Ágætu íbúar Hörgárbyggðar!

 

Þann 27. maí nk. munu íbúar Hörgárbyggðar, eins og aðrir íbúar þessa lands, ganga að kjörborðinu og kjósa sér nýja sveitarstjórn til næstu fjögurra ára. Tilefni þessara skrifa er sá að fara yfir það helsta sem fráfarandi sveitarstjórn hefur verið að vinna að.

 

Má þar helst nefna að hart var sótt að sveitarstjórn að hún heimilaði Sorpeyðingu Eyjafjarðar að urða sorp í Hörgárbyggð. Fyrst á Gásum, svo á Skútum og að síðustu í landi Skjaldarvíkur. Meirihluti sveitarstjórnar hafnaði alfarið að sorp frá Sorpeyðingu Eyjafjarðar yrði urðað hér í Hörgárbyggð. Helsta ástæða fyrir því að erindinu var hafnað er að mikil mengun stafar af urðun sorps, þ.e. jarðvegs-, lofts- og sjónmengun, ásamt því að ytri aðstæður eru ekki heppilegar hér á þessu svæði með tilliti til vatnsverndar og landrýmis.

Sveitarstjórn telur að vinna þurfi að málefnum Sorpeyðingar Eyjafjarðar á jafnréttisgrundvelli.  Reyna þarf að samræma sjónarmið og horfa á alla þá möguleika sem felast í endurnýtingu og öllum öðrum þeim aðferðum sem til eru til að eyða sorpi.

 

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar hefur samþykkt Staðardagskrá 21 fyrir Hörgárbyggð. Staðardagskrá 21 er velferðaráætlun fyrir íbúa Hörgárbyggðar. Íbúaþing var haldið í janúar 2006 til að fá fram sjónarmið íbúanna við gerð dagskrárinnar. Það helsta sem tekið var fyrir er atvinnulíf, drykkjarvatn, heitt vatn, menningaminjar, náttúruminjar, náttúrumengun, umhverfismál, skipulagsmál, úrgangur frá heimilum og fyrirtækjum, skógrækt, neysla og lífstíll, fjölskyldumál, umferð og flutningar. Íbúar Hörgárbyggðar eru hvattir til að kynna sér Staðardagskrá 21 fyrir Hörgárbyggð og fara að vinna í því að taka hana sér til fyrirmyndar, þar sem þurfa þykir. 

 

Búið er að semja reglugerð fyrir hunda- og kattahald og hefur reglugerðin verið kynnt í fréttabréfi. Einnig er hægt að nálgast hana á heimasíðu Hörgárbyggðar.

 

Unnið er að gerð aðalskipulags fyrir Hörgárbyggð og er áætlað að þeirri vinnu verði lokið vorið 2007. Búið er að halda einn opin fund með íbúum sveitarfélagsins vegna aðalskipulagsins og var hann ágætlega sóttur. Hugmyndir eru uppi um að skipuleggja sumarbústaðalandi í landi Skúta. Áætlað er að leggja reiðveg frá Akureyri og fram á Þelamörk. Ráðgert er að gönguleiðir verði gerðar um skógarreiti ogfleiri staði sem eru til vel til þess fallnir. Að auki má geta þess að þegar hafin undirbúningur að því í skóginum fyrir ofan Þelamerkurskóla, en þar er Skógræktarfélaga Eyfirðinga að verki.

 

Nokkuð hefur verið byggt hér í sveitarfélaginu undanfarin ár. Átta hús hafa risið í Birkihlíð og til stendur að byggja tvö þríbýlishús í Skógarhlíð. Þar með eru allar lóðir sveitarfélagsins seldar og ekki fengist vilyrði fyrir meira af heppilegu byggingalandi á svæðinu ofan Lónsbakka.  Ekki eru komnir íbúar nema í tvö hús í Birkihlíð enn, þó hafa flest húsin þar verið seld. Þá hafa nokkur íbúðarhús verið byggð annars staðar í sveitarfélaginu.

Mikil eftirspurn hefur verið eftir íbúðarhúsalóðum en þar sem sveitarfélagið sjálft hefur ekki haft neinar lóðir til úthlutunar á sínum snærum hefur ekki verið hægt að anna þeirri eftirspurn og er það miður. Sveitarstjórn hefur verið að leita að heppilegu svæði fyrir skipulagt íbúðahúsahverfi með Landmótun, sem er að vinna að aðalskipulagsgerðinni. 

 

Helsti vaxtabroddur þessa sveitarfélags er sá að fjölga íbúum, en til þess þarf land undir íbúðabyggð. Ekki er gott að byggja upp litla íbúðakjarna hér og þar í sveitarfélaginu heldur þarf að vera um nokkuð samfelda byggð að ræða, þar sem dreifð byggð yrði mjög dýr rekstrarlega. Mun auðveldari væri að byggja upp góða þjónustu í þéttari byggðakjarna.

 

Búið er að leggja til allt að tvo  rafmagnsstaura á hvert lögbýli, einnig til þeirra sem hafa verið að byggja ný íbúðarhús. Rafeyri ehf. annaðist verkið og var þar vel að verki staðið. Kostnaði við stauravæðinguna var skipt niður á þrjú rekstrarár þar sem um dýra framkvæmd er að ræða. Frárennslismál eru í þokkalegu lagi. Kannað hefur verið hvort ekki sé hægt að tengja Skógarhlíðarsvæðið inn á frárennsliskerfi Akureyrarbæjar og hefur verið tekið frekar jákvætt í það og er það mál í vinnslu. Unnið er að fornminja- og örnefnaskráningu og lýkur því verkefni í sumar.

 

Eitt af fyrstu verkum síðustu sveitarstjórnar var að standa myndarlega að endurbótum á Félagsheimilinu á Melum. Þar var unnið mikið sjálfboðaliðsstarf af íbúum á svæðinu, svo og félagsmönnum leik- og kvenfélags Hörgdæla enda mikið í ráðist í svo litlu sveitarfélagi. Nauðsynlegt er að fara að taka Hlíðarbæ líka til verulegra endurbóta. Það þarf að vera markmið nýrrar sveitarstjórnar að virkja betur bæði félagsheimilin og leigja þau enn frekar út til mannfagnaða, ráðstefna og annarra menningarviðburða.

 

Á síðasta ári kom í ljós að leikskólinn okkar á Álfasteini var orðin alltof lítill og börn úr Hörgárbyggð voru komin á biðlista. Það var því gripið til þeirra neyðarráðstafanna að segja upp leikskólaplássum þeirra barna sem eiga lögheimili í Arnarneshreppi, það var ekki hjá því komist. Þrátt fyrir það eru börn enn á biðlista í Hörgárbyggð. Auk þess er öll starfaðstaða fyrir starfsfólk leikskólans mjög ábótavant og stenst ekki þær kröfur sem eru í dag.Strax á haustdögum var ákveðið að hefja undirbúning á því að stækka leikskólann á Álfasteini. Sú vinna hefur verið í gangi undanfarna mánuði. Búið er að grunnteikna 160 fm. viðbyggingu við Álfastein, sem sveitarstjórn er búin að leggja blessun sína yfir, að gengið verði útfrá. Kostnaðaráætlun og aðrir verkþættir verða líklega tilbúnir núna í maímánuði. Verið er að reyna að fá eitthvert fjármagn úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til verksins. Ef allt gengur eftir er fyrirhugað að byggt verði við leikskólann á Álfasteini nú í sumar og við þá stækkun verði þar pláss fyrir a.m.k. þrjátíu börn.

Rekstur leikskóla í svo litlu sveitarfélagi er hlutfallslega mjög dýr. Reynt hefur verið eins og kostur er að lækka rekstrarkostnað Leikskólans á Álfasteini t.d. með því að hafa ekki starfsmann í eldhúsi, heldur kaupa matinn tilbúinn. Plássleysi í leikskólanum studdi mjög þá ákvörðun.  Einnig var ráðin starfsmaður til að annast ræstingar en áður var hreingerningarfyrirtæki sem sá um það og var það mjög dýrt. Framlög Arnarneshrepps með þeim börnum sem komu þaðan voru hækkuð verulega en samt ekki nægjanlega til að dekka þann kostnað sem sérhvert sveitarfélag þarf að greiða með hverju barnarými. Þrátt fyrir þetta má segja að rekstrarkostnaður síðast liðin fjögur ár hafi nánast staðið í stað, fyrir utan launaliði.

 

Vert er að minnast á Þelamerkurskóla og Íþróttamiðstöðina á Þelamörk. Þar er unnið virkilega gott uppeldis- og kennslustarf og hefur það sýnt sig að nemendur úr Þelamerkurskóla hafa verið að standa sig mjög vel þegar þau hafa komið inn í framhaldsskóla. Mikil samkeppni hefur ríkt milli íþróttamannvirkjanna á Akureyri og á Þelamörk. Akureyringar hafa náð miklu forskoti með vatnagarðinum í Akureyrarlaug og með tilkomu Bogans. Rekstur Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk hefur því átt  undir högg að sækja og er það miður. En á góðum sumardegi jafnast ekkert á við það að bregða sér í „heita og barnvæna“ laug á Þelamörk og mun það ekkert breytast í hugum fólks sem eiga taugar til Þelamerkurlaugar, hvað sem líður glæstum vatnagörðum.

Lagt hefur verið í kostnaðarsamt viðhald í Þelamerkurskóla, sem hefur skilað sér í betri aðstöðu fyrir nemendur og kennara.  Einnig hefur verið unnið að endurbótum á “sveppnum” í sundlauginni og búningsklefum.

 

Hvað varðar rekstur sveitarfélagsins þá er hann í góðu lagi. Þó nokkur tekjuafgangur varð á síðasta ári og var það annað árið í röð sem það varð. Aðeins einu sinni á síðasta kjörtímabili var hallarekstur á sveitarfélaginu þ.e. rekstrarárið 2003. Jákvæða þróunin stafar fyrst og fremst að auknum skatttekjum sveitarfélagsins á sama tíma og að tekist hefur að halda rekstarkostnaði niðri.

 

Verkefni nýrrar sveitarstjórnar verða áfram mörg. Ný sveitarstjórn þarf virkilega að vinna að frekari uppbyggingu sveitarfélagsins. Þar er fyrst og fremst átt við að fjölga þarf íbúum eins og hægt er en þar þurfa allir íbúar Hörgárbyggðar að leggjast á árarnar. Landeigendur verða að horfa til framtíðar og láta af hendi land undir byggð. Í sameiningarkosningunum haust 2005 kom fram skýr vilji íbúa Hörgárbyggðar á því að þeir vilja búa áfram í sjálfstæðu sveitarfélagi. Þeir vilja geta valið um það hvar börnin þeirra ganga í skóla. Þeir vilja geta valið um það að sorp verði ekki urðað í Hörgárbyggð. Þeir hafa byggt upp sveitarfélag sem hefur metnað til að ganga vel um landið sem þeim var trúað fyrir og skilað því til afkomenda sinna í betra ástandi, en þegar þeir tóku við því. Þeir hafa byggt upp sveitarfélag sem þykir eftirsóknarvert til búsetu, vegna náttúrufegurðar, landsgæða, hreinleika og góðs mannlífs þar sem góður leikskóli og grunnskóli eru hornsteinar samfélagsins.

 

Ný atvinnutækifærin eru til staðar hér í Hörgárbyggð, þar er átt við uppbyggingu Gásakaupstaðar og Hrauns í Öxnadals. Einnig eru ekki öll tækifæri í ferðamannaiðnaði fullnýtt. Nokkrar fyrirspurnir hafa borist um lóðir frá fyrirtækjum, sem ekki hefur verið hægt að anna. Í Staðardagskrá 21 koma fram hugmyndir um að byggja hér upp kornþurrkunarverksmiðju, vinnslustöð fyrir skógarafurðir og gæludýrakirkjugarð svo eitthvað sé nefnt.

 

Vinnuskóli hefur verið starfræktur undanfarin þrjú sumur og hefur það gefist vel og ekki annað að heyra en fólkið í sveitarfélaginu sé ánægt með hann. Hann er nú að hefja sitt fjórða starfsár.

 

Samhliða sveitarstjórnarkosningunum þann 27. maí  n.k. verður gerð skoðanakönnun á því hvort íbúar Hörgárbyggðar vilji kjósa um það að Arnarneshreppur og Hörgárbyggð gangi til sameiningarviðræðna á næsta kjörtímabili.

 

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar hefur á yfirstandandi kjörtímabili sent ályktun til sveitarstjórnar Arnarneshrepps um þann vilja sinn að sameinast Arnarneshreppi  vegna nágrennis sveitarfélaganna og sameiginlegra verkefna, sem er grunnskólinn og Íþróttamiðstöðin á Þelamörk.  Meirihluti sveitastjórnar er sammála um að sameining við Arnarneshrepp yrði rétt skref í sameiningarmálum eins og málin standa. Það myndi auðvelda sameiginlegan rekstur þessara sveitarfélaga og styrkja stöðu grunnskólans og það að nemendur og foreldrar eigi áfram kost á þeirri góðu þjónustu sem skólinn veitir. 

 

Að endingu vil ég hvetja íbúa Hörgárbyggðar til að mæta á kjörstað og nýta kosningarétt sinn. 

 

Með vinsemd og virðingu:

Birna Jóhannesdóttir, ritari sveitarstjórnar.