Áramót 2017-2018

Kæru sveitungar.
Upp eru að renna síðustu áramót kjörtímabilsins og því við hæfi að fara aðeins yfir hvað stendur helst uppúr í starfsemi sveitarfélagins síðustu þrjú árin og hvað framundan er. Ég kom hér til starfa á vormánuðum 2015 og hef því verið hér í tæp þrjú ár. Margt hefur á dagana drifið og starfið verið bæði skemmtilegt, gefandi og margþætt. Hér var einstaklega vel tekið á móti okkur hjónum og ég hef fundið jákvæðan anda í kringum starf sveitarstjóra og hef ég átt góð kynni og mjög gott samstarf við ykkur og fyrir það vil ég þakka.
Fjárhagslegur rekstur
Óhætt er að segja að fjárhagslegur rekstur sveitarfélagins hafi gengið vel þessi síðustu ár. Í árslok 2014 var handbært fé sveitarfélagsins um 12 milljónir en í lok árs 2017 er áætlað að það verði 45 milljónir. Rekstur sveitarfélagsins hefur verið jákvæður undanfarin ár og á árinu 2017 má ætla að hann verði jákvæður um 32 milljónir króna. Reksturinn skilaði jákvæðri niðurstöðu 2016 um 33 milljónir króna og á árinu 2018 er áætlað að hann skili 31 milljón króna þannig á árunum 2016-2018 er áætlað að reksturinn skili jákvæðri niðurstöðu er nemur um 96 milljónum króna. Talsverðir fjármunir hafa farið í framkvæmdir og þörf viðhalds- og endurnýjunarverkefni á síðustu misserum. Þrátt fyrir það hefur tekist að greiða niður skuldir og er áætlað að skuldir í árslok 2018 verði um 27 milljónum lægri en þær voru í árslok 2014. Allt hefur þetta tekist með góðum grundvelli tekna sveitarfélagsins og hagstæðum rekstri sem stenst vel samanburð við það sem almennt gerist í rekstri sveitarfélaga í landinu.
Skipulagsmál, framkvæmdir og uppbygging
Aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024 fékk afgreiðslu fyrir tveimur árum. Vel tókst til og hefur á grundvelli þess nú verið unnin tvö veigamikil deiliskipulög, við Lónsbakka sem þegar er staðfest og á Hjalteyri sem fær vonandi fullnaðarafgreiðslu fyrir vorið. Þær framkvæmdir sem hæst ber á síðustu árum eru m.a. veigamiklar endurbætur og viðhald á Þelamerkurskóla, sem og leikskólanum Álfasteini og íþróttamiðstöðinni á Þelamörk. Þá fluttu skrifstofur sveitarfélagsins í nýtt húsnæði í Þelamerkurskóla fyrir rúmu ári. Uppbygging fór af stað við Lækjarvelli með starfsemi tveggja fyrirtækja og fleiri eru væntanleg. Nú er framundan uppbygging nýrrar íbúðabyggðar við Lónsbakka þar sem ráðgerð er að allt að 115 íbúða viðbót í smærri íbúðaeiningum við það sem fyrir er. Í tengslum við hana eru nú í gangi samningar við Norðurorku um yfirtöku á fráveitu hverfisins alls með það að markmiði að koma á umhverfisvænni fráveitu með dælingu í fráveitukerfið á Akureyri, hreinsun og síðan útrás á haf út. Náist samningar verður rotþróarlausnum í fráveitu þéttbýlis hætt.
Grunn- og leikskóli
Þelamerkurskóli og leikskólinn Álfasteinn eru veigamestu stofnanir sveitarfélagsins og í þær er eðlilega varið mestu fjármagni til reksturs. Frekar hefur fækkað í grunnskólanum, þó minna en óttast var um tíma og í leikskólanum er nú hvert pláss skipað. Faglegt starf þessara skóla er til fyrirmyndar og rekstur þeirra stenst vel samanburð við sambærilegar skólastofnanir í öðrum sveitarfélögum landsins.
Menning, íþróttir- og tómstundir
Sveitarfélagið hefur stutt við hið fjölbreytta menningarstarf sem fram fer í sveitarfélaginu og mun svo verða áfram. Íþróttamiðstöðin ber nafn með réttu og er miðstöð sveitunganna til að hittast í heita pottinum og spjalla eða fyrir unga sem eldri til að verja tómstundum hvort sem það er í sundlauginni eða í íþróttasalnum. Sveitarfélagið ver talsverðum fjármunum til rekstursins en þeim er að mínu áliti vel varið og eiga stóran hlut í því að auka fjölbreyttni í hinu daglega lífi íbúanna.
Að lokum
Ljóst er að í stuttum pistli sem þessum verður aldrei allt upp talið, en ég vona að með honum verðið þið einhvers vísari. Sveitarstjórnin okkar hefur verið samstíga og skilvirk í störfum sínum á þessu kjörtímabili undir styrkri stjórn oddvita. Mál eru nær aldrei afgreidd í ágreiningi heldur hafa sveitarstjórnarfulltrúum öllum borið gæfa til þess að sammælast um sameiginlega niðurstöðu eftir umræður. Slíkt er til eftirbreytni. Sveitarfélagið hefur á að skipa góðum hópi starfsmanna sem leggja sig fram um að vinna faglega og af dugnaði að störfum sínum. Öll störf sveitarstjórnar og starfsmanna miða að því að sveitarfélagið veiti íbúum Hörgársveitar sem bestu þjónustu sem hægt er á öllum sviðum þeirra þjónustuþátta sem sveitarfélögum er ætlað að veita.
Um leið og ég þakka ykkur fyrir árið sem er að líða, færi ég ykkur sveitungar góðir bestu óskir um gleðileg jól og farsæld um ókomin ár.

Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri