Byggðir Eyjafjarðar 2010 komin út

Út er komin bókin Byggðir Eyjafjarðar 2010 sem Búnaðarsamband Eyjafjarðar gefur út í tilefni af 80 ára afmæli sambandsins sem fagnað var í fyrra. Í bókinni er umfjöllun um allar byggðar jarðir, stök hús og gömul býli á starfssvæði BSE við Eyjafjörð, þ.e. í sveitarfélögunum Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Hörgársveit, Akureyri og Eyjafjarðarsveit. Búnaðarsamband Eyjafjarðar gaf á sínum tíma út hliðstæðar bækur sem miðuðust annars vegar við árslok 1970 og hins vegar árslok 1990. Í síðarnefndu útgáfunni er að finna ábúendatal bújarðanna aftur til ársins 1900. 

Vinna við bókina hefur staðið um tveggja ára skeið en í þriggja manna ritnefnd sem Búnaðarsamband Eyjafjarðar skipaði sátu Guðmundur Páll Steindórsson á Akureyri, Jóhann Ólafur Halldórsson í Hrafnagilshverfi og Valdimar Gunnarsson á Rein II, Eyjafjarðarsveit. Þeir eru höfundar að stærstum hluta texta.

Í Byggðum Eyjafjarðar 2010 er gerð grein fyrir ábúð á jörðum á tímabilinu 1990-2010 og miðast upplýsingar bókarinnar við árslok 2010. Gerð er grein fyrir ábúendum hverrar bújarðar og börnum þeirra. Örstutt staðháttalýsing er um jörðina, ásamt upplýsingum um byggingar, ræktað land og búrekstur. Þá fylgir ábúendatal fyrir tímabilið 1990-2010. Myndir eru af öllum bæjum, sömuleiðis myndir af miklum meirihluta ábúenda, þ.e. öllum þeim sem þáðu boð um myndatöku vegna útgáfu bókarinnar. Alls er fjallað um 286 jarðir með þessum hætti í bókinni.

Með sama hætti og varðandi bújarðirnar, eru myndir og upplýsingar um stök íbúðarhús sem bera sérnöfn. Gerð er grein fyrir íbúum og myndir af þeim. Í heild er fjallað um 155 stök hús. Loks eru upplýsingar um gömul býli í sveitarfélögunum, þ.e. þar sem heimildir eru um ábúð eftir 1900. Þau eru tæplega 300 talsins.

Inngangskafli er fyrir hvert sveitarfélag og yfirlitskort þar sem öll býli og stök hús sem til umfjöllunar eru í bókinni eru merkt. Yfirlitsmyndir og kort eru af þéttbýlisstöðum í sveitarfélögunum ásamt íbúaskrám. Kaupstaðirnir fjórir við fjörðinn eru þó undanskildir. 

Í bókinni er einnig að finna sögulegt yfirlit um starfsemi Búnaðarsambands Eyjafjarðar á tímabilinu 1991-2010. Höfundur þess kafla er Óskar Þór Halldórsson á Akureyri.

Finnbogi Marinósson, ljósmyndari á Akureyri, annaðist mannamyndatökur en stærstan hluta bæjamynda tóku Jóhann Ólafur Halldórsson ritnefndarmaður, Hallgrímur Einarsson á Urðum í Svarfaðardal og Örn Stefánsson á Akureyri.

Ásprent á Akureyri annaðist prentvinnslu en þess má geta að bókin er í blaðsíðufjölda sú stærsta sem þar hefur verið prentuð eða 672 síður. 

 

Sala Byggða Eyjafjarðar 2010 er hafin hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar, Óseyri 2 á Akureyri. Þeir sem ekki hafa tök á að nálgast bókina þar geta pantað hana í síma 460 4477. Þess má einnig geta, að nokkuð upplag er þar enn til af Byggðum Eyjafjarðar 1990. Nýja bókin kostar 17.000 kr. og en útgáfan frá 1990 er seld á 4.000 kr.

 

(Fréttatilkynning frá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar)