Aðalfundur Ferðafélagsins Hörgs

23. apr
kl. 20:00

Kæri félagsmaður Ferðafélagsins Hörgs

Nú er komið að aðalfundi hjá Ferðafélaginu Hörgi. Síðasti aðalfundur var haldinn í nóvember árið 2022 sem þýðir að komandi aðalfundur mun í raun gilda fyrir tvö starfsár, 2022 og 2023. Fundurinn verður haldinn í Leikhúsinu á Möðruvöllum, þriðjudagskvöldið 23. apríl og hefst kl. 20. Hefðbundin aðalfundarstörf munu fara fram og fyrir liggja ársskýrslur og ársreikningar þessara tveggja ára.

Á fundinum verður einnig farið yfir ferðaáætlun næsta árs og er stjórnin full tilhlökkunar að halda áfram að fá ykkur með í skemmtilegar gönguferðir. Göngusumarið 2023 var frábært og fjöldinn allur af fólki mætti með okkur í ýmsar ferðir. Svo viljum við gjarnan heyra ykkar raddir og fá tillögur að áhugaverðum gönguferðum sem þið hafið farið eða viljið fara. Í lok fundar ætlar gönguhópurinn Dellurnar, sem hefur gengið vítt og breitt um starfssvæði okkar, að sýna okkur nokkrar myndir og segja frá skemmtilegum göngum sem þær hafa farið í.

Eitt viðamesta verkefni félagsins er að halda utan um gamla bæinn í Baugaseli en þar hefur lítið verið gert undanfarið og komin tími á mikið viðhald. Stjórnin fór af stað síðasta haust og sótti um nokkra styrki fyrir endurbótum og þau gleðilegu tíðindi bárust á dögunum að Húsfriðurnarsjóður styrkir verkefnið um 3 milljónir. Þetta þýðir að á komandi sumri verða framkvæmdir í Baugaseli og við munum eflaust leita til félagsmanna að leggja okkur lið í þessari vinnu. Vonandi verður því vel tekið.

Við biðjum ykkur endilega að láta okkur vita ef netföng ykkar hafa breyst, og/eða þið vitið um félagsfólk sem ekki er á þessum netfangalista.

Okkur langar líka að hvetja ykkur til að finna félagið á Facebook https://www.facebook.com/profile.php?id=100086965746181 og „læka“ við síðuna. Þar inni er að finna upplýsingar um félagið og þar mun birtast dagskrá félagsins fyrir komandi gönguár. Netfang félagsins er horgur1981@gmail.com

Allir velkomnir á aðalfundinn og látið boðið berast um sveitina. Það verður heitt á könnunni og léttar veitingar.

Bestu kveðjur frá stjórn félagsins
Sigurborg Bjarnadóttir, formaður
Sigríður Bjarnadóttir, ritari
Gestur Hauksson, gjaldkeri
Brynhildur Bjarnadóttir, varamaður