. Þar yrði gerð áætlun um hvernig sveitarfélagið ætti að þróast á næstu árum og áratugum, í anda sjálfbærrar þróunar og samkvæmt framtíðarsýn íbúanna sjálfra.

 

Skipuð var nefnd sem annast skyldi mótun fyrstu útgáfu þessa skjals fyrir sveitarfélagið. Í henni sátu eftirtaldir:

Birna Jóhannesdóttir, formaður, Skógarhlíð 41

Anna Lilja Sigurðardóttir, Þelamerkurskóla

Hanna Rósa Sveinsdóttir, Hraukbæ

Oddur Gunnarsson, Dagverðareyri

Guðmundur Sturluson, Þúfnavöllum

Varamenn:

Davíð Guðmundsson, Glæsibæ

Haukur Steindórsson, Þríhyrningi

Gunnhildur Vala Valsdóttir, Fornhaga

 

Með nefndinni vann Ragnhildur Helga Jónsdóttir, starfsmaður Landsskrifstofu Staðar­dagskrár 21.

 

Ákveðið var að taka eftirtalda málaflokka fyrir í þessari vinnu: Atvinnulífið; Drykkjarvatn – heitt vatn; Menningarminjar – náttúruminjar; Náttúrumengun og umhverfismál; Skipulagsmál; Úrgangur frá heimilum og fyrirtækjum; Skógrækt; Neysla og lífstíll; Fjölskyldumál; Umferð og flutningar.

 

 

Í skjalinu eru sett fram fyrstu drög að Staðardagskrá 21 fyrir Hörgárbyggð, sem grunnur að umræðum á samráðsfundi með íbúum hreppsins. Allir eru hvattir til að kynna sér málið og koma á framfæri tillögum sínum um þau verkefni sem brýnt er að ráðast í, sem og viðbótarupplýsingum um stöðu mála í einstökum málaflokkum.

 

Öllum hugmyndum og athugasemdum við skjal þetta skal komið á framfæri við starfsmann Staðardagskrárnefndar, Ragnhildi H. Jónsdóttur, á fundinum, í síma 898 0044 eða á netfangið ragnhildur@environice.is.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


 

Atvinnulífið

 

Stöðulýsing:

-          Atvinnulíf í sveitarfélaginu er nokkuð fjölbreytt miðað við íbúafjölda. Má þar nefna landbúnaður, verslun, dvalarheimili, ferðaþjónusta, grunn- og leikskólar, verkstæði, sláturhús o.fl. Þessi fyrirtæki veita heimamönnum atvinnu, auk þess sem fólk úr öðrum sveitarfélögum sækir vinnu í Hörgárbyggð. Sömuleiðis sækja íbúarnir vinnu út fyrir sveitarfélagið, einkum til Akureyrar. Meðal stórra vinnustaða má nefna að Akureyrarbær rekur dvalar-og öldrunarheimili í Skjaldarvík, auk þess sem það er með skóla í Varpholti ofan Skjaldarvíkur, Hlíðarskóla sem er sérskóli fyrir pilta, sem ekki getað stundað nám innan grunnskóla bæjarins og nú síðast er Akureyrarbær að koma upp slíkum skóla fyrir stúlkur í húsi í Skjaldarvík.  Jafnframt eru fyrirtæki eins og Húsasmiðjan, Þór hf., Vaka-DNG og Sláturhús B.Jensen. Allir þessir vinnustaðir veita nokkuð mörgum atvinnu og kemur stór hluti starfsmanna frá Akureyri. Hvorki hefur verið gerð ítarleg rannsókn á hlutfalli íbúa sem vinna utan sveitarfélagsins, né hve margir sækja vinnu inn í sveitarfélagið.

-          Árið 2004 var hlutfall íbúa í sveitarfélaginu sem voru á vinnualdri (16-67 ára) 68,2%, samanborið við 63,8% á Norðurlandi eystra. Hins vegar var hlutfall barna og ungmenna heldur lægra í Hörgárbyggð, eða 22,9%, samanborið við Norðurland eystra,  þar sem voru 24,9% íbúa á aldrinum 15 ára og yngri.

-          Rúmlega fjórðungur íbúa býr utan lögbýla og hefur því ekki vinnu af landbúnaði. Auk þeirra eru þó nokkrir íbúar lögbýla sem vinna við annað en landbúnað.

-          Ekki hefur verið gerð könnun á duldu atvinnuleysi í sveitarfélaginu, en talið er að lítið sé um það.

-          Hefðbundinn búskapur er á undanhaldi í sveitarfélaginu, einkum í nágrenni Akureyrar. En þróunin hefur verið lík og annars staðar, að búum fækkar og þau stækka jafnframt. Bæði eru kúa- og sauðfjárbú, auk þess sem eitt svínabú er í sveitinni. Nokkrir aðilar rækta hross, auk þess sem nokkrir skógræktarbændur eru í sveitarfélaginu.

-          Sand- og malartekja er á nokkrum stöðum í sveitarfélaginu og eru sumar þessara náma mikið nýttar af Akureyringum.

-           

 

Framtíðarsýn:

-           

 

Verkefnalisti:

-          Átak verði gert í að skapa aðstæður fyrir nýja atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu, bæði ný fyrirtæki, sem og flutning fyrirtækja úr öðrum sveitarfélögum.

-          Þrýst verði á ríkisvaldið og Akureyrarbæ um að Dvalarheimilið í Skjaldarvík verði stækkað

-          Komið verði á fót úrvinnsluverksmiðju fyrir grisjunarvið úr nytjaskógum á svæðinu.

-          Fyrirtæki verði hvött til að taka upp umhverfisstjórnun. Haldið verði námskeið til að kynna þetta og þann ávinning sem hægt er að ná með slíkum aðgerðum.

-          Komið verði á fót þurrkstöð fyrir korn í sveitarfélaginu.-

-           

-           


 

Drykkjarvatn – Heitt vatn

 

Stöðulýsing:

-          Mörg heimili í sveitarfélaginu eru tengd vatnsveitu Norðurorku hf. frá Vaglaeyrum.

-          Einnig hafa ýmsar vatnsveitur verið settar upp, víðs vegar um sveitarfélagið. Meðal annars hafa allir mjólkurframleiðendur verið að setja upp vatnsveitu, þar sem það er skilyrði fyrir mjólkursöluleyfi að hafa viðurkennda vatnsveitu. Gerð er úttekt á vatnsbólunum og sýni tekin úr þeim og eru allir mjólkurframleiðendur með gild starfsleyfi fyrir sín vatnsból.

-          Í heildina er álitið að drykkjarvatn sé nokkuð gott í sveitarfélaginu.

-          Á einhverjum bæjum hafa verið vandræði með að hafa nægt vatn handa mjólkurkúm, þegar mestir þurrkar eru.

-          Hluti sveitarfélagsins er tengdur hitaveitu Norðurorku og eru það ákveðin forréttindi. Jafnframt er unnið að því að tengja efri byggð í Kræklingahlíð við hitaveituna. En ekki hefur verið um það rætt að leggja hitaveitu víðar um sveitarfélagið, en nú er.

-           

 

Framtíðarsýn:

-           

 

Verkefnalisti:

-          Gerð verði úttekt á ástandi drykkjarvatns í sveitarfélaginu, til að vita hvernig ástandið er. (líklega til upplýsingar um þetta hjá Heilbrigðiseftirliti).

-          Gerðar verði úrbætur þar sem þess er þörf í framhaldi af úttekt á ástandi neysluvatns.

-          Hvatt verði til lagningar hitaveitu víðar um sveitarfélagið en nú er.

-           

-           


 

Menningarminjar – náttúruminjar

 

Stöðulýsing:

-          Vaxandi áhersla hefur verið lögð á menningarminjar tengdu Hrauni í Öxnadal, fæðingarstað Jónasar Hallgrímssonar. Þar er fyrirhugað að koma á fót minningarstofu um Jónas, fræðimannaaðstöðu og annarri aðstöðu, auk þess að stofna fólkvang í landi Hrauns. Jafnframt er fyrirhugað að skipuleggja sumarhúsabyggð á svæðinu. Að baki þessu menningarverkefni stendur einkahlutafélagið Hraun í Öxnadal ehf.

-          Á Gásum eru einstakar minjar, þar var einn elsti kaupstaður landsins, frá miðöldum, og er þar að finna merkar verslunarminjar. Staðurinn er friðlýstur minjastaður í umsjá Fornleifaverndar ríkisins og fellur hann undir Minjasafnið á Akureyri, sem hefur umsjón með verkefninu í samvinnu við aðrar stofnanir. Hann er með merkustu minjastöðum í landinu vegna vel varðveittra fornleifa og ríkulegra ritheimilda. Síðustu ár hafa farið fram fornleifarannsóknir og náttúrufarsrannsóknir á svæðinu. Upplýsingar um Gásaverkefnið er að vinna á heimasíðunni: www.gasir.is.

-          Víða annars staðar í sveitarfélaginu eru menningarminjar, s.s. á Skipalóni, Hlöðum, Dagverðareyri, Myrká, Baugaseli, Skriðu og Fornhaga, svo fátt sé talið.

-          Þrjár kirkjur eru í sveitarfélaginu; á Glæsibæ, Bakka og Bægisá og eru þær allar friðaðar. Kirkjugarðar eru á Myrká, þar sem enn er jarðsett og á Laugalandi en hann er aflagður. Einnig eru heimagrafreitir á nokkrum stöðum.

-          Leifar af útræði eru víða við ströndina og voru síldarstöðvar Norðmanna á sex stöðum í Glæsibæjarhreppi hinum forna, þ.e. Dagverðareyri, Hanastöðum, Fjárkletti, Sílastaðatungu, Bakkavík og Jötunheimum.

-          Á Djúpárbakka eru miklar minjar, m.a. braggar sem standa á upprunalegum stað frá stríðsárunum.

-          Á nokkrum bæjum eru gömul bæjarhús, sem eru friðuð, m.a. á Þúfnavöllum og Ásláksstöðum, hvoru tveggja byggð fyrir ríflega 100 árum. Jafnframt stendur hús Ólafar frá Hlöðum ennþá. Einnig er ráðgert að halda við gömlum hrútakofa á Hrauni og rafstöðinni sem þar er og halda henni gangandi.

-          Örnefnaskrár eru til af bæjum í sveitarfélaginu en nokkuð er um liðið síðan þær voru síðast endurskoðaðar.

-           

 

Framtíðarsýn:

-           

 

Verkefnalisti:

-          Markvisst verði unnið að því að nýta þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á Gásum til að kynna staðinn og koma honum á framfæri. Þetta verði gert í samvinnu við Minjasafnið á Akureyri sem hefur verkefnisstjórn í Gásaverkefninu.

-          Ferðaþjónusta sem byggir á menningarminjum í sveitarfélaginu verði efld, t.d. verði svæðin opin á ákveðnum dögum yfir sumarið og möguleiki gefist á hringferð þar sem farið er á milli þessara staða. Þessa hringferð mætti tengja ferð út í Hrísey.

-          Örnefnaskrár í sveitarfélaginu verði endurskoðaðar.

-          Merkingar á minjum í sveitarfélaginu verði bættar, t.d. verði sett upp merki við þjóðveginn sem vísi á merka staði, fjarlægð frá þeim o.s.frv.

-          Unnið verði að skráningu sagna sem tengjast eyðibýlum í sveitarfélaginu. Jafnframt verði sagnir sem tengjast jörðum í byggð skrásettar.

-          Ræktunarminjum í sveitarfélaginu, s.s. áveituskurðum, beðasléttum, túngörðum o.fl. verði haldið til haga og upplýsingum um þær komið á framfæri við heimamenn og gesti. Meðal annars verði auglýst í fréttablaði sveitarfélagsins eftir upplýsingum um þessar minjar.

-           

 


 

Náttúrumengun og umhverfismál (hávaði og loftmengun)

 

Stöðulýsing:

-          Umgengni í sveitarfélaginu er víða í nokkuð góðu lagi, þó sums staðar megi bæta hana. Mörg hús eru ekki notuð lengur og þyrfti að rífa sum þeirra til að bæta ásýndina og minnka hættu sem af þeim stafar. Þó þarf að huga að varðveislugildi húsa áður en þau eru rifin.

-          Mengun hefur borist í Lónsá og er það einkum frá sláturhúsi sem stendur á bökkum hennar. En verið er að koma í veg fyrir þetta, í tengslum við endurnýjun starfsleyfis sláturhússins.  Einnig hefur komið fyrir að svínaskítur hafi borist í læk sem liggur rétt hjá leikskólanum á Álfasteini, einkum þegar verið er að dæla úr haughúsinu við svínabúið.

-          Samkvæmt rannsókn Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra er Hörgá lítt snortin og mengun tiltölulega lítil í henni.

-          Gróður hefur tekið við sér á síðustu árum, einkum vegna minni beitar.

-          Víða eru ónýtar girðingar til lýta í sveitarfélaginu, auk þess skaða sem þær geta valdið.

-          Íbúum hefur staðið til boða að fá unglinga út vinnuskólanum til að aðstoða sig við ýmsa vinnu, s.s. að mála eða rífa ónýtar girðingar, en það hefur lítið verið nýtt.

-          Hávaðamengun er nokkur, einkum frá þjóðvegi 1 sem liggur í gegnum endilangt sveitarfélagið.

-          Loftmengun er einnig nokkur frá umferð á þjóðvegi 1, en aðallega þó frá landbúnaði, einkum í nágrenni Skógarhlíðar.

-           

 

 

Framtíðarsýn:

-           

 

Verkefnalisti:

-          Stofnuð verði hvatningarverðlaun fyrir góða umgengni. Fyrirmynd verði t.d. sótt til Eyjafjarðarsveitar. Fenginn verði utanaðkomandi aðili til að taka þetta út.

-          Íbúar verði hvattir til að koma gömlum vélum og því um líku, þannig fyrir að snyrtilegt sé, t.d. þessu sé raðað snyrtilega upp og helst þar sem lítið ber á.

-          Lagt verði til við sveitarstjórn að skipulagsnefnd verði útvíkkuð og hún hafi jafnframt með umhverfismál að gera.

-          Bændur verði hvattir til að nýta búfjáráburð betur með því að fella hann ofan í grassvörð. Með því móti minnkar loftmengun af völdum búfjáráburðar.

-          Sveitarfélagið leggist gegn urðun úrgangs í sveitarfélaginu vegna loftmengunar og hættu á foki af urðunarstaðnum.

-          Íbúar hverði hvattir til að halda við gömlum húsum sem hafa menningargildi.

-          Íbúar verði hvattir til að rífa niður girðingar sem eru ónýtar eða hætt er að nota.

-           


 

Skipulagsmál

 

Stöðulýsing:

-          Vinna við gerð aðalskipulags Hörgárbyggðar er komin vel af stað. Samið hefur verið við fyrirtækið Landmótun hf. og er áætlað að vinnan klárist árið 2007.

-          Sveitarfélagið á sjálft lítið af heppilegu byggingarlandi og hefur það staðið uppbyggingu í sveitarfélaginu fyrir þrifum.

-          Hugmyndir hafa verið uppi um skipulagningu og uppbyggingu á svæðinu kringum Þelamörk. Það hefur hins vegar strandað á eignarhaldi jarðarinnar, sem er í eigu Legatsjóðs Jóns Sigurðssonar en hins vegar eru teikn á lofti um að breyting geti orðið þar á.

-           

 

Framtíðarsýn:

-           

-           

 

Verkefnalisti:

-          Svæði undir frístundahúsabyggð verði skipulagt í sveitarfélaginu, t.d.  á Skútasvæði.

-          Lokið verði við gerð aðalskipulags. Ábyrgð: Sveitarstjórn. Verklok: árslok 2007.

-          Unnið verði að því að hafa nægilegt framboð af lóðum fyrir íbúðarhúsnæði í nágrenni Akureyrar og kringum Þelamörk. Jarðaeigendur verði hvattir til að huga að skipulagningu jarða sinna í því skyni.

-          Í aðalskipulagi verði tekið á skipulagi frárennslismála, einkum í Skógarhlíð.

-          Sveitarfélagið útbúi samþykktir þar sem skilgreind eru stærðarmörk þeirra svæða sem tekin eru undir skógrækt og þurfa að fara í mat á umhverfisáhrifum.

-           

-           

 

 

 

 

 

 

 

 


 

Úrgangur frá heimilum og fyrirtækjum

 

Stöðulýsing:

-          Samkvæmt upplýsingum frá Sorpeyðingu Eyjafjarðar var skráður úrgangur á hvern íbúa í Hörgárbyggð 1.639 kg á árinu 2004, eða 639 tonn alls. Þetta var mesta magn á íbúa af sveitarfélögum á starfssvæði Sorpeyðingar Eyjafjarðar. Þar af voru 4,9 tonn af við sem fór í endurvinnslu, 12,3 tonn af steinsteypu sem fór í geymslu á urðunarstað í Glerárdal og 280 tonn af sláturúrgangi sem fór í urðun.

-          Úrgangur frá heimilum er hirtur hálfsmánarlega og útvegar gámafyrirtækið hverju heimili eitt sorpílát, en þau geta verið af mismunandi stærðum.

-          Fyrirtækin sjá sjálf um hirðingu og meðhöndlun úrgangs sem fellur til hjá þeim og greiða þann kostnað sem þessu fylgir. Úrgangur frá fyrirtækjum er 60-65% af því sorpi sem fellur til í sveitarfélaginu og flutt er til urðunar.

-          Ekki er um flokkun á úrgangi að ræða, nema brotajárn og rúlluplast. Brotajárn er hirt einu sinni á ári en síðan geta íbúar fengið bíl oftar til að sækja brotajárn, ef þurfa þykir. Rúlluplast er sótt á bæi mánaðarlega yfir veturinn og flutt í Sagaplast á Akureyri. Auk þessa geta íbúar farið með flokkaðan úrgang inn á Akureyri, á gámastöðvar þar.

-          Sorphirðugjöld á hvert eldhús eru kr. 10.000,- á ári.

-          Heildarkostnaður sveitarfélagsins vegna hirðingar og förgunar úrgangs umfram tekjur vegna sorphirðu voru 1,8 milljónir króna árið 2004. Inni í þessum kostnaður er greiðsla sveitarfélagsins til Sorpeyðingar Eyjafjarðar bs, upp á liðlega 300 þúsund krónur, upp í framkvæmdakostnað vegna nýrra úrræða í förgunarmálum. Því er ljóst að tekjur af þessum málaflokki standa einungis undir hluta útgjaldanna sem af honum hlýst.

-           

 

Framtíðarsýn:

-          Endurvinnsla úrgangs verði almenn og sá úrgangur sem ekki er endurunninn verðir brenndur til orkuvinnslu.

-           

 

Verkefnalisti:

-          Komið verði á sorpbrennslu í samvinnu við önnur sveitarfélög á starfssvæði Sorpeyðingar Eyjafjarðar.

-          Átak verði gert í að minnka myndun úrgangs. Það verði gert með gjaldtöku og fræðslu til íbúanna.

-          Komið verði á flokkun úrgangs heima á heimilunum og skapaðir möguleikar fyrir íbúana að koma frá sér flokkuðum úrgangi.

-          Gjöld vegna hirðingar og meðhöndlun úrgangs standi undir þeim kostnaði sem af þessu hlýst. Ennfremur verði gjöld fyrir þetta tvennt aðskilin.

-          Upphæð sorphirðugjalds verði miðuð við magn úrgangs sem fellur til. Gjaldflokkar miðist við tíðni hirðingar úrgangs og/eða stærð úrgangsíláts.

-           

-           

 


 

Skógrækt

 

Stöðulýsing:

-          Í sveitarfélaginu eru níu jarðir sem hafa gert samning við Norðurlandsskóga. Þær eru: Ásláksstaðir, Dagverðareyri, Glæsibær, Hraukbæjarkot, Moldhaugar, Steðji/Skógar, Gerði, Flaga og Skjaldastaðir. Samtals eru það 598 ha sem gerðir hafa verið samningar um. Samningarnir byggjast á því að ríki greiði 97% af öllum kostnaði í upphafi en það er bundið þeim skilyrðum að við skógarhögg ber skógarbónda að greiða í ríkissjóð 15% af söluverðmæti timburs á rót. Upplýsingar um Norðurlandsskóga er að finna á heimasíðunni www.nls.is.

-          Auk Norðurlandsskóga er skógrækt á nokkrum öðrum jörðum, um 350 ha að stærð. Þar af hefur Skógræktarfélag Eyfirðinga umsjón með tveimur svæðanna, þ.e. á Miðhálsstöðum og Laugalandi. Skógrækt ríkisins hefur umsjón með svæðinu á Vöglum.

-          Alls eru því um 850 ha ræktaður eða fyrirhugaður skógur í sveitarfélaginu, sem getur bundið kolefni úr útblæstri um 1000 bíla á ári, sem ekið er 25.000 km ár hvert. Þetta gæti opnað möguleika á viðskipti með bindingu kolefnis.

-          Á vegum Norðurlandsskóga hefur verið unnið og samþykkt svæðisskipulag skógræktar á Norðurlandi, sem unnið er eftir við skipulag og framkvæmdi.

-          Á nokkrum stöðum í sveitarfélaginu eru fornar skógarleifar, t.d. í Barkárgili.

-          Skjólbeltarækt er veruleg á nokkrum jörðum í sveitarfélaginu og hefur hún verið styrkt af Norðurlandsskógum.

-           

-           

-           

 

Framtíðarsýn:

-           

-           

 

Verkefnalisti:

-          Jarðeigendur verði hvattir til að taka þátt í Norðurlandsskógum. Einkum verði horft til svæða inn til dala, sem henta illa til annarra nytja, s.s. fyrir byggingarland. 

-           

-           

 

 

 

 

 

 

 

 


 

Neysla og lífsstíll (útivist og göngustígar)

 

Stöðulýsing:

-          Grunnskólinn hefur bæði verið með verkefnið „Útiskóli“ og „HHH-verkefnið“. Það síðarnefnda felur í sér að breyta neyslumynstri íbúanna, þ.e. barnanna í hreppnum. Börnin eru hvött til að drekka vatn með mat og milli mála.

-          Íþróttamannvirkin á Laugalandi nýtast til að efla heilsu og bæta lífstíl íbúa sveitarfélagsins, en þau eru einkum leigð út til félaga og einstaklinga, m.a. frá Akureyri.

-          Sveitarfélagið er ekki aðili að verkefninu „Vistvernd í verki“.

-          Áætlanir eru uppi um að útbúa fólkvang á Hrauni í Öxnadal og sem hluti af því er að merkja gönguleiðir á svæðinu.

-          Í sveitarfélaginu eru bæði ferðafélagið Hörgur og ungmennafélagið Smárinn, en félagssvæði þeirra er líka í Arnarneshreppi, auk annars staðar. Þau hafa staðið fyrir ýmsum uppákomum sem tengjast útivist, íþróttum og bættum lífstíl, s.s. útivistar- og íþróttadagar hjá Smáranum, Jónsmessunæturgaman og gönguferðir.

-           

-           

                      

Framtíðarsýn:

-           

-           

 

Verkefnalisti:

-          Þelamerkurskóli gerist aðili að Grænfánaverkefninu.

-          Tekin verði upp vistvæn innkaup á vegum sveitarfélagsins og öllum stofnunum þess.

-          Átak verði gert í að auka nýtingu heimamanna á íþróttamannvirkjum á Laugalandi.

-          Skógræktarsvæðið fyrir ofan Laugaland verði útbúið með gönguleiðum, undirgöng verði sett undir þjóðveg 1 og göngubrú yfir Krossastaðaá. Þetta verði gert til að auka möguleika á útivist.

-          Göngustígar verði útbúnir í skógræktarsvæðum í sveitarfélaginu. Byrjað verði á Laugalandsreit og það verði tengt við skógræktarsvæðið í Vöglum.

-          Útbúin verði stikuð gönguleið frá Hálsi, um Hraunsvatn, Hraun og aftur að Hálsi.

-          Útbúin verði útivistarsvæði víðar í sveitarfélaginu sem væru opin almenningi.

-          Sett verði undirgöng undir þjóðveg nr. 1 í nágrenni við Þelamerkurskóla.

-           

-           

-           


 

Fjölskyldumál, m.a. málefni barna og unglinga

Tengist neyslu- og lífstíl

 

Stöðulýsing:

-          Ýmiss konar félög eru starfandi í hreppnum en þau eru misjafnlega virk. Nokkur helstu félögin eru kvenfélag, tvö fjárræktarfélög, hestamannafélag, bridgefélag, ferðafélagið Hörgur og ungmennafélagið Smárinn. Sum þeirra eru einnig fyrir íbúa Arnarneshrepps.Leikfélag Hörgdæla, sýnir á Melum í Hörgárdal annan hvern vetur, oftast við mjög mikla aðsókn.

-          Félög í hreppnum (ungmennafélag, kvenfélag, hestamannafélag, kirkjukór og leikfélag) halda sameiginlega árshátíð.

-          Kirkjukór Möðruvallakirkju er starfandi.

-          Félag aldraðra, Þristurinn, var sameinað félagi aldraðra á Akureyri fyrir nokkrum árum.

-          Mikið félagslíf er í tengslum við grunnskólann, en að öðru leyti er félagslíf í hreppnum frekar dauft. Þó eru nokkrir árlegir viðburðir s.s. þrettándagleði, Fífilbrekkuhátíðin á Hrauni í Öxnadal og Jónsmessuvaka í Baugaseli. Einnig er félagsvist og bridge spiluð reglulega. Sumargleði Smárans er árleg og réttarball einnig og/eða jólaball, að ógleymdum þorrablótunum.

-          Sveitarfélagið heldur úti heimasíðu, www.horgarbyggd.is, sem er nýttur sem frétta- og upplýsingamiðill.

-          Sveitarfélagið er með þjónustusamning við Akureyrarbæ um faglega þjónustu varðandi félagsþjónustu og skólaþjónustu, en það sér hins vegar sjálft um heimilisaðstoð við aldraða í sveitarfélaginu.

-           

-           

-           

 

Framtíðarsýn:

-           

-           

 

Verkefnalisti:

-          Öldruðum í sveitarfélaginu verði boðið í Þelamerkurskóla tvisvar sinnum á vetri, þar sem þeir nytu samvista við börnin í skólanum. Fjöldi heimsókna verði síðan endurskoðaður í ljósi reynslunnar.

-          Félagslíf í sveitarfélaginu verið eflt. Haldin verði hátíð byggðarlagsins sem ætluð sé fjölskyldufólki.

-          Tryggt verði að allir íbúar sveitarfélagsins hafi gott netsamband.

-          Íþróttahúsið á Laugalandi verði nýtt betur fyrir íbúa sveitarfélagsins og þeir hafi forgang að notkun þess.

-           

 

 

 


 

Umferð og flutningar

 

Stöðulýsing:

-          Þjóðvegur 1 liggur langsum gegnum sveitarfélagið. Miklir þungaflutningar eru á þeim vegi, með tilheyrandi hljóð- og loftmengun, auk hættu fyrir vegfarendur og íbúa sveitarfélagsins.

-          Flestir vegir utan þjóðvegar nr. 1 og Ólafsfjarðarvegar nr. 82 eru malarvegir og í misjöfnu ásigkomulagi.

-          Brýr á veginum inn Hörgárdal er orðin léleg og þarfnast lagfæringar.

-           

-           

 

Framtíðarsýn:

-           

-           

 

Verkefnalisti:

-          Hámarkshraði á þjóðvegi 1 við Þelamerkurskóla verði lækkaður í 50 km/klst. Þetta verði gert t.d. með ljósaskilti með hraðamæli.

-          Merkingar verði bættar í nágrenni grunnskólans, á starfstíma hans.

-          Vegirnir um Skottið og Kræklingahlíð verði lagðir bundnu slitlagi.

-          Vegur vestan Hörgár verði lagaður, færður úr bæjarhlaði á tveimur bæjum og einbreiðar brýr verði lagaðar.

-          Sett verði undirgöng undir þjóðveg nr. 1 í nágrenni við Þelamerkurskóla.

-          Hraði á þjóðvegi 1 við Þelamerkurskóla verði lækkaður í 50 km/klst.

-          Hraði á þjóðvegi 1 við Dvergastein verði lækkaður í 70 km/klst.

-           

-           

-